Að umbreyta heiminum felst í að umbreyta gildandi uppeldisaðferðum
Titilinn hér að ofan er þýðing á orðum Janus Korczak (1878-1942) en hann setti sér ungur það markmið að breyta heiminum, gera hann barnvænni. Til þess að það væri mögulegt taldi hann að það þyrfti að breyta hugsanagangi fólk, fá það til að skynja og koma fram við börn á annan hátt en þá tíðkaðist.
Ástæða þessarar færslu er að nýverið fjallaði ég um réttindi barna í tíma við Háskólann á Akureyri og þar með talið Sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi barna. Ræddi m.a. um uppruna hans, þá sem höfðu áhrif á hann og tileinkun. Í tengslum við það nefndi ég nafn sem fáir virðast þekkja hérlendis en er tengt uppruna og hugmyndafræði sem Barnasáttmálinn byggist á órjúfandi böndum nefnilega nafn pólska, gyðingsins, læknisins, rithöfundarins og mannvinsins Janus Korczak (en raunverulegt nafn hans var Henryk Goldszmit, hann tók upp hið pólska nafn til að fleiri gætu tengt við barnabækur hans og litið fram hjá uppruna hans). Hugmyndir hans og aðferðir sem hann mótaði sem og líf hans og kannski sérstaklega dauði eru tengd barnasáttmálanum órofaböndum.
Á árunum fyrir seinna stríð og á stríðsárunum rak hann ásamt hægri hönd sinni Stefaniu (Stefa) Wilczyńska (1886-1942) munaðarleysingarheimili í Varsjá, og hann lét lífið í gasklefum Treblinka ásamt Stefu og börnum. Korczak hafi fengið fjölda tilboða um hjálp til að komast undan nasistum en neitaði staðfastlega, sagðist fylgja börnunum alla leið.
Korczak stofnaði munaðarleysingjaheimili 1912 sem hefur verið nefnt”lýðveldi barnanna” þetta átti að vera réttlátt samfélag, þar sem börnin áttu að vera með sitt eigið þing, dagblað, og rétt með kviðdómi. Þar sem börn voru börn án tilliti til trúarbragða, því öll börn hlæja, gráta og hræðast það sama. Börnin áttu að læra að ber umhyggju fyrir hvert öðru og þau áttu að læra sanngirni, áttu að læra að ber ábyrgð á öðrum á þann hátt að það fylgdi þeim til fullorðinsára. Hann var ekki upptekinn af því að kenna börnum stafrófið, heldur það sem honum fannst mikilvægara, málfræði siðfræðinnar. Frásagnir frá munaðarleysingjaheimilinu sýna mann sem var utan við sig, góðviljaður og átti auðvelt með að tengjast börnum. Hann leit stundum út eins og tré með margar greinar og á hverri grein hékk barn, Stefa var aftur sú sem hélt uppi röð og reglu og sá til að allt gengi upp. Hún var hryggjarsúlan, meðal þess sem hún hélt utan um voru kennaranemar sem þangað komu til náms. Hún lagði áherslu á að þeir athuguðu og skráðu og svo settist hún með þeim og ræddi skráningar og aðferðir. Hún gerðu aðferðir Korczak mögulegar í starfi. Saman sköpuðu þau og framkvæmdu einstæða hugmyndafræði þar sem virðing fyrir barninu var hornsteinn alls.
Korczak var hugmyndafræðingurinn en meðal þess sem hann lagði áherslu á var að fullorðnir kæmu fram við börn af virðingu og sanngirni. Í yfirlýsingu hans um réttindi barna stóð að hvert barn ætti rétt á að:
vera elskað
vera virt
hafa áhrif á eigin uppvöxt og þroska
vera tekið alvarlega
vera ekki barn morgundagsins heldur barn samtímans
fá leyfi til að verða og þroskast eins og því er ætlað
að við lærum öll að í óþekktu manneskjunni sem býr innra með hverju barni,
felst von framtíðarinnar
Hann sagði reyndar að börn væru ekki börn, þau væru fyrst og fremst fólk.
Hornsteinn uppeldistarfsins í Lýðveldi barnanna var rétturinn og kviðdómurinn sem þar var starfræktur. hann var horsteinn vegna þess að þannig lærðu börnin að jafnvel í óréttlátri veröld er að finna réttlæti.
Gestapó sótti Janusz Korczak þann 6. ágúst 1942, hann gekk í farabroddi barnahópsins að lestinni sem færði þau til Treblikna, tvö yngstu börnin leiddi hann sér við hlið á eftir honum gekk Stefa með börn í hönd á eftir komu hin 186 ásamt 10 manna starfsliði sem fylgdi fast á eftir, á lofti héldu þau fána barnalýðveldisins. Grænn öðrum megin, Davíðstjarna hinumegin.
Barnaár Sameinuðu þjóðanna 1979 – 1980 var tileinkað Janusz Korczak, eftir hann liggja mikil skrif um málefni barna – þar sem uppeldisfræði hans birtist. Uppeldisfræði byggð á trú á getu og hæfileika barna, uppeldisfræði byggð á ást og virðingu.
Síðasta ritverk Janusz Korczak var Dagbók úr gettói – sem á ótrúlegan hátt lýsir lífinu á munaðarleysingjaheimilinu síðustu 3 mánuðina. Þá bók er ekki hægt að lesa án þess að tárast.
Helstu heimildir:
Eichsteller, G. (2009) Janusz Korczak – His Legacy and its Relevance for Children’s Rights Today, International Journal of Children’s Rights, (17 ) 377–391
Korczak. J. (2003) Getto Diary. Yale university press. New Haven
Mazur, E. og Pawlak, G. (2014) Stefania Wilczyńska – a Companion in Janusz Korczak’s Struggles, Quadreni di Palazzo Serra, (24) 128 – 140.
Lifton, B.J. (2003). Who was Janus Korczak? Introduction to Getto Diary. Yale university press. New haven
(þetta er færsla í vexti, hún á eftir að lengjast – eða fá hliðarfærslur kd sept 2016)
Sorry, the comment form is closed at this time.