Kristin Dýrfjörð

Jafnrétti í leikskólastarfi

SAM_2556Ég hef í gegn um tíðina skrifað heilmikið um erlendar rannsóknir sem hafa orðið á vegi mínum á þessari síðu. Minna um innlendar rannsóknir nema mínar eigin. Mér finnst hins vegar ástæða til að fjalla um rannsókn sem gerð var í leikskólanum Aðalþingi í fyrravetur um áhrif jafnara kynjahlutfalls í starfsmannahópnum á leikskólastarfið. Gagna var aflað í daglegu starfi af viðkomandi starfsfólk. Gagnaöflun átti sér stað í daglegu starfi og tækjum sem tengjast uppeldisfræðilegri skráningu, en leikskólinn starfar í anda Reggio Emilia og heimspeki Loris Malaguzzi. Rannsóknina gerðu þau Guðrún Alda Harðardóttir, Hörður Svavarsson og Elín Guðrún Pálsdóttir sem öll starfa í Aðalþingi.

Markmið rannsóknarinar

Markmið rannsóknarinnar var að skoða hvernig áhrifa megi gæta í leikskólastarfi þar hlutfall karlmanna er hátt í starfsmannahópnum. Fram kemur að hlutfall barna eftir kyni er nokkuð jafn en að hlutfall karla í starfsmannahópnum er nokkuð hærra en gengur og gerist eða um 30% á móti 6% á landsvísu. Má sega að barnahópurinn sé dæmigerður fyrir leikskóla, en sama er ekki hægt að segja um starfsmannahópinn. Því er spurningin hvort þetta háahlutfall (miðað við landsmeðaltalið) hefur áhirf á kyngervi barna og hvort að kynsuli sé þar algengur.

Kyngervi – kynusli

Guðrún og félagar styðjast við skilgreiningu  Butler (2004, 2006) á hugtakinu kyngervi (e. gender) sem segir að félagslega ráðandi norm kynja setji kynin í hlutverk sem þau eigi að aðlaga sig að og geri þau það ekki, geti það valdið útilokun sem hafi mótandi áhrif á sjálfsmynd einstaklinga. Þau benda á að þetta sé í raun ávísun á að kyngervi sé bæði óstöðug og sveigjanlegt, það má jafvel álykta sem svo að það geti verið aðstæðubundið og því hafi umhverfið áhrif á hvernig birtingarmyndir þess geta verið.

Guðrún og félagar benda á að fyrri rannsóknir á meðal leikskólabara sýni stelpur hlédrægar á meðan strákar eru ákveðnir og sjálfstæðari. Þeirra gögn styðji hinsvegar ekki þessa sýn, heldur einmitt sjái þau sterk og sjálfstæð börn af báðum (eða öllum) kynjum. Í skýrslunni segir m.a.

Til að mynda má greina í rannsóknargögnunum að börnin gengu óhikað og örugg til verks hvort sem það var að velja sér mat af hlaðborði, velja sér sæti í matstofu skólans eða velja sér viðfangsefni að lokinni máltíð inni á deild. Nokkrir af eldri drengjunum og nokkrar af eldri stúlkunum sóttust í að sitja í fangi starfsmanns og virtist val þeirra á starfsmanni frekar vera einstaklingsbundinn en kynbundinn. Fang sumra karlkennaranna og kvennkennaranna voru vinsælli hjá börnunum en fang annarra kennara. Börnin virtust ekki hafa þörf á að fullorðinn væri nálægt þeim, barnahópurinn sem slíkur virtist vera þeim mikilvægari en þeir fullorðnu. (Guðrún Alda Harðardóttir, Hörður Svavarsson og Elín Guðrún Pálsdóttir, 2018,  bls.  5)

Fram kemur í skýrslunni að rannsóknir sýni að leikskólabörn hafi tilhneigingu til að leiðrétta og/eða útiloka þau börn sem gerðu kynusla. Ennfremur er þar vitnað í fyrri rannsókn Guðrúnar Öldu sem sýndi sterka tilhneigingu hjá kennurunum að flokka börnin í stúlkna- og drengja „flokk“ og að kennarar stýrðu börnunum inná á ríkjandi kvenlæg og karllæg viðmið og þau börn sem reyndu að fara út fyrir fengu vinsamlega „leiðréttingu“. Það er líka ljóst að almennt eru stelpur og þeirra heimum undirskipaðir strákaheimunum. Það birtist m.a. í hérlendu þróunarverkefni  þar sem kemur fram að stelpurnar virtust eiga auðveldara með að stíga yfir „strákalandamæri“ en að stákar stígi yfir „stelpulandamæri“. Í þeirri rannsókn sem hér er kynnt, fóru bæði kyn yfir „kynbundin landamæri“ (Jóhanna Kr. Jónsdóttir og félagar, 2015 hjá Guðrún Alda Harðardóttir, Hörður Svavarsson og Elín Guðrún Pálsdóttir, 2018,  bls. 7).

Þegar ég las þetta datt mér reyndar í hug að töluvert hefur verið skrifað um undirskipun kvenægra viðhorfa og starfa, að valdakerfi karla sé að hluta byggt upp á valdi undirskipunarinnar. Valdakerfi  sem er svo sterk að þegar einhver fer að rugga þeim báti fer valdakerfi karla á hvolf við að verja sig svona eins og við höfum verið að upplifa í tengslum við Metoo byltinguna. En samtímis sjáum við að til að breyta verður í anda Freire að nefna og skilgreina þau valdakerfi sem undiroka, öðruvísi verður engu breytt.

Í rannsókn Guðrúnar og félaga kom hinsvegar í ljós að börnin voru tilbúin til að gera kynusla og þá í báðar áttir; strákar fóru hlutverk sem venjulega eru talin undirskipuð eins og sést í þessu dæminu hér á eftir og stelpur fóru í „strákaleiki“

Dæmi um stráka í undirskipuðu hlutverki

Bjarni og Karl (tilbúin nöfn) báðir 5 ára, eru í leik á hlutverkasvæði deildarinnar, báðir hafa klætt sig í eins bleika pífukjóla.

Úr skýrslu Aðalþings

Bjarni situr á gólfinu og treður flík inn undir kjólinn sinn og ýtir henni uppfyrir magann, bunga myndast á kjólinn hægramegin í brjósthæð hans. Karl stendur, beygir sig og tekur flík frá gólfinu og treður henni undir sinn kjól. Bjarni stendur upp, heldur 8 við flíkina sem er undir kjólnum hans og segir „má ég fá hinn Sollu stirðu kjólinn?“ Karl segir „já, og ég“ Bjarni gengur til Karls, þeir standa fyrir framan hvorn annan, annar með bungu í brjósthæð og hinn með bungu við magann, Karl strýkur rólega með báðum höndum yfir sinn maga. Hægra brjóst Bjarni lekur niður og hann ýtir því upp aftur og segir „við skulum hafa þetta hér“. Bjarni gengur nær Karli og horfir í andlitið á honum og segir „höfum það eins og brjóst“. Þeir horfast í augu og Karl strýkur um magann líkt og fyrr, Bjarni strýkur um sitt brjóst og segir „viltu ekki hafa brjóst? Ég þarf tvö“ Karl bendir á brjóst Bjarna og segir „þetta eru í þykjustunni tvö“ Bjarni segir „má ég fá hinn Sollu stirðu kjólinn? “Karl dregur Sollu stirðu kjól undan kjólnum sínum, Bjarni tekur kjólinn og setur undir sinn kjól og segir „Þú getur fengið einhvern annan kjól“ Bjarni lagfærir og mótar brjóstin sem eru nú orðin tvö undir kjólnum, á meðan stendur Karl og strýkur báðum höndum um magann. Karl gengur að svæði þar sem búið er að raða dýnum á hlið, opnar „dyr“, gengur inní rýmið og segir „við komum inní húsið“, lokar „dyrunum“ og strýkur með báðum höndum um magann líkt og fyrr.

Og ennfremur segir um stelpur sem leika „upp“ fyrir sig:

Margar stúlknanna; léku leiki sem oft er litið á sem strákaleiki t.d. sóttu þær í að leika slagsmál við drengi og „löggu og bófa leiki“.

Í skýrslunni er myndir sem eru bæði lýsandi og greindandi og ættu að geta orðið til umræðu á meðal starfsfólks leikskóla um kyngervi og kynusla barna.

Hér er líka dæmi úr skýrslunni um leik fimm ára stúlku sem tekur gjarnan að sér leiðtogahlutverk: (Hen er notað um bæði kynin í skýrslunni).

Hen-5 er fimm ára barn sem velur oft að leika hlutverkaleiki, hen leikur oftar með stelpum en strákum, hen er oftast leiðtogi í leiknum; kemur með hugmyndir að leik og á auðvelt með að spinna með öðrum börnum. Hugmyndir hen að leik eru mjög fjölbreyttar, t.d.: í löggu og bófaleik þar sem hen lék löggu. Í hlutverkaleik með 3 börnum – þar sem hen leiddi leikinn. Í „mömmó“ þar sem hen lék mömmu, dans sem hen dansaði líkt og sjá má í tónlistarmyndböndum með fáklæddu fólki.

Til umhugsunar

Ég er gráðug og hefði gjarnan viljað sjá skýrsluna lengri með fleiri dæmum og meiri umræðu, vegna þess að efnið og gögnin gefa sannarlega tilefni til þess. Gögnin eru gríðarlega mikil 120 myndbönd og 971  ljósmyndir. Það er sennilega ærið verkefni að vinna úr öllum þessum gögnum og eitthvað sem ég er viss um að stendur til að gera þegar tími gefst til. Það gæti líka verið áhugavert ef t.d. leikskólinn færi í samstarf við meistaranema sem fengi aðgengi að gögnum til að greina og fjalla um í meistaraprófsritgerð.

Mér hefði þótt gott að fá fleiri dæmi og nákvæmar skráningar um stelpur sem gerðu kynusla. Ég velti fyrir mér hvað það segir um okkur að við veljum að lyfta fram dæmum þar sem strákar fara í undirskipuð hlutverk, þó svo auðvitað geri ég mér grein fyrir mikilvægi þeirra dæma, sérstaklega í ljósi þess að þau eru sjaldgæfari og almennt minna um þau fjallað.

Ég hvet sem flesta til að lesa skýrsluna og pæla í innihaldi hennar og ég hlakka til að lesa greinar í framhaldið sem verða byggðar á rannsóknargögnunum. Mér finnst líka mikilvægt að fá skýrslu sem þessa frá starfsfólki leikskóla og verkefnið vera dæmi um frábært rannsóknarumhverfi innan leikskólans.

 

Guðrún Alda Harðardóttir, Hörður Svavarsson, Elín Guðrún Pálsdótti. (2018). Rannsókn um áhrif jafnara kynjahlutfalls í starfsmannahópnum á leikskólastarfið. Leikskólinn Aðalþing: Kópavogi.

Skýrsluna er að finna á vefleikskólans Aðalþings – HÉR

http://www.adalthing.is/static/files/Kynjarannsokn/ahrif-jafnara-kynjahlutfalls.pdf

ATH 

Greinin birtist árið 2018 undir heitinu Kyngervi og kynusli  leikskólabarna – vegna heitisin var síðan undir árásum fólks að auglýsa kynlífsleikföng og efni. Ég ákvað því að’ endurskíra hana í þeirri von að hún fengi að vera í friði.

Tags: , , , ,

Sorry, the comment form is closed at this time.

Kristín Dýrfjörð er eigandi og ábyrgðarmaður síðunnar