Leikskóli á tímamótum – Vellíðan og vanlíðan
Í september 2017 gerði ég könnun sem sýndi að margt hvílir á starfsfólki leikskóla, sérstaklega er snýr að mönnun og aðbúðnaði i starfi. Fram kom að álag væri tengt hávaða, fjölda barna í litlu rými, manneklu, afleysingum, skort á undirbúningstíma og fleira var tínt til.
Í kjölfarið og vegna þess að Bernskan – Íslandsdeild OMEP hafði afráðið að standa fyrir opnum fundi /málþingi um leikskólann ákvað ég að senda út aðra könnun í október 2017 með spurningum sem tengdust því hvers vegna þrátt fyrir þá erfiðleika sem fram komu í fyrri könnuninni fólk héldist í starfi, hvað er það í leikskólanum sem gerir starfið þess virði að vera þar.
Seinni könnunin
Skemmst er frá að segja að viðbrögð við seinni könnuninni voru líka nokkuð góð en 338 svör bárust. Svörin benda til þess að samstarf við börn, þroski þeirra og gleði sé það sem gefur lífinu gildi. Jafnframt var spurt um það sem talið er einkenna gott samstarf og það sem það telur mikilvægast að vinna að í leikskólastarfinu. Meðal þess sem þar kemur fram er að hreinskiptni og traust skiptir máli auk fjölda annarra þátta. Þegar spurning um það sem skiptir máli er skoðuð er ljóst að fólk svarar bæði út frá börnum og starfsfólk.
Á málþingi Bernskunnar verður farið yfir báðar þessar kannanir og þeim gerð skil.
Tímamót
Þann 4. nóvember 2017 heldur Bernskan, Íslandsdeild OMEP, málþing um leikskólann á tímamótum, tímamót er markast af því að fólk er þreytt á starfsaðstæðum, á manneklu og skorti á leikskólakennurum en samtímis stolt yfir því starfi sem fer fram, af samskiptum og vinnu með börnum. Tímamót er markast af því að leikskólakennurum fer fækkandi, fleiri og fleiri fara á eftirlaun á sama tíma er nýliðun stéttarinnar með minna móti. Í raun má telja að næstu mánuðir og ár skeri úr um framtíðarhorfur leikskólans í þeirri mynd sem við þekkjum hann.
Næsta vor verða kosningar til sveitarstjórna. Leikskólinn er sveitarstjórnarmál eins og berlega kom fram í nýliðinni kosningarbaráttu er áhugi stjórnmálafólks á málefnum leikskólans og ungra barna takmarkaður. Framundan er tækifæri til að ræða saman og e.t.v. huga að því hvernig hægt er að ná leikskólanum á dagskrá kosninga vorsins.
Málþingið fer fram í Blaðamannaklúbbnum, sal Blaðamannafélags Íslands í Síðumúla 23, laugardaginn 4. nóvember frá 10.30 – 12.30.
Félagsmenn Bernskunnar borga ekki, aðgangseyrir fyrir aðra er 1000 krónur.
Kaffi og meðlæti innifalið.
Sorry, the comment form is closed at this time.