Lýðræði í leikskólum í anda hugmynda John Dewey
Erindi haldið í tilefni 10 ára afmæli leikskólabrautar Háskólans á Akureyri þann 27. október 2006 á Akureyri.
Maðurinn John Dewey
Er hægt að svara því? Er hægt að segja hver einhver er eða var? Sennilega ekki en það er hægt að segja frá stórum dráttum í lífi hans og hluta af þeim hugmyndum sem hann stóð fyrir. John Dewey átti langt og um margt gæfuríkt líf, hann fæddist árið 1859 og lést 1951 tæplega 93 ára. Sagt er að hann hafi ekki lagt pennann frá sér fyrr en viku fyrir andlátið. Eftir hann liggja heilu rit- og bréfasöfnin.
Dewey fæddist í Vermont fylki í Bandaríkjunum og var hann þriðji af fjórum sonum foreldra sinna. Faðir hans hafði tekið þátt í þrælastríðinu en gerðist síðan verslunarmaður. 15 ára hefur Dewey nám við háskólann í Vermont þar sem hann fékk á þeirra tíma, klassíska menntun. Auk þess sem hann stúderaði skoska og þýska heimspekinga. Sérstakan áhuga hafði hann á kenningum Hegels. Af námi loknu hóf hann kennslu við gagnfræðaskóla þar sem hann kenndi í tvö ár.
Árið 1881 þá 22 ára hefur hann aftur nám og ákveður þá að leggja fyrir sig heimspeki, en kennir jafnframt með í barnaskóla. Hann lauk doktorsprófi frá John Hopkins háskólanum 1884. Sama ár fékk Dewey kennslustarf við háskóla í Michigan þar sem hann starfaði nær ólslitið til 1894. Þar kynnist hann Alice Chipman, sem var á þeim tíma nemi hans. Eftir að hún lauk háskólanámi giftast þau. Þau eignuðust 6 börn og ættleiddu eitt.
Árið 1894 fékk Dewey stöðu sem deildarforseti við þrjár deildir við háskólann í Chicago, skólinn hafði þá starfað í tvö ár. Deildirnar sem Dewey veitti forstöðu voru sálarfræði-, heimspeki- og menntunardeildir háskólans.
Talið er að til að skilja Dewey sem manneskju og hvernig hugsun hans þróaðist þá séu árin í Chicago mikilvæg og það sem þá gerðist. Í fyrsta lagi er bent á að hann hafi safnað í kringum sig hópi heimspekinga og hugsuða sem tengdust öðrum fræðigreinum. Þessir fræðimenn voru seinna kallaði Chicago skólinn, hugtak sem flestir þekkja e.t.v. betur úr félags- og jafnvel mannfræðinni. Dewey var á þessum tíma talinn einn helsti leiðtogi Chicago skólans en einnig má kenna þar áhrifa Gerorge Herbert Mead.
Á Chicago árunum setti hann á stofn ásamt konu sinni Chicago Laboratory School fyrir börn á aldrinum 4 – 15 ára. Veitti Alice Chipman skólanum forstöðu. Dewey taldi skólann ekki bara vera tilraunaskóla á sviði uppeldisfræða heldur vera skóla þar sem tækifæri gafst til að reyna þverfræðilegra nálgun í skólastarfi. Skólinn var vel studdur af bæði foreldrum og samfélaginu en fjárhagur skólans var aldrei stöðugur þann tíma sem Dewey og Alice unnu þar. Afskipum Dewey og Alice Chipman af skólanum lauk með leiðinlegum hætti. Eitthvert sinn þegar Dewey var í burtu í fyrirlestraferð, tók rektor Chicago skólans sig til og sameinaði skólann öðrum stofnunum háskólans og sagði Alice upp starfi sem skólastjóra. Dewey var mjög misboðið vegna þessara aðfara og þau hjónin ákváðu að yfirgefa Chicago. Verður þetta til þess að árið 1904 þegar Dewey er 44 ára tekur hann við stöðu sem prófessor í heimspeki við Columbia háskólann í New York. En til gaman má geta þess að þangað sigldi Steingrímur Arason í framhaldsnám. Og rit hans Stjórnbylting á skólasviðinu (1919) er skrifuð undir sterkum áhrifum frá meðal annars Dewey.
Aðrir atburðir sem mörkuðu djúp spor í sálarlíf Dewey er barnamissir, en hann og Alice misstu tvo syni. Árið 1985 missa þau þriðja barn sitt, tveggja og hálfsárs gamlan dreng af völdum niðurgangspestar,10 árum seinna missa þau svo fjórða barnið Gordon þá átta ára úr hitasótt. Dóttir þeirra skrifaði seinna að missir Gordons hefði verið slíkt högg á Alice að hún hafði aldrei jafnað sig almennilega eftir það.
Ég velti fyrir mér hvort að barnamissirinn hafi meðal annars orðið til þess hversu mikla áherslu Dewey lagði á að við lifum í núinu. Núinu sem ekki kemur aftur. Í Experience and Education skrifaði hann:
Við lifum alltaf á þeim tímum sem við erum uppi á, ekki á einhverjum öðrum tímum. Og þá aðeins ef við vinnum úr á hverjum tíma merkingu hverrar reynslu sem við verðum fyrir erum við undirbúin fyrir það sama í framtíðinni. Þegar til lengra tíma er litið er þetta eini undirbúningurinn sem nokkru skiptir. (finna tilvitnun)
John McDremott einn þeirra sem ritað hefur um ævi og störf Dewey segir að dæmigerð túlkun á þessum og sambærilegum orðum Deweys séu að hann sé bundin af nútímanum, án þess að gera sér grein fyrir bæði tortímandi og/eða gleði þess sem var í fortíðinni. McDermott telur aftur að ef litið er til þessara skrifa í ljósi barnamissis þá öðlist þau nýja merkingu. Sjálf verð ég að taka undir það. Ég held að hvert okkar sem einhvertíma hefur gengið í gegn um missi skiljum að ekkert getur undirbúið okkur undir þá reynslu. En samtímis gerum við okkur grein fyrir að hvert augnablik fram að því skiptir máli og er í raun það eina sem undirbýr okkur. Við lifum fyrir núið með augun á framtíðinni. Það er líka þess vegna sem ég tel svo mikilvægt að þeir sem starfa innan t.d. leikskóla og grunnskóla geri sér grein fyrir að þeir eru ekki að undirbúa börn undir virka lýðræðislega þátttöku í framtíðinni – heldur í því að vera til hér og nú, vera virkir þátttakendur í að móta eigið líf og lífsaðstæður.
Þegar Dewey hjónin misstu seinni son sinn brugðust þau við með því að fara til Ítalíu þar sem eldri sonur þeirra dó og ættleiða ítalskan dreng. McDremott telur að með þeirri athöfn hafi Dewey verið að framkvæma það sem hann boðar, það er að finna jafnvægi á milli þess að þjást og gleðjast, á milli óvissurnar og stöðuleikans.
Dewey var prófessor í heimspeki við Columbia háskólann þar til hann lét af störfum árið 1930. Á þeim tíma fór hann í ótal fyrirlestra og kynnisferðir til fjölda landa þar á meðal til; Japans, Kína, Tyrklands, Mexíkó og Sovétríkjanna. (Er því reyndar haldið fram að eina skiptið sem tókst að hagga Dewey og jafnvel fá hann til að efast hafi verið í Japansheimsókn hans, þar hafi gangkvæmt skilningsleysi hamlað samskiptum og er þá ekki átt við tungumálaörðuleika). Dewey tók jafnframt virkan þátt í félagstörfum ýmiskonar, tók meðal annars þátt í stofnun stéttarfélags kennara í New York, var stofnandi og fyrsti forseti Samtaka háskólaprófessora í Bandaríkjunum. Árið 1937 þá 78 ára leiddi hann rannsóknarnefnd í Mexíkó sem hafði það hlutverk að rannsaka ásakanir á hendur Leon Trosky. Má með sanni segja að Dewy hafi lifað það sem hann boðaði. Hann sat ekki hugsandi á hliðarlínunni heldur var hann fullur þátttakandi í samfélaginu og gerði sitt til að hafa áhrif á það.
Árið 1927 missti Dewey konu sína Alice, sem eins og fyrr sagði er aldrei talin hafa jafnað sig á áföllum við barnamissi og missi stöðu sinnar við tilraunaskólann í Chicago. Má ekki gleyma því að í sjálfu sér er það afar merkilegt að hún hafi í fyrstu fengið þá stöðu. Kvenkennarar í Bandaríkjunum á þessum tíma voru yfirleitt ógiftar konur sem helguðu sig menntun annarra manna barna. Ef svo vildi til að þær giftust létu þær yfirleitt af kennslustörfum. Það hlýtur því að hafa verið bæði merkilegt og jafnvel pirrað ýmsa að þarna leiddi kona skólastarfið, kona sem var bæði gift og 6 barna móðir. Oft hefur verið á það bent að í ritum Dewey er meiri áhersla lögð á menntun yngri barna og hvernig henni eigi að koma fyrir. Er talið að hluti skýringarinnar sé að finna í hversu stutt tilraunaskólinn starfaði undir handleiðslu Dewey hjónanna, Dewey hafi ekki gefist færi til að þróa hugmyndir sínar og reyna þær í verki með eldri börnunum á sama hátt og hann náði að gera með yngstu börnin.
Dewy giftist aftur seinni konu sinni Robertu Grant 1947, fjölskylda hennar hafði tengst Dewey fjölskyldunni í áratugi. Dewey og Roberta ættleiddu tvö börn. Hann lést sem fyrr sagði 1951 á heimili sínu í New York.
Sagt er að Dewy hafi hvað eftir annað lagt allt sitt að veði fyrir aðra og það sem hann trúði á. Sem dæmi er sagt frá því að þegar Bertand Russell var hafnað í stöðu við háskóla í New York á siðferðislegum grunni, hafi Dewey komið honum til varnar, þrátt fyrir að hafa ekki mikið álit á heimspeki hans. Annað dæmi sem gjarnan er talið til, er þegar Maxim Gorki kom til New York til að afla fylgis við rússnesku byltinguna. Með honum í för var sambýliskona hans. Fylgjendur rússneska keisaradæmisins gerðu mikið grín af honum og niðurlæðu opinberlega meðal annars vegna siðferðismála. Varð þetta til þess að fjöldi hótela í New York höfnuðu því að hýsa Gorki. Mitt í öllu fárinu opnaði Dewey heimili sitt fyrir Gorki og sambýliskonu hans. Þetta var ekki óvanalegt – Dewey hafði í gegn um árin opnað heimili sitt fyrir fjölda fólks sem var annað hvort að flýja eða undirbúa byltingar af ýmsu tagi, hvort sem það voru Írar, Kínverjar eða Rússar. Sagt er að Dewey heimilið hafi alltaf verið fullt af fólki, hvort sem voru ættingjar eða vinir og hann hafi ávallt getað unnið svo framalega sem ritvél var nálæg. Ritvélin hafi í raun virkað eins og framlenging á líkama hans við heila og hugsun.
Hugmyndafræði Dewey um lýðræði í skólastarfi
Dewey hefur lagt mikið til ýmissa greina heimspekinnar. Hugmyndir hans eru í dag notaðar jöfnum höndum innan menntaheimspekinnar, í fullorðinsfræðslu, og víða þar sem verið er að fjalla um lýðræði hvort sem er í skólastarfi, í samfélaginu eða á vinnustöðum. Í því sem eftir lifir af grein minni mun ég leitast við að gera grein fyrir hugmyndum hans um lýðræði í skólastarfi. Umfjöllunin verður þó aldrei nema hálfkák en getur kannski gefið einhverjum hugmyndir um fyrir hvað hann stóð og hvatt einhverja til að lesa áfram.
En hversvegna skiptir máli að fjalla um lýðræði? Undanfarin ár hafa heyrst raddir í fjölmiðlum og á meðal almennings um að vitundin um sameiginlega ábyrgð hafi farið minnkandi og er það flestum sem láta sig lýðræði varða áhyggjuefni. Að skynja sjálfan sig sem hluta af stærri heild er hverjum nauðsyn. Eitt einkenna lýðræðissamfélaga er talið vera að þar beri fólk sameiginlega ábyrgð hvert á öðru. Sú skoðun að hver einstaklingur verði að gera sér grein fyrir pólitískri samábyrgð sinni hefur verið að ryðja sér til rúms undanfarin ár. Er það meðal annars vegna þeirrar staðreyndar að færra og færra fólk í hinum vestræna heimi tekur þátt í kosningum og afsalar sér með því að vissu marki mikilvægu hlutverki. Til varnar ungu fólki hafa aðrir bent á að þó svo ungt fólk hafi í minna mæli áhuga á flokkspólitískum málefnum og þátttöku í kosningum sé það ekki endilega vísbending um að því sé ekki annt um ýmis lýðræðisleg málefni. Form lýðræðisins getur tekið á sig ýmsar myndir í leikskólum. Má til dæmis benda á að Dahlberg og Moss (2005) telja leikskólann stað þar sem mögulegt er að vinna með pólitískar hugmyndir, til dæmis með því að pæla í stund og stað og vefengja áhrifavalda. Telja þau að með því opnist möguleikar til öðruvísi áhrifa. Hugmyndir sínar byggja þau á femínískum póststrúktúralisma sem hefur verið að ryðja sér til rúms innan leikskólafræðanna. Í raun falla hugmyndir þeirra ágætlega að ýmsu því sem Dewey skrifaði fyrir hundrað árum. Kynjavíddin sem felst í hinu femíníska sjónarhorni verður þó að teljast bæði viðbót og akkur.
Dewey sagði í The School and society (skóli og samfélag) að það sem okkar “vísustu og bestu” foreldrar vildu fyrir börnin sín ætti samfélagið að vilja fyrir öll börn. Allt annað er óásættanlegt. Það byggi á þröngsýni og ástleysi á börnum. Og ef af verður hefur það eyðileggjandi áhrif á kjarna lýðræðisins. Við hér á Íslandi höfum hvað eftir annað fengið þann vitnisburð í alþjóðlegum samanburðarrannsóknum að skólakerfi okkar sé að hluta til einsleitt og að hér sé meiri jöfnuður á milli barna hvað skólann varðar en víðast hvar annarstaðar. Ef horft er til Dewey er það jákvætt sérstaklega í ljósi þess að hann telur það andstætt lýðræðinu ef skólar í sama samfélagi eru “gæðalega” mismunandi. En ég held að þó svo að þessar rannsóknir hafi fyrst og fremst náð til grunnskólans þá tel ég það sama sé hægt að segja um allflesta leikskóla. Auðvitað er mismunandi starfsaðferðum beitt og mismunandi nálganir í leikskólastarfi – en þegar upp er staðið er það starf sem börnunum er boðið sjálfsagt keimlíkara en við viljum oft vera láta. Dewey taldi að sósíalisma og einstaklingshyggju vera mjög samræmanlega, og í raun ekki geta án hvors annars verið. Hann taldi að eins því að samfélagið væri trútt hverjum einstaklingi gæti það átt möguleika á að breytast til batnaðar og þannig verið trútt sjálfu sér. Hann taldi ekki vera hægt að sundurgreina breytingar á skóla og samfélagi. Annars yrðu aðeins um breytingar á formi en ekki innihaldi. Hægt er að velta því fyrir sér hvort það hafi ekki einmitt verið örlög tilrauna skólans – hann var breyting á skóla – breyting sem samfélagið var ekki tilbúið til að standa frammi fyrir og hafnaði. En hvað er samfélag?
Samkvæmt Dewey er það fólk sem helst saman vegna þess að það er að vinna eftir sameiginlegum línum, í sameignlegum anda og með tilvísun til sameiginlegra markmiða. Þessi sameiginlegu þarfir og markmið krefst þess að fólki skiptist á skoðunum og hugsunum en líka vex með því samúðartilfinning.
Hann telur eimmitt að í þessu hafi vandi skólakerfisins verið fólginn. Þar var verið að undirbúa borgara framtíðarinnar með tólum þar sem samfélagsandann skorti. Dewey sagði reyndar einhvertíma að það væri fólgin í því ákveðin þverstæða að ólýðræðislegustu stofnunum samfélagsins væri treyst til þess að tryggja og standa vörð um hornsteina lýðræðisins.
Áhrif Dewey
Lýðræði er meira en stjórnunarform, það er fyrst og fremst samfélag byggt á reynslu sem deilt er saman.
(John Dewey, 1916, bls. 87).
Í anda Dewey (1916) er lýðræði skilgreint hér sem; samfélag fólks sem býr yfir sameiginlegum skilningi og trausti og sem trúir á rétt hverrar manneskju til að tilheyra og taka þátt í sameiginlegum skuldbindingum. Að mati Dewey (1897/1973) menntast fólk við það að vinna saman. Til þess að vera virkur í samfélaginu er nauðsynlegt að hver og einn leggi sitt af mörkum. Skólinn er fyrst og fremst félagsleg stofnun og menntun félagslegt ferli sem miðar að því að barnið geri sér grein fyrir hvernig það getur nýtt eigið vald og sammannlega reynslu til framdráttar fyrir samfélagið. Mikilvægi menntunar felst meðal annars í að hver einstaklingur læri að vera samábyrgur. Menntun er samkvæmt þessum skilningi það sem viðkomandi upplifir hér og nú. Hún er ekki fyrst og fremst undirbúningur fyrir það sem koma skal – heldur lífið sjálft. Ef hugmyndir Dewey eru yfirfærðar á leikskóla má telja að átt sé við að börn eigi að vera þátttakendur í að móta eigin veröld, þar sem rödd þeirra fær að hljóma og á hana hlustað. Í þessu felst einnig að þeim er gert kleift að þroska eigin mennsku í gegnum sammannlega reynslu og að þar litið sé á börn sem borgara sem eru sífellt í mótun fremur en sem verðandi borgara. Cuffaro (1995) bendir á að Dewey hafi lagt áherslu á hæfileika barna og möguleika þeirra til þroska. Í þessu tvennu felist meðal annars framtíð lýðræðisins. Kennarar geti haft mikil áhrif á þessa þætti meðal annars í gegnum skipulag á umhverfinu. Því sé hlutverk þeirra óumdeilanlegt. En samkvæmt Dewey er hlutverk kennarans aðallega tvíþætt Annarsvegar á hann að leiða barnið í gegnum flóknar götur lífsins og gefa því tækifæri til að læra á sinn eigin náttúrulega hátt, það er með því að takast á við að leysa mismunandi viðfangsefni. En kennaranum ber líka að hjálpa barninu að takast á við það sem er að gerast í daglegu lífi þeirra og sem hjálpar þeim á að takast á við það sem framtíði ber í skauti sér, framtíð sem engin getur séð fyrir. Skoðun hans á skólum samtímans má líka finna í lýsingum hans á því sem hann nefndi dæmigerða skóla samtíðarinnar.
Alveg eins og líffræðingur getu tekið bein eða tvö og frá þeim byggt um heillega mynd af dýri þá getum við ef við hugsum okkur venjulegan skóla, með röðum af ljótum borðum, raðað í stærðfræðilegt mynstur, þjappað saman svo sem minnst rými sé til að hreyfa sig. Flest borðin sömu stærðar … berir veggir og mögulega örfáar myndir. Þá getum við byggt upp mynd af einu starfseminni sem slíkt umhverfi bíður upp á. Það er gert til þess að hlusta[1] … því það að læra beint af bók er í sjálfu sér ein tegund hlustunnar. það þýðir í sjálfu sér aðgerðarleysi.
Umhverfislega hafa skólar tekið stórstígum framförum frá þessum tíma. En margir eru enn þann dag í dag sannfærðir um að skólar séu staðir þar sem fullorðnir ráði og börnin eigi að temja sér aga til að hlusta og fara að fyrirmælum. Sennilega ekki mikið um gagnrýna hugsun á slíkum stöðum. Dewey sá fyrir sér öðruvísi skóla. Skóla þar sem frelsi og athafnagleði ríkti. Þar sem börn gætu sjálf myndað vinnuhópa og gert áætlanir. Þar sem starfsfólk aðstoðaði og leiðbeindi börnunum í þekkingarleit þeirra.
Það er alveg í takt við ofangreinda lýsingu að Dewey (1916) trúði á mikilvægi tengsla og samfellu í menntun og taldi það vera mikilvægara en námsgreinabundna kennslu. Hann taldi athafnabundið nám vera leið til þess að tengja barnið við veröldina og samtímis vera leið til að læra í samhengi. Hans greining á skólum samtíðar sinnar voru skólar þar sem börnum var nánast hengt fyrir samstarf, þar sem samkeppni um bestu einkunnir ríktu, skólar sem einkenndust af samkeppni í stað samvinnu. Hægt er að spyrja hvort að skólar hafi í raun breyst mikið hvað þetta varðar á þeim 100 árum sem liðin eru? Ef við t.d. horfum á hið íslenska skólakerfi þar sem barnið fer þrisvar sinnum í samræmd próf á ferli sínum í gegn um grunnskólann. Þar sem krafan um samræmt námsefni og vinnubrögð fyrir elstu börn leikskólans hefur verið að aukast, námsefni og vinnubrögð sem margir kenna við grunnskólann. Þar fólk í fullri alvöru ræðir um námsgreinabundna kennslu á leikskólastiginu.
En víkjum aftur að hugmyndum Dewey og áherslu hans á samspil umhverfis og einstaklinga, auðvitað er það svo að þó svo að menntun eigi að eiga sér stað í samspili umhverfis og einstaklings er ekki öll reynsla nauðsynlega þroskandi eða menntandi að hans mati. Hann varaði við fánýtum athöfnum sem virðast hafa það sem markmið að hafa ofan af fyrir og skemmta börnum á kostnað raunverulegrar þátttöku og áhuga þeirra. Þetta sjónarmið má finna bæði í einu af höfuðritum hans Reynsla og menntun ((Experience and Education, 1938) og í Skóli og samfélag (School and society, 1943) en þar gagnrýndi hann m.a. Kindergareten-hreyfinguna.[2] Gagnrýni hans beindist að því að verið væri að leggja fyrir börn verkefni og ætlast til að þau tækju þátt í athöfnum sem ekki fullnægðu því meginmarkmiði að efla hugsun og þroska barna.
Dewey lagði áherslu á að agi yxi út frá vinnunni vegna vinnunnar, hann segir t.d. að ef kennari hafi það sem markmið að börn læri og hafi á takteinum tiltekna þekkingu, svo sem að kunna skil á innihaldi ákveðinnar skólabókar, þá beinist aginn að sjálfsögðu að því markmiði. En ef markmiðið beinist aftur af því að þroska mannsandann, félagslega samhjálp, samvinnu og þess að lifa og starfa í samfélagi þá verði aginn að tengjast þeim markmiðum. Hann telur að þar sem slík markmið ríkja sé tilfinning fólks fyrir röð og reglu nokkuð ólík því sem gerist í fyrra dæminu. Að í skólum þar sem unnið er í anda verkstæðisvinnu sé og verði ákveðin óreiða í gangi. Þar sé ekki hljótt, þar sitji börn ekki kyrr. Í slíkum skóla venjist barnið því að læra í gegn um þátttöku í athöfnum daglegs lífs. Nám verði inngróin venja.
Innan leikskólans þekkjum við flestar það sem nefnt er kaos tilfinning. Raunar hefur því verið haldið fram að það hversu óþægileg okkur finnst hún vera hafi leitt til skýrra skiptinga verka og vinnusvæða í leikskólanum. Ekki fara með kubba út úr kubbakrók, ekki blanda saman burstakubbum og legó eða einhverju öðru. Skipting starfsins upp í sérstakar vinnustundir þar sem fengist er við afmörkuð verkefni s.s. tónlist, tilfinningar, sköpun. Allt í litlum kössum. Þessi tilfinning og kannski sérstakalega hræðslan við hana hafi leitt okkur inn á götur sérhæfingar í uppröðun og skipulagi starfsins í leikskólanum. Og jafnvel ýtt undir tilhneigingu til þess að færa leikskólann í átt að þeim skóla sem Dewey lýsti hér að framan, þar sem kennarinn hefur skilgreind markmið sem hann hefur sett og setur kapp á að ná fram. Markmið sem snúa fremur að þekkingu en samfélagsgerð. Þar sem þungmiðja skólastarfsins er ekki í barninu sjálfu heldur utan við það.
Í Uppeldislegri játningu (My Pedagogic Creed) sinni lagði Dewey (1897/1973) áherslu á að barnið er fyrst og fremst borgari samtímans en ekki framtíðarinnar. Víða í skrifum hans koma fram áhyggjur af skólum sem eru svo uppteknir af framtíðinni að þeir gleyma áhrifum dagsins í dag á morgundaginn. Eins og komið hefur fram þá afneitaði Dewey ekki framtíðinni og mikilvægi hennar en benti á, að ef nám er þróun verður það að byggja á því sem fyrir er til þess að undirbúa einstaklinga fyrir framtíðina. Hann lagði líka áherslu á að börnum væri gefin kostur á að nýta fyrri reynslu sína til að leysa ný vandamál og benti raunar á vandamál sem hlytist af því þegar skólamenn ætluðu algjörlega að henda út fyrri þekkingu og námsefni. Við það skapaðist misfella í menntuninni sem er ekki ásættanleg. Varnaðarorð Dewey um skólann sem undirbúning undir næsta stig eru enn viðeigandi. Enn má heyra að leikskólinn eigi að undirbúa börn fyrir grunnskólann, að gera þau hæf til þátttöku í samfélagi framtíðarinnar. Í námskrárfræðum má tengja þessa umræðu við umræðu um ýmsar birtingarmyndir námskrárinnar. En bent hefur verið á að sýnilega námskráin þurfi ekki að vera sú áhrifamesta í skólum. Allt eins er líklegt að börn nemi það sem er hulið og óskráð og það sem er áætlað. Í því ljósi skiptir framkoma og viðhorf sem starfsfólk temur sér til bæði barna og starfsins miklu. Það getur haft jafn mikil áhrif á börnin og það sem fram kemur í hinni rituðu námskrá. Þegar upp er staðið er það reynsla sem mótar viðhorf barna og hefur áhrif á hvernig þau bregðast við bæði í augnablikinu sem í framtíðinni. Í því ljósi er það óumdeilanlega mikilvægt að skoða viðhorf og gildi leikskólakennara.
Hugmyndir barna um lýðræði
Ef börn eiga að verða virkir, meðvitaðir borgarar verða þau að skilja tilgang og markmið lýðræðislegra kerfa sem og þær meginreglur sem réttur borgara í lýðræðisríki hvílir á. Bent hefur verið á að í lýðræðissamfélögum hafi fólk daglega tækifæri á þýðingamiklu vali. Þetta frelsi til að velja er það sem gefur einstaklingum tilfinningu fyrir því að þeir búi yfir valdi. Aðrir hafa bent á mikilvægi þess að einstaklingar telji sig hafa vald á daglegum aðstæðum sínum og áhrif þess á líðan þeirra. Til eru þeir fræðimenn sem telja að uppeldisumhverfi sem leggur áherslu á að barnið sé óvirkt og fylgispakt sé lítt líklegt til að veita þessa tilfinningu um frelsi til valds, og því sé það ótækt.
Nýlega skrifaði ég grein þar sem ég bar saman nokkur uppeldismódel (Kristín, 2006). Eitt þeirra er módel sem hefur verið að ryðja sér til rúms í fyrrum löndum Sovétríkjanna og í austur Evrópu (Step by Step). Módelið var búið til, til þess að hjálpa leikskólafólki í þessum löndum að komast hjá því sem hafði einkennt samfélag þeirra áður fyrr, það er einsleitni og fylgispekt við reglur og norm. Fólk vildi þróa leikskóla sem byggðust á lýðræðislegum gildum. Í grein minni velti ég fyrir mér hvort að þessi bylting sé í þann veg að éta börnin sín? Er það vegna þess að nú er lögð áhersla á eilífa stöðlun í vinnubrögðum og hugmyndum, allt snýst um að fylgja þeim reglum og hugmyndum sem hugmyndafræðin leggur á fólk. Til eru nákvæmar lýsingar á umhverfinu, hvað þar á að vera og hvernig það er skipulagt, hvað kennarinn á að gera, hvernig á að byggja upp samskipti við foreldra og umhverfi. Módel sem átti að leiða til skapandi lýðræðisumræðu er orðið að uppskrift að uppeldi. Og ég velti fyrir mér hvort nokkuð ólýðræðislegra sé í raun til. Carlina Rinaldi (2006) segir að ef skóli sé staður þar sem menntun eigi sér stað, þá séu allir staðir innan skólans og allt það fólk sem þar er í hlutverki þess sem menntar. Ef þessu sjónarmiði er beitt á lýðræði má segja, að í skóla þar sem uppeldi til lýðræðis á sér stað, á allt umhverfið og öll reynsla að styðja við lýðræði. Bent hefur verið á að ef uppeldi til lýðræðis á að standa undir nafni, verða börn að finna að þau hafi vald til að taka ákvarðanir sem eru virtar. Börnin verða að hafa tækifæri og vald til að bæði gera og reyna. Fellur þetta ágætlega að hugmyndum Cuffaro (1995) sem hvetur leikskólakennara til að þora að tæpa á og fjalla um óþægileg mál. Hún telur leikskólann verða að viðurkenna áhrifavalda sem og vandamál í lífi barnanna. Í leikskólanum verði að fást við spurningar með börnum sem eru ekki alltaf þægilegar. Spurningar sem snerta meðal annars fátækt, stríð og sjúkdóma. Í slíkum vinnubrögðum sé falin raunveruleg virðing fyrir lýðræðinu og lífi barna.
Hvaða gildi getur grein sem þessi haft fyrir leikskólakennara? Ég held að það sé hollt að líta á starfið í spegli framandi hugmynda, ekki síður en þeirra sem betur eru þekktar. Ég hef oft heyrt starfsfólk leikskóla segja að það vinni í anda Dewey. Kenningar hans séu hafðar sem leiðarljós í starfi. Ég efa ekki að það geti verið að hluta til rétt, sérstaklega það sem snýr að reynslu og tilfinningum. En ég hlýt að taka undir með Dewey að reynsla er mismunandi og þó börnin séu glöð og virðist ánægð í leikskólanum er það ekki ávísun á að reynsla þeirra þar hafi nauðsynlega verið menntandi og hjálpi barninu að vera þátttakandi í því sem er að gerast hér og nú og í framtíðinni. Dewey taldi reynsluna þurfa að uppfylla skilyrði til þess að hún teldist menntandi, hún þyrfti að byggja upp hæfni til að takast á við og vinna úr nýrri og breyttri reynslu í framtíðinni. Hægt er að velta fyrir sé hvort leikskólakennarar séu vissir um að það eigi við um starfið í leikskólanum, jafnvel þó börnin séu ánægð? Er t.d. með sanni hægt að segja að ánægð börn, ánægðir foreldrar séu merki um gæðastarf í leikskólum? Er í raun hægt að styðjast við yfirborðkennda frasa þegar verið er að fjalla um starfið í leikskólanum? Í rannsókn sem ég gerði um hugmyndir leikskólakennara um lýðræði benda sum svörin sem ég fékk til þess að fólk grípi í fyrstu til einfaldra skýringa en þegar dýpra er kafað koma fram þær hugmyndir sem byggt er á hugmyndir sem tengjast t.d. hugmyndum Dewey um lýðræði sterklega (Kristín, 2006b). Ég tel að til að tryggja gott leikskólastarf þurfi leikskólakennara sem eru hugrakkir gagnvart sjálfum sér og eru gagnrýnir í vinnubrögðum. Við þurfum kennara sem eru óhræddir við að spyrja og rökræða um starf sitt og starfshætti.
[1] Og hér er sannarlega átt við einstefnuhlustun – það sem Freire kallaði seinna sparibauksaðferðina. Ekki hlustun ein og átt er við t.d. í lýðræðisumræðu eða samkvæmt hugmyndum í anda Reggio.
[2] Hreyfing kennd við hugmyndafræði Fröbels um leikskóla
Sorry, the comment form is closed at this time.