Matur og matarmenning
Kristín Dýrfjörð skrifar – fyrsti hluti
Matur er stór hluti af lífi okkar, allra, án hans getum við ekki verið til. Við eigum öll minningar tengdar mat, matargerð, matmálstímum og þess að borða. Skoðun á mat og matmálstímum er sennilega kannski það sterkast sem sem fylgir okkur frá uppeldinu og inn í starfið í leikskólanum. Þegar ég hef rætt um matmálstíma við starfsfólk leikskóla, heyri ég oft óm þeirra eigin minninga um hvernig matmálstímar eiga að fara fram. Það er sú menning sem við, hvert og eitt okkar hefur með sér – frá eigin bernsku og uppeldi. Í þessum fyrirlestri ætla ég að blanda saman ýmsu sem snýr að mat, matarmenningu og leikskólum. Ég ætla að tala um hvers vegna málefnið er mikilvægt. Heilsa barna hefur almennt batnað á sl. áratugum en það þarf lítið að breytast til að tapa því sem vel hefur verið gert.
Heilsumælikvarðar og fátækt barna
Ungbarnadauði er einn mælikvarði á heilsugæslu þjóða. Einu sinni var ungbarnabarnadauði með því hæsta hérlendis – en í dag er hann meðal þess lægsta sem þekkist. Almennt betra atlæti í bland við hvernig þekkingu og forgangsröðun var beitt er sennilega stærsti þátturinn í þessari jákvæðu þróun.
Á Íslandi er ungbarnadauði 2 börn á hver 1000 fædd börn á meðan að hann er vel yfir 100 á í sumum fátækum ríkjum. Í alþjóðlegum samanburði stöndum við vel varðandi mæðra- og ungbarnavernd. Við skulum halda því áfram EN við þurfum að átta okkur á að í nokkur ár hafa verið blikur á lofti varðandi heilsuvernd barna. Fátækt meðal barna hefur vaxið, samkvæmt Evrópuskýrslu Barnaheilla búa 13,1% barna hérlendis við einhverskonar fátækt.
Hún getur verið af ýmsu tagi. Sum börn skortir næringu á meðan önnur búa ekki við öruggt húsaskjól eða geta ekki tekið þátt í tómstundum með öðrum börnum. Gjadfrjáls matur fyrir öll börn í skólum landsins er hluti af því að vinna að velferð barna og stuðla að því að útrýma næringarfátækt á meðal þeirra.
Hérlendis er núna verið að vinna að gjaldfrjáslum skólamáltíðum fyrir grunnskólabörn, en betur má ef duga skal. Það þarf að sjálfsögðu líka að ná til barna í leik- og framhaldsskólum landsins.
Sem betur fer eru flest börn á aldrinum 2-5 ára í leikskólum, þar sem þau fá vonandi minnst eina góða og nærandi máltíð á dag, auk milli mála. Kannski ein ástæða þess að næringarfátækt hefur ekki mælst mikil hérlendis og með gjaldfrjálsum skólamat í grunnskólum ætti sú tegund fátæktar að verða enn sjaldgæfari. Hins vegar má spyrja hvort að hækkandi matarverð hafi áhrif á þann mat sem boðið er upp á í skólum og auðvitað á heimilum? Hafa breytingar á eldun, t.d. aukin áhersla á aðkeyptan eldaðan mat frá stóreldhúsum áhrif á gæði þess matar sem boðið er upp á? Í dag er hugtakið gjörunninn matur viðhafður um mat sem er m.a. eldaður í stórum allt að því verksmiðjueldhúsum og inniheldur fjölda aukaefna til að viðhalda bragði og útliti. Er slíkur matur í boði í leikskólum, oftar er í grillveislum leikskólanna?
Börnin okkar verða sífellt þyngri
Það eru tengsl á milli þess að matarvenjur hafa þróast og þess hvernig holdafar okkar jarðarbúa hefur breyst. Við stöndum t.d. frammi fyrir gríðarlegri aukningu á ofþyngd. Ekki bara á meðal fullorðinna, heldur líka á meðal barna. Og fleiri börn greinast með sjúklega ofþyngd en nokkrum sinnum áður.
Í læknablaðinu Lancet birtist árið 2016 grein um vaxandi ofþyngd barna í heiminum. Í greininni má sjá að íslensk börn eru ekki á góðri leið, sérstaklega á það við um drengi en í Lancet eru þeir komnir á appelsínugult stig, stúlkur á gulu, en hæsta stig er dökk rautt. Ef verið væri að fjalla um veðurviðvaranir vitum við hvað appelsínugult merkir. Okkur ber að bregðast við. Tölurnar í Lancet eru eru ekki nýjar en þróunin er því miður augljós. Í viðtali við Tryggva Helgason, sérfræðing um offitu barna í Læknablaðinu 2021 var talað um 6,5% barna hérlendis væru ofþung og í viðtali á RUV árið 2023 við Tryggva voru tölurnar komnar upp í 7,3%. Við þurfum að átta okkur á að á bak við hvert prósentustig eru fleiri hundruð börn sem búa við skert lífsgæði og mögulega afleidda sjúkdóma. Þess vegna skiptir matur og matarmenning okkur öll máli og ætti að skipta okkur í leikskólum landsin gríðarlega miklu. Í viðtalinu kemur fram að um 1500 ný börn sem hafa bæst hafa bæst í hópinn á 6 árum. Við erum ekki að tala um börn sem eru með aðeins hold utan á sér, heldur börn þar sem hætta er á að þyngdin geti haft áhrif á daglegt líf þeirra og heilsu. Í Bandaríkjunum er aukning á sykursýki 2 og kæfisvefni á meðal barna sem rakið er til ofþyngdar þeirra. Sjúkdómar sem geta ógnað lífi þeirra. Og ef við grípum ekki inn í gætum við verið á sömu leið.
Þess vegna er matur og matarmenning hluti af velferð og farsæld alla barna.
Ofþyngd nýja normið
Ofþyngd nýja normið las ég einhverstaðar. Viljum við það? Við sjáum flest að við sem þjóð, höfum bætt á okkur, við erum flest aðeins þyngri en kynslóðin á undan, það er ekki verið að tala um slíka þyngdaraukningu þegar rætt er um ofþyngd, heldur þegar þyngdin er farin að valda skaða. Mér finnst líka mikilvægt að benda á að það verður að gæta þess að gera þyngdina ekki að skömm, slíkt stuðlar að feluleik, varnahætti og vanlíðan. Það er aldrei markmiðið. En samtímis verðum við að viðurkenna að sjúkleg ofþyngd getur verið skaðleg. Hún getur bæði skaðað líkamlega heilsu og ekki síður ANDLEGA heilsu. Hún getur dregið úr lífsgæðum okkar á allan mögulegan og ófyrirséðan hátt.
Hvað er til ráða?
Niðurstöður rannsókna eru skýrar, að það dugir ekki að segja fólki hvað það á að gera. Þótt menntun og upplýsingar séu mikilvægar, þarf flóknari aðgerðir til að hjálpa okkur að minnka kaloríuneyslu og tileinka okkur heilbrigðari mataræði.” (Abarca-Gómez, ofl., 2017). Við höfum rekist á slíkt áður, afleiðingar reykinga voru þekktar í langan tíma áður en tókst að minnka reykingar og fá ungt fólk til að fresta að byrja að reykja. Fólk vissi alveg um skaðann en það dugði ekki til, það þurfti samfélagslegt átak, sama átti við um áfengisneyslu íslenskra barna. Við þurfum samfélagslegt átak og meðvitund um mat og matarræði. Við þurfum að lyfta Grettistaki til að breyta þeirri matarmenningu sem hefur verið að þróast. Í samtímanum eru fáir einstaklingar sem geta lyft slíku taki, en sameiginlega er það hægt.
Matur og matarneysla er menning og viðhorf. Matur er samfélagslegt verkefni
Áhrif auglýsinga
Á Íslandi eru auglýsingar bannaðar í sjónvarpsefni sem er beint að börnum, en þannig hefur það ekki alltaf verið og víða er slíkar auglýsingar enn leyfðar. En hins vegar er stóra spurningin: á hvað eru börn að horfa? Í breskri rannsókn kom fram að yngstu börnin eru ekki að horfa á línulega dagskrá, jafnvel ekki sjónvarp, þeirra neysla fer m.a. fram í gegn um YouTube og kannski TikTok.
Fyrir kosningar fyrir nokkrum árum, datt upp úr leikskólabarni þegar kveikt var á fréttum að það þyldi ekki tiltekinn stjórnmálamann, foreldrar voru forviða, vissu ekki til að barnið þekkti eða hefði séð viðkomandi. En þessi stjórnmálaflokkur hafði keypt mikið af YouTube auglýsingum, sem birtust þegar barnið var að horfa, það þurfti því oft að bíða meðan viðkomandi var að auglýsa sig og stefnuna.
Það má spyrja: Hvað annað eru börn að sjá þegar þau horfa á YouTube eða TikTok rásir til dæmis neyslutengt? Áttum okkur á að auglýsingaiðnaðurinn veltir um 12 þúsund milljörðum í auglýsingar sem miða að börnum og matvælum og að í Bandaríkjunum horfa börn á um það bil 40,000 auglýsingar árlega. Ég held að talan sé ekki jafn há hérlendis en ég hef heldur ekki rekist á könnun um áhrifin hérlendis.
Auglýsingar byggja upp velvild gagnvart merkjum og þær hafa áhrif á kauphegðun. Matur í auglýsingum sem haldið er að börnum er gjarnan bæði sykurríkur og iðulega með hátt hlutfall vondrar fitu og sem fellur ekki að manneldismarkmiðum (Story og French, 2004). Á vef samtaka bandarískra sálfræðinga er umfjöllun sem um efnið (sjá hér)
Matur og matarmenning eru mál sem allt samfélagið þarf að hugsa um.
Í næsta hluta mun ég fjalla um mismunandi sjónarhorn á mat og matarmenningu, á þátt okkar eigin uppeldis til viðhorfa okkar.
Þessi færsla birtist að stofni til í febrúar en vegna uppfærslu á vef var henni eytt, hún er hluti af fyrirlestri sem fjallar um félagslega sjálfbærni í námskeiði kennaranema við Háskólann á Akueyri.
Til umhugsunar:
Veltið fyrir ykkur hvernig tengist umfjöllunarefnið heimsmarkmiðum SÞ um sjálfbæra þróun? Hvaða markmið tengið þið við?
Sorry, the comment form is closed at this time.