Kristin Dýrfjörð

Skólaskylda fimm ára barna?

skýrsla

Í mars 2014 var gefin út skýrsla sem Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu lét gera um skólamál. Hún er í röð eða hluti af stærri skýrslu sem ber heitið; Skólar og menntun í fremstu röð og þessi er nefnd Samvinna skólastiga frá leikskóla að háskóla. Í skýrslunni er stefnumótun sveitarfélaganna um samstarf þeirra á milli og það sem þau sjá sem framtíðarmúsík í skólamálum. Meðal þess sem þar er varpað fram er að  fimm ára börn verði öll gerð skólaskyld. Eða eins og segir í aðgerðaráætlun;

„Í samhengi við mögulegan flutning framhaldsskóla til sveitarfélag og samræmingu á rekstri allra skólastiga fram til háskólanáms á einni hendi verði skoðað hvort rétt sé að lengja skólaskyldu, s.s. með því að gera síðasta ár leikskólans að skólaskyldu.“

Ekki er ljóst hvort heldur höfundar eru að tala um skólaskyldu innan eða utan leikskólans því seinna í ritinu er rakið hversu vel hefur gengið að reka fimm ára deildir í nokkrum grunnskólum á höfuðborgarsvæðinu og má e.t.v. lesa í það. Hinsvegar er nokkuð ljóst að undirliggjandi markmiði er aukin áhersla á lestur og stærðfræði. Ég er ein þeirra sem velti stundum fyrir mér hinum svonefndu fiðrildaáhrifum af stjórnvaldsákvörðunum. Hvað gerist ef ef togað er í óróan á einum stað, allur óróinn fer af stað. A hefur því gáruáhrif á B og svo framvegis. Nú þegar hefur menntamálaráherra boðað stórtækar breytingar á framhaldsskólanum, hvað merkir það fyrir leikskólann? Á það má líka benda að nú í október kom út skýrsla  hjá Viðskiptaráði Íslands, Stærsta efnahagsmálið: Sóknarfæri í menntun þar er horft með velþóknun til Noregs og vilja atvinnurekanda þar til að tengja saman gjaldfrelsi og lestrar- og reiknikennslu í leikskólum.

Hvar verður best menntaða fólkið?

Þegar ég sá þessa aðgerðaráætlun fór ég að velta fyrir mér mögulegum áhrifum. Ef börnin verða skólaskyld innan innan leikskólans velti ég fyrir mér hvort t.d. elstu börnin sogi þar með til sín þá sem hafa tilskylda menntun og leyfisbréf. Með öðrum orðum best menntaða fólkið starfi líklega með elstu börnunum en ekki þeim yngstu sem sannarlega þurfa á því að halda og rannsóknir benda til að sé í raun sá aldur sem á að horfa sérstaklega til. Ástæða þess að ég hef þessar áhyggjur er að ef leikskólinn verður skylda fyrir afmarkaðan hóp barna tel ég að þrýstingur verði á að leikskólakennarar sinni þeirri „kennslu“. Þetta er áhyggjuefni þegar  veruleikinn á höfuðborgarsvæðinu er að þar eru langt undir 50% starfsmanna sem vinna beint með börnunum leikskólakennarar.

Fimm ára í grunnskólann?

Ef hins vegar höfundar skýrslunnar eru að íhuga að færa fimm ára börnin inn í grunnskólann velti ég fyrir mér hvaða áhrif það hefur, ekki á starf leikskólakennara, heldur miklu fremur fyrir börnin. Fleiri og fleiri rannsóknir hafa komið fram á síðustu árum sem styðja mikilvægi leiks fyrir þroska barna í lengd og bráð og draga í efa að bein kennsla sé það sem gagnist börnum til lengri tíma. Heili barna er að mótast og þau þurfa að takast á við fjölbreyttar áskornir dag hvern, reyna á sig í samskiptum, í leik, á líkamann, finn eigin styrk og læra á hann. Á það má líka benda að í dag höfum við rannsóknir sem segja að unglingarnir okkar hreyfi sig að jafnaði eins og gamalmenni.

Við vitum að jafnvel þó fólk fari af stað með góðar fyrirætlanir eins og það að halda í leikinn og starfsaðferðir leikskólans, tekur menning og starfsaðferðir grunnskólans smám saman yfir. Það gerðist í Noregi, það gerðist þegar sex ára börnin fluttu í grunnskólann hér fyrir langt löngu. Annar vinkill er að í dag heyrist að jafnvel leikskólabörnin séu ekki nóg úti og hreyfi sig ekki nægjanlega, það má velta fyrir sér hvernig þróunin verður ef t.d. þau flytja í grunnskólann fimm ára þar sem enn nú minni áhersla er almennt á útiveru og hreyfingu.

Hliðaverkanir – góðar og ekki eins góðar

Við getum líka velt fyrir okkur ýmsum öðrum hliðarverkunum eins og hvort starfsaðstæður grunn- og leikskólakennara verði með slíkum ákvörðunum gerðar alveg sambærilegar. Verður skólaár leikskólans skilgreint upp á nýtt? Verður þetta til að leikskólinn verður gjaldfrjáls fyrir elstu börnin? Verður skóladagur þessara barna endurskilgreindur, eru nefndarmenn að hugsa um viðmiðunarstundaskrá eins og í grunnskólanum  þar sem stór hluti  tíma barnanna ætti að fara í lestur og reikning. Það verður að segjast að ótal hugmyndir og spurningar kvikna við að lesa skýrslu sem þessa. Það er í raun forvitnilegt að vita hvað fólkið sem átti sæti í nefndinni var að hugsa um ofangreinda þætti.

Verum vakandi

Ef stjórnmálafólk sem setur fram slíkar stefnur fær ekki aðhald og umræðu frá okkur sem tengjumst leikskólanum getur breyting sem þessi hæglega læðst að okkur eins og ýmsar aðrar hafa gert, og við litlu ráðið um áherslur.

Ástæða þess að ég nefni þetta hér er til að við áttum okkur á mikilvægi þess að vera vakandi fyrir því sem hefur áhrif á veruleika barna –  beint og óbeint.

Kd okt 2014

 

.

 

Tags: ,

Sorry, the comment form is closed at this time.

Kristín Dýrfjörð er eigandi og ábyrgðarmaður síðunnar