Að finna sína hillu – reynsla kennaranema
Nýlega fékk ég það skemmtilega hlutverk að lesa yfir dagbækur og verkefni kennaranema við Háskólann á Akureyri. Í þeim fjalla þau um 10 vikna reynslu af heimsóknum í leik- og grunnskóla. Þau lýsa starfsháttum í skólum, samskiptum kennara og barna, hugmyndafræði sem unnið er eftir og svo framvegis.
Frjóir og fjölbreyttir kennsluhættir
Eftir að hafa lesið nokkra tugi slíkra verkefna er ég margs vísari um skólastarf. Ég hef séð dæmi um hugmyndaríka kennara, kennara sem þora að fara ótroðnar slóðir, kennara sem feta hina þekktu braut. Kennara sem eru góðar fyrirmyndir ekki bara barnanna í bekknum eða á deildinni heldur líka kennaranemanna sem hjá þeim eru.
Eftir lestur verkefnanna sé ég að kennarar, t.d. í erlendum tungumálum, nota margir fjölbreytta og frjóa kennsluhætti til að gera efnið áhugavert og skemmtilegt. Þeir leggja mikið upp úr skilningi og því að virkja áhugahvöt nemanna. Meðal dæma er að horfa á Klovn ótextað og ræða svo á eftir það sem þar var til umfjöllunar. Annað sem ég hef líka hrifist af, sérstaklega á mið- og efsta stigi grunnskólans, er hvernig sumir kennarar nýta bekkjarfundi markvisst og meðvitað. Á einum síkum fundi kom fram ósk 9. bekkinga um að fá sjálfir að kenna tiltekið námsefni. Kennarinn skipti bekknum í tvo hópa og fékk þeim efni til umfjöllunar. Hvor hópur um sig sá svo um kennslustund.
Ég hef líka komist að því að aðstæður kennara og barna eru afar ólíkar jafnvel í sama bæjarfélagi og jafnvel innan sama skólans. Í sumum skólum eru börn sem hafa ekki fundið eigin skólahillu og skólinn ekki náð að móta með þeim hillu. Í öðrum sé ég dæmi um skóla sem leggja sig fram um að fagna fjölbreytileika í hópi barnanna, sem gera sitt besta til að móta skólann að þörfum barnahópsins.
Ekki ferkantaður
Einn kennaranemi sagði eitthvað á þá leið að það hafi komið henni þægilega á óvart hvað skólinn var ólíkur minningum hennar úr grunnskóla – þar sem allt var ferkantað. Það kom á óvart hvað börnin og kennarar þeirra voru í góðum og nánum samskiptum, hvað mikill trúnaður ríkti á á milli þeirra. Hvað starfið er skemmtileg.
Aðdáun mín á kennurum á öllum skólastigum hefur ekki minnkað við yfirferðina. Auðvitað hef ég líka séð dæmi um starf og starfshætti sem ég fell ekki fyrir en sem betur fer eru það undantekningar en ekki regla. Nú er margt ungt fólk að velja sér háskólanám. Kennaranám er heildstætt nám sem gagnast í margvíslegum störfum, kennslu sem öðrum störfum.
Grein birt í Fréttablaðinu 31. maí 2013
Sorry, the comment form is closed at this time.