Kristin Dýrfjörð

Leikskólakennarar eru í starfi barnanna vegna

Í október lagði ég fyrir könnun þar sem ég spurði hvað starfsfólk leikskóla telur gefandi í starfi, hvernig það skilgreinir fyrirmyndar samstarf innan leikskóla og að lokum spurði ég um atriði sem fólk telur mest um vert að vinna að innan leikskólans. Ég sagði frá fyrstu greiningu á gögnunum á fundi Bernskunnar – Íslandsdeildar OMEP, þann 4. nóvember 2017.  Yfir 70 manns mættu á fundinn og skapaðist góð umræða. Ástæða könnunarinnar var ekki síst að eftir að ég fékk afar góð svör um hvað það er sem veldur álagi og erfileikum vildi ég líka fá hina hliðan, hvers vegna er fólk enn í leikskólum ef álagið er jafn ómannlegt og fram kom í fyrri könnun. Það er ljóst ef horft er til gagna Hagstofu Íslands sá hópur sem er stöðugastur í starfsmannahaldi leikskóla eru leikskólakennarar, þeirra starfsmannavelta er umtalsvert minni en allra annara hópa, eða rétt um 12% á meðan aðrir háskólahópar og ófaglærðir eru með um 30% veltu (hákskólafólk þó lægri en ófaglærðir). Það væri reyndar afar áhugavert að skoða gögn Hagstofunnar betur og skoða t.d. ófaglærða hópinn, innan hans er hópur sem er hefur valið sér starf innan leikskólans sem ævistarf og væri áhugavert að skoða þann hóp og viðhorf hans enn nú betur. Í þessum hóp (og samskonar hóp þeirra sem eru með annarskonar háskólamenntun) er mikill auður og þekking sem leikskólinn þarf sannarlega á að halda.

En aftur að könnuninni ég lofaði þeim sem svöruðu að ég mundi birta frumniðurstöður fljótlega og er það markmið þessarar færslu. Ég mun ekki fara djúpt í gögnin heldur ekki ósvipað og ég gerði á fundi Bernskunnar.

Könnunin

Könnunin var lögð fyrir dagana 19. – 2.7 október, flest svör bárust fyrstu tvo sólarhringana en 338 svör bárust. Könnunin var send á Facebókarhópa og  til fólks í leikskólum sem hefur gefið mér leyfi til að senda þeim spurningar er snerta leikskólamál. Spurningar voru 10 og þar af fjórar opnar. Þrjár spurningar voru til að fá bakgrunnsupplýsingar, t.d.  um landshluta  og starf innan leikskólans.

Svarendur

Svarendur skiptast þannig að 11% eru ófaglærðir í leikskólum, 14% eru með annarskonar háskólamenntun og 75% eru leikskólakennarar.  Af þeim sem svara og eru starfandi í leikskólum eru 13% starfandi utan deildar og 67% á deild. Hér að neðan hef ég ekki flokkað svörin eftir því hver er að svara heldur eru þetta heildarsvör.

Það sem er gefandi í starfi

Til að greina svörin færði ég þau inn í exel og tók svo til við að flokka. Ég bjó til flokka sem tengdust börnum, þroska barna, gleði, samskipti og fleira. Eins og sjá  má á mynd 1 skipta börnin mestu máli. Er það í raun í samræmi við það sem bæði erlendar og innlendar rannsóknir hafa sýnt. Starfsfólk leikskóla er upp til hópa í starfi vegna þess að börnin, framtíð þeirra og þroski er það sem gefur lífinu í leikskólanum lit og tilgang. Eins og sjá má getur hvert atriði lent í fleiri en einum flokki.

mynd 1 a gefandiMynd 1.  Það sem er gefandi í starfi

Hér fyrir neðan gef ég dæm um hvern flokk fyrir sig. Svörin klippti ég innan úr hverjum flokki nokkuð tilviljanakennt. Svörin sem hér birtast eru líka þau sömu og voru á í fyrirlestrinum hjá Bernskunni.

–          Það sem er gefandi  – börnin
Ósvikin gleði barnanna yfir lífinu. Þegar maður kemur inn á deild og börnin heilsa manni með brosi og kveðju. Að sjá þegar barni tekst eitthvað sem það hefur átt ì erfiðleikum með. Söngur, líf og fjör, vera þátttakandi í gleði og sorg þennan stutta tíma sem hvert barn er hjá manni.
Það sem mér finnst mest gefandi eru stundirnar sem ég á meðan börnunum. Ég er á yngstu deild og finnst dásamlegt að sitja hjá þeim þegar þau leika sér. Vera til staðar og leika við þau. Svo koma þau reglulega í fangið á mér eða knúsa mig í smá stund og halda svo áfram að leika sér.
Gefandi starf – börn eru stórkostlegt fólk að vinna með. alltaf nýjar og nýjar ögranir, mikil gleði sem fylgir þessu starfi.  mikil nánd og væntumþykja sem fylgir starfinu.  Krefst mikillar fagmennsku og þekkingar, sífelld þróun í gangi.
Að starfa með börnum og vita að hver dagur með þeim er einstakur líkt og þau öll. Að leggja mitt af mörkum til að skapa sem flest tækifæri fyrir þau til að læra og uppgötva eitthvað nýtt spennandi í starfinu/umhverfinu í hverri viku.

 

–          Það sem er gefandi – þroski barna
Það eru að sjálfsögðu börnin sjálf, litlu karkterarnir sem er svo gaman að segja sögu sem og læra af þeim.  Að fylgjast með því hvernig þau læra og þroskast er gefandi. Að fá að kenna þeim eru forréttindi- að sjá þakklæti og vináttu í augum þeirra og ég tala ekki um þegar þessir litlu einstaklingar faðma mann – þá veit ég að við erum á réttri leið.
Framfarir barnanna.  Gleðin í starfinu.
Fylgjast með þroska barnanna, hvað þau eru móttækileg.
Að verða vitni að framförum og þroska barna  Sjá jákvæðar afleiðingar vinnu sinnar í samskiptum barnanna. Læra eitthvað nýtt á hverjum degi.
Verða vitni að uppgötvunarnámi þeirra á hverjum degi. Fá að njóta bernskunnar og hlusta á hvern og einn einstakling, átta sig á stöðu þeirra í barnahópnum og líðan hverju sinni.

 

 

–          Það sem er gefandi – gleði
Vinna með börnunum sjá þegar þau uppgötva og skilja. Gleði þeirra og áhugi á því sem þau eru að gera. Væntumþykja barnanna og ánægja foreldrana.
Bros ánægð börn framfarir hjá börnum.
Börnin elska mann, maður sér þau þroskast, þau veita manni gleði, mér finnst ég bara best í þessu.
Lífleg og gefandi samskipti, að sjá og taka þátt í þroska og námi barnanna sérstaklega þegar einhver árangur á sér stað og andrúmsloft sem einkennist af gleði og einlægni
1). Að upplifa og finna fyrir gleði og hamingju barna. 2) Þegar jákvæður árangur fyrir barn næst sem hefur átt við tilfinninga og hegðunarvanda að stríða. 3) Þegar tekst að kveikja neista/áhuga barna á verkefnum sem áður höfðuðu ekki til þeirra. 4) Samskipti við börn,foreldra og samstarfsfólk. 5) Að takast á við krefjandi óvænt verkefni.

 

 

–          Það sem er gefandi – samskipti
Samstarf, gleðin og sjá þau öðlast aukna færni í samskiptum og fleiru
Lífleg og gefandi samskipti, að sjá og taka þátt í þroska og námi barnanna sérstaklega þegar einhver árangur á sér stað og andrúmsloft sem einkennist af gleði og einlægni
Samskipti við börn og fullorðna. Sigrar alla daga. Traust frá börnum, foreldrum og samstarfsaðilum. Nærandi starf.
Jákvæð samskipti við börn foreldra og starfsfólk.  Þegar þróun á sér stað.  Þegar allir eru jákvæðir.  Glöð börn.  Hvetjandi fólk   Virðing er sýnd og þakklæti
Samskipti við börnin veita gleði á hverjum degi, maður hlær með þeim og að uppátækjum þeirra oft á dag.  Að sjá árangur; t.d. þegar barn með sérþarfir öðlast nýja getu, eða þegar maður sér „kvikna á perunni“ þegar barn fær nýjan skilning.
Samvera með börnunum  Gaman- hlegið og sungið  Sjá framfarir hjá börnunum
Samskiptin við bōrnin. Gleðin. Sjá og taka þátt í þroska barnanna. Geta verið inni og úti. Fjōlbreytt verkefni. Knúsin. Gefa af sér. Samskipti við allskonar fólk.
Samstarf, gleðin og sjá þau öðlast aukna færni í samskiptum og fleiru.
Lífleg og gefandi samskipti, að sjá og taka þátt í þroska og námi barnanna sérstaklega þegar einhver árangur á sér stað og andrúmsloft sem einkennist af gleði og einlægni.Gefandi starf – börn eru stórkostlegt fólk að vinna með. alltaf nýjar og nýjar ögranir, mikil gleði sem fylgir þessu starfi.  mikil nánd og væntumþykja sem fylgir starfinu.  Krefst mikillar fagmennsku og þekkingar, sífelld þróun í gangi.Að starfa með börnum og vita að hver dagur með þeim er einstakur líkt og þau öll. Að leggja mitt af mörkum til að skapa sem flest tækifæri fyrir þau til að læra og uppgötva eitthvað nýtt spennandi í starfinu/umhverfinu í hverri viku.

 

Það sem einkennir gott samstarf innan leikskólans og ánægja í starfi

Eins og með fyrri spurningu flokkaði ég svörin. Ég bjó til eftirfarandi flokka úr svörunum, flokkarnir snúa aðallega að börnum, og kennurum (starfsfólki), samstarf innan leikskólans sem og stefnu og líðan.

Eins og sjá má á mynd 2 skilgreinir starfsfólk mest út frá sjálfu sér, það horfir til samstarfs við samstarfsfólk, anda á vinnustað og svo framvegis. Í raun falla svörin hér líka að rannsóknum um það sem starfsfólki þykir einkenna gott samstarf og hvernig vinnustað það vill vera á.

mynd 2 gefandi

Mynd 2. Einkennir gott samstarf

Ég spurði hvort fólk upplifði gott samstarf í leikskólanum. Það er gleðilegt að meirihluti svarenda eða 55% virðast gera það að mestu, en það er samtímis áhyggjuefni að 45% gera það sjaldan eða aðeins að einhverju leyti. Þarna er verk að vinna og má e.t.v. tengja við fyrri könnun um það mikla álag sem starfsfólk greinir frá. Þegar erfitt er að finna tíma til samstarfs og samráðs geta hlutir farið úrskeiðis. Samskipti eiga til að verða erfið og svo framvegis. Í raun hefði verið hæsta máta sérkennilegt ef allt það fólk er hefur greint frá erfiðleikum og álagi hefði svarað að samstarf væri með besta móti. Ljóst er að þarna er verk að vinna og gott rými til úrbóta.

mynd 3 gefandi

Mynd 3. Upplifir gott samstarf

Í tengslum við spurninguna um samstarf spurði ég líka hvort fólk upplifði ánægju í starfi. Hér væri auðvitað áhugavert að skoða einstaka hópa og má vera að ég geri það við tækifæri. En eins og svörin birtast hér segjast 66% upplifa ánægju að mestu leyti í starfi.  Um 35% upplifa hana stundum eða að einhverju leyti. Það er ánægjulegt að sjá að jafnvel þó ekki sé tími til samskipta virðist það ekki hafa áhrif á starfsánægju allra. Hinsvegar er auðvitað ekki gott að vita til þess að 35% svarenda er aðeins ánægður að einhverju eða litlu leyti í vinnu. Það má velta fyrir sér hvort þetta er hópur sem er á leið úr starfi og með því að ná til hans sé hægt að breyta líðan.

mynd 4 gefandi

Mynd 4.  Ánægja í starfi

–          Það sem einkennir gott samstarf – kennarar/starfsfólk
Þegar kennarar geta talað saman á uppbyggjandi en á hreinskilinn hátt.
Þegar hver og einn starfsmaður er metinn að verðleikum og fá að njóta sín í starfi til að mynda með því að nýta styrkleika þeirra.
Faglegt umhverfi sem byggir á kostum og hæfileikum starfsfólks. Skólabragurinn á að lærdómssamfélag sem leggur sig fram um að greina starfið og rýna í kosti þess og galla.
Góð samvinna á milli deilda,  tillitssemi og umburðalyndi, Skilningur, þolinmæði, jákvæðni og mikilvægt að geta rætt saman, ef ekki er rætt geta litlir hlutir orðið að risa vandamálum og allir pirraðir.
Þegar allar raddir fá að heyrast og ef einhver kemur með uppástungu að lausn að henni sé gefið tækifæri en ekki bara felld af því bara, að það sé unnið sem einn skóli en ekki hver í sínu horni. Jákvæðni.
Ef leikskóli er með marga fagmenn innanborðs er það yfirleitt stöðugra vinnuumhverfi heldur en þar sem lítið er af fagfólki. Skýr sýn á hvert er verið að. Alúð lögð í starfsandann.
Heiðarleiki, opin og gagnrýnin umræða þar sem gagnkvæm virðing er í hávegum höfð. Skiptir máli að hrósa og hvetja starfsfólk og allir fái að taka þátt í uppbyggingu svo fólk upplifi að það eigi hlutdeild í starfinu. Stjórnunarstrúktúr og hlutverk hvers og eins þarf að vera skýr því það minnkar hættuna á samstarfsörðugleikum.
Að allir vinni saman sem ein heild, ekki að leikskólinn sé eins og 5 litlir leikskólar td. Lýðræðisleg vinnubrögð þar sem allir fái að tjá sig.
Það sem einkennir gott samstarf –  börnin aðalatriðið
Þegar starfsfólk vinnur saman með börnin þrátt fyrir að þau séu af sitthvorri deildinni.
Að leikskóli og foreldrar séu að vinna með sömu þætti hjá barninu. Rólegheit á deild (þ.e. lítill hávaði í börnum) bendir til góðs skipulags og samstarfs barna og kennara.
Jákvæðni og allir eiga öll börn
Samfella í námi barnanna í gegnum allar deildir, svipuð sýn í skólanum á það sem við viljum ná fram,  vinna að
Að það ríkji leikgleði, traust og vinátta, hjá litlum og stórum.
Vera opinskár – bæði við börn og samstarfsfólk – leggja sitt að mörkum til að skapa gott andrúmsloft- sýna öllum áhuga og virðingu – hlusta
Sameiginleg þekking á þroska, getu og hæfileikum barnanna.
Sameiginleg sýn á barnið og leikskólastarfið.
Gott samstarf á milli deilda. Allir hugsi vel um börnin óháð útliti eða uppruna. Kennarar eru samstíga í því sem verið er að vinna með. Gleði og jákvæð

 

–          Það sem einkennir gott samstarf –   samskipti/samstarf
Gott samstarf milli starfsfólk er þegar allir tala sama tungumál. Til þess þarf að vera tími án barna til að setjast niður og ræða málin, fara yfir þarfir ofl. Gott samstarf þarf einnig að vera við foreldra því þeir þekkja börnin sín best. Miðlun til þeirra þarf að vera skilvirk og góð og eins að fá upplýsingar frá þeim. Því þarf að hafa góð foreldraviðtöl og tíma til að geta rætt við foreldri án barns ef eitthvað er.
Vera opinskár – bæði við börn og samstarfsfólk – leggja sitt að mörkum til að skapa gott andrúmsloft- sýna öllum áhuga og virðingu – hlusta
„Virðing fyrir öðrum; börnunum, samstarfsfólkinu, foreldrum. Góð og hreinskiptin samskipti við sömu aðila.
Fjölbreytni í vel menntuðum starfsmannahópi.
Vera opinskár – bæði við börn og samstarfsfólk – leggja sitt að mörkum til að skapa gott andrúmsloft- sýna öllum áhuga og virðingu – hlusta
Virðing fyrir öðrum; börnunum, samstarfsfólkinu, foreldrum. Góð og hreinskiptin samskipti við sömu aðila.
Samvinna þvert á deildir þar sem sérþekking hvers starfsmanns nýtist börnum þvert á deildir góðum hugmyndum er deilt og hvatt til að vinna saman að þeim. Börnin fá að taka þátt í skipulagi faglegs starfs
Að starfsfólkið sé samstíga í velferð barnanna og allir hafi það að leiðarljósi að börnunum liði vel og hjálpist að við efla og mennta framtíðina okkar
Samvinna milli deilda, t.d. lítill hópur af tveim deildum fer saman í göngutúr. Það kynnir börn og starfsfólk betur saman og stuðlar að samvinnu
Leikskólinn slær í takt. Virðing og opin samskipti.
Uppbyggileg gagnrýni.

 Þættir sem skiptir mestu að vinna að

Síðasta meginspurningin snérist um framtíðina, hvað er það sem viðkomandi telja að skipti mest að vinna að í starfi leikskóla. Á það skal minnt að hver og einn svarar frá sjálfum sér og sínum aðstæðum. Svörin fór ég með eins og fyrri svör, færði í exel og kóðaði. Það er ljóst að eins og börnin skipta mestu um að viðkomandi er í starfi, eru það líka börnin og hagur þeirra sem skiptir mestu þegar horft er til framtíðar. Börnin, námsumhverfi þeirra, þættir er snúa að samskiptum og námi barna vega þungt. Þættir sem snúa að leikskólakennurum og umhverfi þeirra er fólki ekki eins hugleikið. Nú veit ég auðvitað ekki hvað hver hugsar og eða skilur spurninguna en ég get trúað að hér svari hver út frá sínu nánasta vinnuumhverfi, t.d. deildinni.

 

mynd 5 gefandi

Mynd 5. Það sem ber að vinna að í starfi leikskólans.

Hér koma nokkru dæmi um flokkun. En eins og áður er komið fram gef ég flokkunum nafn og áherslur.

–          Það sem viðkomandi finnst skipta mestu að vinna að í leikskólanum  – börn
þeim lýðræðisleg vinnubrögð, efla málþroska þeirra, veita þeim tækifæri til sköpunar.
Að veita börnunum öryggi, að þau geti treyst okkur og læri að treysta á sig sjálf og aðra. Að þau fái að leika sér frjálst en vita um leið að það er fullorðinn til staðar sem vill þeim vel og hægt er að leita til. Að þeim sé sinnt og hlustað á þau þegar þau þurfa þess með. þegar þetta er allt í góðu lagi geta börnin notið þess að auka þekkingu sína og færni í samvinnu við kennarana. = fyrst góður og svo fróður! Umhverfismennt
Gleði og jákvæðni. Virðing fyrir börnum, kennir virðingu. Jákvæð samskipti, kenna jákvæð samskipti.  Njóta samvista við einstaklinga á mótunarskeiði og hafa áhrif til góðs
Það þarf að huga að þeim börnum sem þurfa stuðning. Það þarf líka að passa að hin verði ekki útundan.
Undirbúa börnin fyrir framtíðina … gott faglegt skipulagt starf, samskiptafærni, að þekkja tilfinningar sínar, umburðarlyndi og umhyggja fyrir öðrum. Vellíðan allra barna.
Að það sé góður mórall og samvinna á milli starfsfólks,það skilar sér svo í vinnu með börnunum.
Að börnunum líði vel og foreldrar séu ánægðir. Og auðvitað maður sé að kenna þeim rétt og ná þeim aga.
Mér finnst umhyggja fyrir náunganum skipta mestu máli. Bara vera góður við börnin og bera hag þeirra fyrir brjósti. Aga þau með jákvæðum aðferðum og sinna tilfinningalegum þörfum þeirra. Gleðilegir dagar gera allt betra svo ég hlæ og grínast með börnum alla daga.

 

–          Það sem viðkomandi finnst skipta mestu að vinna að í leikskólanum   – námsumhverfi
Veita börnunum öruggt skapandi og hlýlegt umhverfi- leggja inn efnivið og tíma til að styrkja sjálfsmynd- sjálfsöryggi barnanna.  Virkja áhuga barnanna á mismunandi sviðum.
Að börn séu glöð, sátt og líði vel í leikskólanum. Ef þau eru það eru þau mun móttækilegri fyrir náminu.
Dagskipulagið. Gott grundvallar öryggi í grunnrútínunni festa í starfsmannahaldi. Fáar einfaldar samskiptareglur.
Fjölbreytileiki í leik og skapandi starfi.með námsviðin sem leiðarljós og fléttast inn í allt starf.
Gott næði og aðbúnaður til frjáls leiks með góðum og „fallegum“ efnivið.
Jafnvægi milli hreyfingar og slökunar þar með tækifæri til þess að fá næði einn eða tveir.
Að gera umhverfið barnvænt og öruggt, þannig að börnin finni til öryggis.
Veita börnum öryggi og skapandi umhverfi.
Að hafa áhugavert og metnaðarfullt námsumhverfi.
Það skiptir mjög miklu máli að vinna að því að gera leikskóla að því umhverfi sem krafist er hjá fyrsta skólastigi.
Það þarf að passa upp á námsumhverfið. Það eru orðin fleiri börn í leikskólum sem skapar mikið áreiti fyrir bæði börn og starfsfólk. Einnig þarf að passa leikinn í öllum þessum læsisstefnum.
Skapa umhyggjusamt og öruggt vinnuumhverfi það sem bæði nemendur og starfsmenn geta lært og dafnað.
Skapa rólegt jákvætt gefandi andrúmsloft þar sem hvert barn og kennarar geta prófað sig áfram saman í uppgötvunum og  gleðiríku starfi.

 

 

–          Það sem viðkomandi finnst skipta mestu að vinna að í leikskólanum   – samskipti/umhyggja/nánd
Að vinna traust barnanna. félagsleg samskipti, hafa ögrandi og skemmtileg verkefni þannig að börnin hafi gaman af.
Umhyggja og velferð
Snemmtæk íhlutun, leikurinn, að knúsa og veita hlýju, vera fyrirmynd og kenna. Samskipti, byggja ofan á grunninn, uppgötva saman og leika.
Málörvun, agastjórnun (t.d. SMT), efla vináttu og samkennd.
Samskiptafærni, að þekkja tilfinningar sínar, umburðarlyndi og umhyggja fyrir öðrum. Vellíðan allra barna.
Að gefa börnum og foreldrum verkfæri sem hjálpa  þeim (börnunum) að þroskast sem sterkir og sjálfstæðir einstaklingar.
 Sjálfsmyndin, sjálfsstjórnin, virðing fyrir öðrum, samskiptin
Að hafa tíma fyrir hvert barn. Að þroska þau og hvetja. Að orð og verk mín skili sér til barnanna.
Gefa sér tíma til að sitja með þeim í litlum hópum,  jafnvel maður á mann. Láta þau finna að Þú skiptir máli,  við erum til staðar fyrir þau.
Að börnunum líði vel. Að börnin fài að njóta sín hvert og eitt og fái athygli og umhyggju. Að börnin séu ánægð og brosi og líði vel.
Hlúa að börnum auka þekkingu og alhliða þroska
Að undirbúa börnin þannig að þau sjái það fallega í öllum og sýni hvert öðru umburðarlyndi.
Að í lok dags finn ég að mitt framlag hefur bætt líf einhvers. Að vinna að þroska barna og börnin fái að njóta sín á eigin forsendum,ekki gleyma gildi frjáls leiks í námi barnanna. Félagsfærni barna er númer 1 ,2 og 3 finnst mér, á mínum leikskóla myndi ég vilja koma því mun markvissar inn.
Samskipti allt sem gerir okkur að næmari einstaklingum. Hugulsöm við manneskjur dýr og gróður

.

–          Það sem viðkomandi finnst skipta mestu að vinna að í leikskólanum   – námskrárþættir
Efla og kenna mál,  efla og kenna samskipti, hreyfingu, hugmyndaflug og sköpun.
„Vinna að vináttu og kærleika á meðal barnanna. Þau læri að þekkja sín takmörk. Að mæta börnum á þeirra grundvelli.“
Að efla sjálfstæði og gagnrýna hugsun barnanna, kenna þeim lýðræðisleg vinnubrögð, efla málþroska þeirra, veita þeim tækifæri til sköpunar, umhverfismennt
Að efla hvern og einn til að ná markmiðum sem þau setja sér. Hjálpa þeim að starfa og læra í lýðræðissamfélagi.  Að læra að njóta náttúrunnar og útiveru.
Þroskandi og ögrandi viðfangsefni allt í kringum barnið ásamt ákveðinni rútínu og föstu dagskipulagi er mikilvægt. Gleði, kærleikur, traust og virðing ætti að vera aðalsmerki í hverjum leikskóla.
Að hlúa að börnum og leyfa þeim að vera eins og þau eru, vera frjáls í leik og læra í gegnum leikinn.
Efla sjálfstraust, stuðla að jafnrétti, auka víðsýni, kenna í gegnum leik og sköpun
Hvetja börnin til að vera forvitin og leita svara, prófa sig áfram, Sköpun í leik og í listasmiðjum
Málþroski, s.s. Lestur, þulur og vísur, sögugerð.
Raunvísindi, s.s. stærðfræði, eðlis- og efnafræði. Kenna tungutakið, telja, bera saman, flokka, kubba, velta vöngum og spá fyrir um hvað muni gerast. Ýmsar tilraunir. Tónlist og dans. Hlusta, syngja, spila, koma fram…gleðin. Hreyfing og heilbrigði. „
Að gera nægan tíma fyrir frjálsan leik en mér finnst oft starfið vera of skipulagt og of mikið farið eftir klukkunni og of stuttur tìmi fara í frjálsan leik. Skapandi starf- listir og föndur með fjölbreyttan efnivið. Hreyfing- dans, íþróttir og gönguferðir. Rólegar stundir- sögur, söngur, lesnar bækur, jóga, hvíld. Útivera og kenna hópleiki bæði sem eru rólegir innileikir sem innihalda söng og samskipti og hreyfileiki. Og örva samskipti og orðaforða með því að vera duglegur að spjalla við börnin og hjálpa þeim að læra að halda samræður sìn à milli
Lesa fyrir börnin á hverjum degi og leyfa börnunum að njóta sín í frjálsum leik

 

Að lokum eru nefndir þættir er snerta starfsfólk og vinnuumhverfi þeirra.

–          Það sem viðkomandi finnst skipta mestu að vinna að í leikskólanum   – starfsfólk/kennarar
Nægur mannskapur, góður starfsandi og gott samstarf, góðar vinnuaðstæður.
„Þróun i faglegu starfi
Skapa rólegt jákvætt, gefandi andrúmsloft þar sem hvert barn og kennarar geta prófað sig áfram saman í uppgötvunum og  gleðiríku starfi.
Viðhalda jákvæðum starfsanda, faglegt leikskólastarf og að allir starfsmenn finni til ábyrgðar hvort sem það eru fagmenntaðir eða leiðbeinendur.
Að hafa áhugavert og metnaðarfullt námsumhverfi og fleiri leikskólakennara.
Að það sé góður mórall og samvinna á milli starfsfólks, það skilar sér svo í vinnu með börnunum.
Að maður geti mætt til vinnu og fundið fyrir gleði, ánægju og vellíðan á vinnustað og að maður komi heim ánægður með daginn og tilbúinn að takast á við næsta vinnudag.
Það er erfitt að vinna metnaðarfullt starf þegar hver dagur snýst um að láta daginn „rúlla“ vegna manneklu. Starfsfólkið nær því sjaldan að fylgja áætlunum og því metnaðarfulla starfi sem það vill. Hef heyrt að sumir komast ekki á klósettið því það vanti starfsfólk. Þá vantar fleira fagfólk inn í leikskólana.
Auðvelt að hafa áhrif og láta gott af sér leiða. Finnst ég sjá árangur af starfi mínu.
Hafa gott  og ánægt starfsfólk. Hafa nóg pláss fyrir alla. Hafa góða starfsmannaaðstöðu kennaraherbergi, kaffistofu með góðri kaffivél. Vera í góðu samskiptum við foreldra.

 

–          Það sem viðkomandi finnst skipta mestu að vinna að í leikskólanum   – vinnuaðstæður
Betra vinnuumhverfi. Sem dæmi þá er rýmið yfirleitt alltof lítið, lítil virðing borin fyrir hvernig vinnuaðstaða okkar er skipulögð eins og t.d fataklefar sem eru yfirleitt þröngir og illa hannaðir. Vantar alla praktík í vinnuaðstæður. Leikskólar mættu vera fallegri til að laða fólk til starfa. Börn og starfsfólk eiga það skilið að vera í fallegu og björtu umhverfi. Mjög oft sem maður sér hluti úr sér gengna slitna og rifna. Við þurfum að vera kröfuharðari á vinnuaðstæður.
Það er erfitt að vinna metnaðarfullt starf þegar hver dagur snýst um að láta daginn „rúlla“ vegna manneklu. Starfsfólkið nær því sjaldan að fylgja áætlunum og því metnaðarfulla starfi sem það vill. Hef heyrt að sumir komast ekki á klósettið því það vanti starfsfólk. Þá vantar fleira fagfólk inn í leikskólana.
Bætt starfsumhverfi kennara og
starfsfólks, meiri tími til að vinna að þróun starfsins, sameiginlegur undirbúningstími deildarstjóra t.d. frá kl. 14:20-16:00 alla daga. Þannig er unnið í mörgum leikskólum í … og gefst mjög vel.
Gera greinamun á hlutverki ófaglærða og faglærða og ábyrgð sem þessir hópar eiga að bera. Banna 9 eða 9.5 tíma vistun á yngstu börnunum. Hækka laun bæði faglærðra og ófaglærða.
Fagmennska, fjölga leikskólakennurum, stundvísi, minnka vistunartíma barnanna, minni hópar og færri börn í rýmum. Mér finnst að mætti meta ófaglært fólk að verðleikum. Og umbuna sérstaklega því fólki sem stendur sig vel í starfi . Mér finnst alltof lítið talað um allt það góða ófaglærða starfsfólk sem er í skólunum og gert lítið úr mikilvægi þess.

 Lokaorð

Að lokum þakka ég öllum þeim er lögðu hönd á plóginn og tóku þátt. Án þeirra hefði ég ekki allar þessar upplýsingar. Það er von mín að leikskólar geti nýtt þessi gögn til að gera góðan leikskóla enn betri. Að samfélagið átti sig á hvílík náma mannauðs og manngæsku er í leikskólum landsins þar sem starfsfólk þrátt fyrir misgóðar aðstæður (já sumstaðar eru þær nefnilega góðar) setur hagsmuni og líðan barna í fyrirrúm.  Að það er í leikskólanum barnanna vegna.

 

Kristín Dýrjförð 10. nóvember 2017

Tags:

Sorry, the comment form is closed at this time.

Kristín Dýrfjörð er eigandi og ábyrgðarmaður síðunnar