Kristin Dýrfjörð

Þátttökustig Arnstein í leikskólasamhengi

Slide1

Mynd sem tengist stúdentauppreinsinni í París 1968

Árið 1969 setti Sherry Arnstein fram kenningu í stjórnmálafræði um þátttöku og skilgreiningar á henni (Arnstein, 1969). Kenning Arnstein náðu nokkurri útbreiðslu innan stjórnmálafræða og seinna vann Hart upp úr henni módel sem snéri að því að meta þátttöku barna í skólum og frístundastarfi  (þátttökustigi Hart) sem margir kannast við og nota jafnvel í starfi sínu.

þátttökustigi

Þátttökustigi Arnstein (1969)

Arnstein setti upphaflegu kenninguna fram í formi stiga til að meta þátttöku. Honum er skipt í þrjá meginhluta (sjá mynd). Neðst í stiganum er svonefnd þátttaka eða engin þátttaka (gerviþátttaka) sem hefur það að markmiði að fá fólk til að halda að það sé að taka þátt þegar  í raun takmarkið er að þeir sem hafa valdið getið „kennt“ eða „lagað“ fólk.  Á næsta bili í stiganum er  sýndarþátttaka. Dæmi um hana gæti t.d. verið þegar fólk telur sig hafa áhrif, það hafi rödd sem er hlustað er á en þegar upp er staðið er það valdafólkið sem er bara svo snjallt að fá fólk til að halda að það ráði einhverju á meðan það í raun ræður því sem það kærir sig um. Stundum þegar rætt er um samræðustjórnmál dettur mér þetta í hug. Samræðan snýst um að þú fáir tækifæri til að láta rödd/raddir þína hljóma en viðkomandi er kannski bara á fésinu á meðan og hefur engan áhuga á að heyra, hvað þá bregðast við. Eftirá er samt hægt að segja já en við höfðum samráð og allir höfðu tækifæri til að koma sínum sjónarmiðum á framfæri. Efst er svo raunveruleg þátttaka sem felur í sér vald til breytinga.

Stundum þegar ég hugsa um skólastarf velti ég fyrir mér þessum þrepum Arnstein, frá því að við þykjumst vera að gefa börnum vald og rödd en erum í raun að fela vald okkar, til næsta þreps þar sem  börnin eru í sporum hins umhugaða borgara sem gerði sitt til að láta rödd sína hljóma en talaði bara út í tómið, það var enginn að hlusta og til  þess að börn hafi alvöru vald, séu í raun þátttakendur og við samverkamenn þeirra í skólastarfi. Á endanum snýst það hvernig við vinnum með börnunum högum okkur í starfi eftir viðhorf til bernskunnar og til barna. Snýst um trú okkar á raunverulega getu barna til að hafa áhrif, því sem í fræðunum kallast nú gerenda hæfni (e. child agency).

Slide2

Franskur garður

Það hefur löngum verið ríkt í okkur leikskólakennurum að hlutgera barnið, fjalla um það sem veru sem við leikskólafólkið stjórnum með leyndum og ljósum hætti. Sennilega er ekki langt að sækja þessa hugmyndafræði, hugmyndir Rousseau um garðinn og Fröbel um barnið sem plöntu eru af sama meiði. Jafnvel hugmyndir námskrárfræðinga um námskrána og umhverfi skólans sem hins  leynda garðs. (e. Secret garden). Það sem allar þessar hugmyndir um garða, gróðursetningu og ræktun eiga sameiginlegt er að þær byggja á að að það sé til einhverskonar ytri stjórn, það sé einhvern sem kippir í spotta og sé ráðandi. Þessi stjórn og hugmyndafræði birtist í samræðu leikskólakennara sín á milli, í verkefnum nema, á heimasíðum leikskóla, í fréttabréfum og víðar. Algeng dæmi eru, börnin eru látin fara út fyrir eða eftir hádegi, ég lét börnin mála. Ég leyfði börnunum að skrifa. Börnin eiga að fara í samverustund þegar… Ég leyfði börnum að klifra, mála, lita, lesa, pissa…

Slide3Eina birtingarmynd er meira að segja að finna í matarborðum á fjölmörgum leikskólum. Þar eru svonefnd bananaborð, hálfur hringur sem miðjan er skorin út fyrir starfsfólkið. Er það til að að tryggja algjöra stjórn, vera miðjan sem allt snýst um. Víða segjast leikskólar leggja áherslu á samskipti barna í matmálstímum. En borð eins og þessi draga hinsvegar markvisst úr möguleikum barna til samskipta. Draga úr valdi þeirra og tilfinningu fyrir stjórn á eigin umhverfi. ég hef heyrt leikskólakennara lýsa því yfir að sætin við hlið þeirra séu markvisst notuð fyrir þá sem „þurfa“ sérstaka athygli eða stjórn.  Ég held að það sé lítil hætta á að barn verði gerandi við slíkt borð, það er líklegra til að vera þiggjandi.

Slide4Önnur leið til að fjarlægja sig barninu og hlutgera það enn frekar er að fjalla um það í þriðju persónu. Gerandinn fjarlægir sig með því að taka burt ÉG og setja þess í stað BÖRNIN. Með því að fjalla um börn í fleirtölu er jafnframt verið að draga úr því að viðkomandi barn sé persónugert. Til að gefa lesendum hugmynd við hvað er átt eru á myndinni til hliðar handahófskennd dæmi af heimasíðum leikskóla.

Það sem einkennir orðræðuna um börnin í ofangreindum dæmum er að um þau er talað eins og verið sé að ræða hluti, viljalaus verkfæri en ekki lifandi verur.

Það getur tekið tíma að snúa ofan af umræðu sem hlutgerir börn. Til þess þarf bæði að gagnrýna og ígrunda en fyrst og fremst krefst það þess að við viðurkennum, setjum orð á. Fyrir nokkrum árum heimsótti ég leikskóla. Leikskólastjórinn sýndi mér eina deildina og ræddi við mig um hversu gott væri að hafa eftirlit þar inni.

Slide5

Ef starfsmaður væri rétt staðsettur ætti hann mjög gott með að hafa eftirlit með mörgum svæðum samtímis. Hvar líkami viðkomandi er staðsettur í rýminu sendir sterk skilaboð, á þeim bletti sem best var að hafa yfirsýn var líka stakur fullorðinsstóll. Í augum margra merkir rétt staðsettur stóll fyrst og fremst yfirsýn og eftirlit, hann merkir vald. En hann er líka vitnisburður um þátttökuleysi og jafnvel afskiptaleysi starfsfólks í því sem við köllum iðulega frjálsan leik barna.

Það er hægt að velta fyrir sér hvernig og hvort að orðræða sé um fullorðna og börn sem samverkamenn og samrannsakendur á stað sem þessum. Af þessari litlu lýsingu væri hæglega hægt að draga þá ályktun að þar sé það hlutverk hins fullorðna að stýra og hafa eftirlit en ekki að vera sá sem skoðar með börnum og skapar. Hvort svo er í viðkomandi skóla, veit ég ekki. En það er á stundum sem þessari sem ég átta mig á gildi hugmynda Foucault um hið alsjáandi auga sem engu eirir og fylgist með öllu og vitundin um augað fer að stjórna og móta athafnir fólks. Vitundin nægir. Í tengslum við það má velta fyrir sér áhrif þess á börnin að reikna sífellt með eftirlitinu og hvernig þau læra að haga sér samkvæmt því.

Slide6Á það má líka benda að viðkomandi hefur aðeins eftirlit með líkömum barna en hefur litla eða enga hugmynd um samskipti sem byggja á orðum. Leikir barna eru líka leikir að orðum, þar sem veröld þykjustunnar er veröld orðanna. Ég var einu sinni að fylgjast með leik sem fór fram í orðum en líkamar barnanna fylgdu ekki með. Fyrir þann sem horfði á leikinn í gegn um gler sáust börn sem lágu saman á dýnu og spjölluðu saman í rólegheitunum. Fyrir mig sem fékk að vera gestur í hópi barnanna var eitthvað allt annað í gangi.

Til að breyta ásýnd leikskólans frá að vera staður þar sem börn eru þiggjendur og hlutgerð til þess að vera samverkamenn verða leikskólakennarar að íhuga hvað þeir geta gert og verða að rýna í eigin viðhorf.  Sem dæmi geta  leikskólakennara sem íhuga áhrif eigin valds velt fyrir sér spurningum í átt að: Er ég sífellt að grípa fram í fyrir börnunum, klára ég setningar fyrir þau, fá börnin ekki tækifæri til að leita svara sjálf, svara ég jafnóðum og spurning vaknar, viðurkenni ég það sem ég heyri, hvar staðset ég mig líkamlega í rýminu? Hvernig samstarfsfélagi er ég? Gef ég öðrum tækifæri til að vinna með mér? Hvernig tek ég í hugmyndir annarra?

Slide7

Með spurningum sem þessum er hægt að rugga bátnum, mynda ójafnvægið sumir telja nauðsynlegt til að tryggja að námskrá og starf breytist raunverulega. Gagnrýnin ígrundun í kennslu byggjast á að spyrja sífellt, hvernig völd og valdatengsl hafa áhrif í kennslu og námi og að nýta þá þekkingu til þess að umbreyta námsferlinum.

Innan leikskólans er það hluti af því að greina valdatengsl að skoða með gagnrýnum hætti hvernig rætt er um börn og við börn til þess þarf að rýna í umræðuhefðir og hvernig hægt er að breyta þeim. Nátengt þeirri rýni er að skoða hvernig leikskólinn hefur þróast, sem vettvangur.

Ef það viðhorf rennur leikskólakennara í merg og bein að börn eigi að fá að leika sér í „friði“, að fullorðnir eigi ekki að vera skipta sér af eða skemma leikinn, þá er líklegt að starfsfólk endi í eftirlitshlutverki. Verði áhorfendur en ekki með-gerendur (samverkafólk) í daglegu lífi barna í leikskólum. Ef við tölum um börn sem hluti sem við getum ráðstafað eða sem taka við beina frá okkur, verða þau fyrst og fremst þiggjendur í okkar huga ekki raunverulegir þátttakendur í ævintýrinu sem menntun þeirra ætti að vera.

Að lokum við getum skrifað undir alla þá sáttmála sem við viljum, sótt allar ráðstefnur sem við finnum, lesið bækur um ný vinnubrögð en á meðan ekki er vilji til að horfa með gagnrýnum hætti á viðhorf og vinnubrögð og spyrja krefjandi og erfiðra spurninga sem rugga bátnum þá gerist sennilega ekki margt.

 

Heimild:

Arnstein, S. R.  (1969). A Ladder of Citizen Participation. JAIP, 35(4), 216–224.

 

Kristín Dýrfjörð, Dósent við Háskólann á Akureyri

Erindi flutt  sem hluta af pallborði á ráðstefnunni: Nemendur – þátttakendur eða þiggjendur?Ársþingi samtaka um skólaþróun í Mosfellsbæ 8. nóvember 2014

Myndirnar eru skjásýning fyrirlestursins.

Tags: , , , ,

Sorry, the comment form is closed at this time.

Kristín Dýrfjörð er eigandi og ábyrgðarmaður síðunnar