Kristin Dýrfjörð

Yngstu börnin í leikskólanum

thela að rétta ömmu krans

Í útlöndum eru hagfræðingar sem hafa tekið að sér að reikna út samfélagslegan ágóða af því að börn komist sem fyrst inn í leikskóla og ekki bara leikskóla heldur skóla þar sem gæði eru mikil. Einn þessara hagfræðinga sem mikið er vitnað til er James Heckman en hann hlaut einmitt nóbelsverðlaun í hagfræði árið 2000 og er í dag álitinn einn af 10 áhrifamestu hagfræðingum heimsins.

Gæðastarf ígildi snemmtækrar íhlutunar

Bent hefur verið á að gæða leikskólar ígildi í raun snemmtækri íhlutun. Með snemmtækri íhlutun er átt við leikskólastarfið sé þannig að það styðji við börn og efli í þroska. Snemmtæk merkir að því fyrr sem gripið er inn í miður góðar aðstæður barna því betra er það fyrir börnin. Rannsóknir erlendis sýna t.d. að hægt er að vinna með málþroska barna í leikskóla, börn sem ekki eru í góðum leikskólum og börn sem ekki búa við gott málumhverfi og eða almennt atlæti heima eru líklegri til að vera með lélegri málþroska en önnur börn.  Rannsóknir hafa líka sýnt fram á að börn sem hafa lélegan málþroska eru líklegri til að eiga erfitt með formlegt nám í grunnskóla. En á það hefur verið bent að það er heilmikið hægt að gera til að til að jafna aðstæður barna,  t.d. stuðla að sem bestum málþorska og þar kemur leikskólinn sterkur inn. Heckman t.d. segir að hver króna sem nýtt er í þágu barna til leikskólamenntunar yngstu barnanna skili sér margfalt til baka. Hann heldur raunar fram og styður með hagfræðilegum útreikningum að það sé fátt sem skili meiri ábata fyrir samfélagið en eimitt góðir leikskólar. Hann bendir á rannsóknir sem sýni að það sé meiri ágóði fyrir samfélagið að ávaxta skattfé í leikskólum en t.d. í fyrirtækjum sem þykja sýna mikinn vöxt í kauphöllum . Í nýlegri grein fer hann yfir ýmsar rannsóknarniðurstöður, þar bendir hann t.d. á að samkvæmt rannsóknum hafi snemmtæk íhlutun hafi áhrif á bæði vitsmuna og almennan þroska. Í framhaldi af rannsóknum Heckmans er áhugavert að pæla í hvað eru gæði í starfi með yngstu börnunum.

Tjáning barna

thelma á staurNýlega hlustaði ég á Hrönn Pálmadóttur, leikskólakennara og lektor við HÍ kynna niðurstöður eigin dokorsrannsóknar  um yngstu börnin í leikskólanum. Þar ræddi hún meðal annars um gildi þess að vera vakandi fyrir tjáningu barnanna og hvernig óyrt tjáning er hluti af  þroska barna m.a. málþroska. Hún bendir á mikilvægi þess að leikskólakennarar séu í núinu með börnunum, séu vakandi fyrir og styðjandi við samskipti barnanna. Af niðurstöðum má ráða að nægur mannskapur er ein forsenda þess að það sé hægt. Það verður að vera mögulegt t.d. að skipta börnum í minni hópa, þar sem hverju og einu barni gefast tækifæri til að tjá sig, hlusta á aðra og vera það barn sem hlustað er á. Það verður líka að huga að t.d. hljóðumhverfi barna. Það að skipta börnum í minni hópa er leið til að minnka hljóðmengun. Börn sem eru á máltökualdri og eru einmitt að læra að greina á milli t.d. hljóða þurfa að vera í góðu hljóðumhverfi. Hægt er að velta fyrir sér hvort það sé  æskilegt eða teljist til gæða þegar að á litlu svæði  eru mörg ung börn sem liggur jafnvel hátt rómur og sem tjá sig í gegn um hróp og köll.

Orðaforði, tjáning, snerting 

Í Noregi hafa miklar rannsóknir um yngstu börnin átt sér stað, það er margt sem vekur áhuga en líka áhyggjur í þeim niðurstöðum. Sérstaklega vegna þess að telja má líklegt að sumt sem þar kemur fram eigi ekki síður við hér. Við erum líkari en ólíkari frændum vorum í austrinu. Í Noregi hafa menn m.a. áhyggjur af þekkingarleysi fagfólks á bæði þroska og þörfum yngstu barnanna, raunar telja menn þar að vitundarvakning verði að eiga sér stað á öllum Norðurlöndum við séum hreinlega ekki eins góð að starfa með yngstu börnunum eins og við teljum okkur trú um. Sem dæmi um þetta nefna þeir að lítil börn séu án eftirlits í hættulegum aðstæðum eins og úti. Þar sem á vetrum þegar þegar undirlag er frosið og svell á jörð allt of fátt starfsfólk með börnum. Annað sem þau benda á er að það er of lítið talað við börn. Þau benda á að starfsfólks sé almennt vinalegt og gott við börnin og árekstrar séu þar fáir, hinsvegar eru námstækifæri illa nýtt, fá ný orð lögð inn, of lítið af rýmnaleikjum og lestri. Fólk hefur tilhneigingu til að tala einfalt mál við börn og nota einhæfan orðaforða. Sömu áhyggjur koma raun fram í meistararitgerð Nönnu Mateinsdóttur um samverustundir á Íslandi vorið 2015. Þar kom fram að ekki væri óalgengt að yngstu börnin fengju ekki samverustundir og lestur.

image

 

Áhyggjur Norðmanna eiga því líka við hér. Það er vert að benda á að norsku fræðimennirnir benda á að þrátt fyrir mikilvægi samverustunda og samræðna við daglegar athafnir, þarf sérstaklega að huga að því að bæta leikorðaforða barna og þar þurfi leikskólakennarar að koma inn sem styðjandi, þeir þurfi að nýta tækifæri til að byggja upp orðaforða í gegn um leikinn.

Annað sem var líka verulegt áhyggjuefni er að leikskólakennarar eru ekki nægjanlega vakandi fyrir snertingu og mikilvægi hennar í starfi með yngstu börnunum. 35% barna í norsku leikskólunum voru ekki talin fá næga snertingu eða eins og þau þurfa til að þrífast og þroskast. En í tengslum við þær áhyggjur vil ég benda á grein sem ég skrifaði: Tilfinningar og traust – stórra og smárra í leikskólanum.

Langir leikskóladagar

Fleira kemur fram í norskum rannsóknum sem við þurfum líka að skoða, t.d. eru tengsl á milli hópastærðar og orðaforða barna, á milli þess hversu margir ófaglærðir eru með börnunum, tækifæri til skapandi leikja og lengd viðveru barna og orðaforða þeirra. Sem dæmi kemur fram að ef börn eru að staðaldri 40 tíma eða lengur í leikskóla hefur það neikvæð áhrif á orðaforða þeirra. Á Íslandi vitum við að vikuleg viðvera barna í leikskóla er mjög löng og jafnvel lengri hjá yngri börnum. Samkvæmt því sem ég hef heyrt (þó ekki sé það rannsakað) er heldur ekki ólagengt að þegar foreldrar eru heima í foreldraorlofi með yngri börn sé janfvel aukið við stundir eldri barna í leikskólum. Og jafnvel ég sem almennt og yfirleitt tel leikskólann af hinu góð velti fyrir hvort þetta sé góð og eða æskileg þróun.

Þegar allt er talið til skiptir miklu  að þeir sem starfa í leikskólum viti sem mest um yngstu börnin, þarfir þeirra og þroska. Um eðli leiks þeirra og hvernig þeir geta notað hann sem náms og þroskaleið.

SAM_2903

Hvað skiptir máli – að hverju þarf að huga?

Snemmtæk íhlutun eru lykilorð í tengslum við vanda barna, gott leikskólastarf byggt á rannsóknum og þekkingu skiptir miklu máli. Að lokum vil ég loka þessari umfjöllun með atriðum sem danskir leikskólakennarar telja að skipti miklu í starfi með yngstu börnunum. Þar kemur fram mikilvægi þess að starfsfólk sé sér ætíð meðvitað um stöðu og styrkleika yngstu barnanna, það fylgist náið með þroska þeirra og athöfnum og áhugamálum geti sett sig í spor þeirra. Það styðji við rannsóknareðli barna og forvitni um lífið og umhverfið, sé upptekið að því að gera núið sem best. Í þeim anda sé jafnvægi á milli skipulagðra stunda og frjálsra, það sé rými til að bregðast við áhuga barna hér og nú. Gæta þess að verkefni og stundir séu skipulagðar þannig að barnið fái tækifæri til að upplifa sig sem verðugan þátttakenda í hóp. Áhersla er á að skapa réttar aðstæður, að börn fái mörg tækifæri til að vera í litlum hópum og rýmið sé skipulagt þannig að það haldi utan um börnin og auki vellíðan og ró, því sé vel skipt upp og bjóði upp á fjölbreytta leikkosti. Að setja orð á athafnir skiptir máli sem og að starfsfólk átti sig á eigin hlutverki sem fyrirmynd fyrir börnin, það gæti að eigin tjáningu og verund. Börnin fá stuðning og tilsögn, þau fái tækifæri til sjálfshjálpar og takast á við ögrandi verkefni og aðstæður t.d. fái þau tækifæri til að takast á við áskornir og ekki sé leyst fyrir þau úr ágreining og verkefnum. En þau leidd í gegn um leiðir sem hjálpa og styðja við þroska. Sennilega geta íslenskir leikskólakennarar tekið undir flest af því sem kom fram hjá dönskum starfsfélögum.

image

Heimildir sem stuðst var við:

Andersen, S. L. (2016) 7 metoder i arbejdet með 0-2 årige børs læring. Bakspejlet- themahæfte. København: Danmarks Evalueringsinstitut. Sótt af: file:///C:/Users/Lenovo/Downloads/Eva_bakspejlet%20temahaefte%20web_2016%20(1).pdf

Antonsen, F. (2015). God kvalitet kan forebygge språk- og atferdsvansker – See more at: http://barnehage.no/forskning/2015/02/god-kvalitet-i-barnehagen-kan-forebygge-sprak–og-atferdsvansker/#sthash.xzbw3D2G.dpuf

Bjørnestad, E., Gulbrandsen, L., Johansson, J og Os, E. (2013). Foreløpig tilstandsrapport fra prosjektet ”Better provision for Norway’s children in ECEC: A study of Children’s well-being and Development in ECEC

Heckman, J. J. (2008). The case for investing in disadvantaged young children. CESifo DICE Report, 6(2), 3–8.

Hrönn Pálmadóttir, (2016). Tjáning í leik – merkingarsköpun ungra leikskólabarna. Fyrirlestur á ráðstefnu Reykjavíkurborgar: Gerðu og ég sé – segðu og ég heyri! Þann 4. febrúar 2016 í Reykjavík.

Nanna Marteinsdóttir. (2015). Samverustundir í leikskólum: lestur sögur og samræður. Óbirt meistaraprófsritgerð frá Háskólanum á Akureyri.

Yttervik, L., Orfjell, L. og Sanne, T. (2015). Stor norsk studie: Barnehagene dårligere enn ventet. VG. http://www.vg.no/nyheter/innenriks/foreldre-og-barn/stor-norsk-studie-barnehagene-daarligere-enn-ventet/a/23548840/

 

 

 

Tags: ,

Sorry, the comment form is closed at this time.

Kristín Dýrfjörð er eigandi og ábyrgðarmaður síðunnar