Kristin Dýrfjörð

Heimagerðir litir

Heimagerðir vatnslitir

Stundum finnst mér gaman að fikta og prófa mig áfram. Ég hef í gegn um tíðina rekist á heimgerða liti og stundum hugsað að það væri gaman að gera tilraunir og sjá hvort þeir virka þegar upp er staðið. Við vitum jú að myndlistamenn fortíðar blönduðu sína eigin liti. Grunnurinn var gjarnan eggjarauða (tempera litir). Þá var litarefnum blandað saman við eggjarauðu. Það er hægt að búa til slíka liti til með börnum. Fjöldi myndbanda og vefsíður eru til sem sýna aðferðina. Í grunninn felst hún í því að aðskilja eggjarauðu frá eggjahvítu, hræra rauðuna, blanda saman við hana ögn af ediki og vatni og síðan litarefnum. Þegar aðferðinni er beitt með börnum er sennilega best að nota matarliti og mála svo með litunum/málningunni samdægurs. Það kemur skemmtileg áferð á pappírinn þegar málað er með þessum litum. pappírinn verður svolítið glansandi, ekki ósvipað því þegar lakkað er yfir þekjuliti með málningarherði. Aðferð sem var mikið notuð í mínu „ungdæmi“.

image

Vatnslitir

Annað ekki ósvipað verkefni er að búa til vatnsliti úr matarsóda og matarlit, sírópi, ediki og kartöflumjöli. Ég valdi að nota klakabox en held að það væri fínt að nota t.d. gömul box undan tómum vatnlitum eða minni gerðina af muffinsformi.

Bæði það að búa til eigin vatnsliti og málningu úr eggjarauðum tel ég vera tilvalin verkefni til að vinna með barnahópum. Þetta er bæði vísindatilraun, æfing í að vega og mæla og svo er auðvitað skapandi að nota litina á eftir.

En hér er svo uppskrift að vatnslitum.

Efni:

4 matskeiðar matarsódi

2 matskeiðar borðedik.

1/2 teskeið ljóst síróp

2 matskeiðar kornsterkja  -maísanamjöl (ég hef líka notað kartöflumjöl)

matarlitir

Aðferð:

Hafa form tilbúið.

Blanda saman í glerskál matarsóda og ediki (bíða þar til gosið hættir). Blanda sírópi og kornsterkjunni saman við og hræra vel.

Deila deiginu í formið og setja síðan litina saman við – hræa með íspinnaspýtu/tannstöngli. Láta þorna í gegn, tekur minnst sólarhring nálægt heitum og þurrum stað (ég skellti mínum upp á ofninn í stofunni).

Góða skemmtun.

 

Tags: ,

Sorry, the comment form is closed at this time.

Kristín Dýrfjörð er eigandi og ábyrgðarmaður síðunnar