leikur eða agi – verkefni eða frelsi – deild eða bekkur
Það er svo merkilegt að reglulega heyrist umræða um að skólakerfið sé ekki að standa sig, að tíma barna sé ekki vel varið í leikskólum eða gæti alla vega verið betur varið þar. Raddir heyrast um að börnin þurfi að takast á við meira krefjandi „akademísk“ verkefni, það sé hægt að nota tímann til að „kenna“ börnunum meira, t.d. að lesa og já stærðfræði á bók. Við þurfum að nýta tímann í leikskólanum til að búa okkur undir samkeppnissamfélög framtíðarinnar, við megum ekki verða aftast í lestinni því á endanum snýst allt um hagtölur. Samfélagsumræða um ögun og agakerfi er og hefur líka verið fyrirferðarmikill. Hin óöguðu fullorðnu finnst sem þeir hafi notið of mikils frelsis og vilja alls ekki börnunum sínum það sama. „Það þarf meiri aga“ heyrist. Til eru alla vega uppeldisaðferðir sem bjóða foreldrum leiðir til að verða að óskum sínum um aukin aga og meiri stýringu. Sjaldnast heyrist að e.t.v. sé samfélag okkar þrátt fyrir allt eins vel statt og þar er vegna þess að við fengum þetta frelsi, fengum að njóta okkar, leika okkur og leyfa sköpun að blómstra í leik með öðrum börnum. Að einmitt þetta „eftirlits- og meinta agaleysi“ hafi orðið okkur á einhvern hátt til góðs. Sé undirstaða skapandi greina (með fleiru). Eða að það geti verið að leikurinn sé barninu jafnnauðsynlegur og fæðan.
Í ágúst las ég frétt um skóla í Hafnarfirði með fyrirsögnininni : Fleiri börn byrja fyrr í skóla. Þar kemur fram að fimm ára deild í grunnskóla hafi verið breytt í fimm ára bekk (já því að í leikskólum eru börn á deildum en í „alvöru“ skólum er það ekki nógu gott, þar þarf bekki) og þar á að flétta leik inn í kennslu en ekki kennslu inn í leik samkvæmt skólastjóranum. Um Krikaskóla er sagt í greininni að þar sé grunnskóli frá tveggja ára til níu ára (samt eru flest börnin á leikskólaaldri í Krikaskóla samkvæmt hefðbundinni skilgreiningu en grunnskóli skal það vera). Ég sá líka í sumar myndir og umfjöllun um fimm ára bekk í Flataskóla í Garðabæ. Í umfjöllun um fimm ára starfið segir á heimasíðu Garðabæjar:
Reynslan hefur sýnt að fimm ára nemendur eru fróðleiksfúsir og hafa gaman af að spreyta sig. Í gegnum leik hafa þau t.d. fengið að læra um stafi og reikning og nú orðið kunna flest þeirra nokkuð í lestri og einföldum reikningi. Þau eru mislangt á veg komin en það breytir engu um ánægju þeirra af skólastarfinu enda kappkostum við að mæta hverju barni þar sem það er statt. … Næsta haust er gert ráð fyrir stækkun leikskóladeildarinnar og þá verður boðið upp á starf fyrir börn frá fjögurra ára aldri. Eins og í fimm ára bekknum verður stuðst við aðalnámskrár leik- og grunnskóla. (leturbreyting mín – af vef Garðabæjar)
Myndirnar á vefnum sýndu flestar börn vinna verkefni við borð. Það má vera að þau vinni ekki allt við borð en með því að velja þessar myndir er skólinn að sýna og leggja ákveðnar áherslur, skapa ímynd. Ég verð að viðurkenna að mér brá að lesa þessa færslu m.a. vegna þeirra viðhorfa og áherslna sem koma fram. Ástæða þess að ég bendi á þetta er til að sýna að þessi umræða er á fullu hér og í henni speglast viðhorf til þess sem við getum kallað hefðbundins leikskólauppeldis sem byggist á leik og meiri leik. Viðhorf um að leikskólinn og áherslur hans á leik og frelsi séu ekki eftirsóttar. Auðvitað verða margir leikskólakennarar fyrir áhrifum (eða eru bara sammála viðhorfum sem þarna birtast) og þeir leitast við að innleiða vinnustundir og verkefnastundir í leikskólastarfið, sérstaklega hjá elstu börnunum. Þar sem allt mögulegt sem tengist lestri, skrift og stærðfræði er tekið fyrir og ekki alltaf á forsendum leiks. Ofan á allt eru rannsóknir sem tengjast heilanum að yfirtaka sviðið og áhersla á það sem kallað er glugga tækifæra og snemmtæka íhlutun. Afleiðingin er að leikskólakennarar (líka í útlöndum) hafa margir hætt að þora að treysta á leikinn sem meginaðferð. Hafa áhyggjur af því að þeir séu með því að svipta börnin tækifærum og möguleikum. En svo má spyrja hverju eru þau svipt með hinum akademísku áherslum?
Ég fylgist töluvert með því sem er að gerast í heimi leikskólans og rannsókna tengdum leikskólabörnum. Þar er sífellt fleiri og fleiri sem hafa áhyggjur af því að við viljum bókvæða börnin og starfið, gera þau að litlum hlýðnum og velöguðum einstaklingum sem fylgja reglum skilyrðislaust. Það eru margir sem velta fyrir sér hvernig einstaklingar verða þeir sem búa við slíkt uppeldi. Og þar eru líka hópar sem hafa lagst í rannsóknir þar sem þetta eða tengt efni er viðfangsefnið.
Ein slíkra rannsókna er frá háskólanum í Boulder, Kólaradó þar sem skoðað var hvort að tengsl væru á milli óskipulagðrar/skipulagðrar virkni og hæfni barna til sjálfstýringar, til að setja sér eigin markmið og framfylgja þeim. Meðal þess sem var flokkað sem óskipulögð virkni er frjáls leikur (úti og inni, eitt og með öðrum börnum, íþróttir t.d. á skólalóð á forsendum barna), yndisbókalestur, leikskólastarf og annað sem byggðist á sjálfstýrðu vali barna. Meðal þess sem var flokkað sem skipulagt er virkni sem fullorðnir stýra og setja markmið, eins og íþróttaæfingar tónlist, trúarlegt starf, heimanám, heimilisstörf og fleira. Í rannsókninni kom fram sterk tengsl á milli þess að leika sér og taka þátt í óskipulögðum athöfnum við meiri sjálfstýringu og getu til að setja og vinnu að eigin markmiðum. Ástæða þess að fólk er svo upptekið af sjálfstýringu (og trú á eigin getu) er að rannsóknir sýna að þá sem skorti þessa hæfni í bernsku eru verri til heilsu, búa við verri félagslega og efnahagslega stöðu á fullorðinsárum. Það er því til nokkurs að vinna.
Þessi rannsókn er ein í röð rannsókna sem eru að birtast og benda i sömu átt – að það að leika sér hafi gildi í sjálfu sér og það sé mikilvægt fyrir þroska barna á ýmsan hátt. Hver og ein segir kannski ekki mikið en með tímanum er að myndast gagnagrunur og vísbendingar sem vert er að skoða. Það sem ég les og tek til mín er að það sé réttur barna að leika sér og það sé þar af leiðandi skylda okkar leikskólakennara og annarra sem er umhugað um framtíð barna að berjast með kjafti og klóm fyrir leikmiðuðum leikskólum fyrir öll börn.
KD október 2014
Bættt við þann 30 október
Af gefnu tilefni er best að taka fram að ég er aðeins að fjalla um hvernig umræðan birtist á opinberum vettvangi á vef, í skýrslum og í blöðum. Hvernig starfað er í viðkomandi skólum með viðkomandi börnum er síðan annað mál og viðkomandi bestir til að segja frá sjálfir er þeir kæra sig um. Færslan er ekki dómur yfir einstökum skólum heldur er makrmiðið að skoða þróun. Fyrir þá sem ekki þekkja þá felur aðferðin, orðræðugreining í sér að leitað er eftir þrástefi, þar er lesið í það hvernig hlutir eru settir fram og það sem ekki er sagt en gefið í skin. Það sem ég var að gera hér var er að skoða mismunandi skjöl sem benda í sömu átt, þar sem samskonar orðræða birtist og myndar saman perlur á löngu bandi. (kd)
Heimild:
Barker J: E., Semenov, A. D., Michaelson L., Provan L. S., Snyder H.R., og Munakata Y. (2014). Less-structured time in children’s daily lives predicts self-directed executive functioning. Frontiers in Psychology, (5)
Sorry, the comment form is closed at this time.