Að þora út í óvissuna (Uppeldisfræðileg skráning)
Kristín Dýrfjörð 2. nóvember 2024
Þegar leikskólakennara gera uppeldisfræðilega skráningu t.d. með myndatöku eins og sýnt er hér, þurfa myndirnar að segja sögu, hafa eitthvað fram að færa. Málið snýst ekki endilega um margar myndir, en vel valdar myndir. Ég ákvað að skoða meðfylgjandi skráningu frá m.a. kenningum um tengslamyndun barna, sérstaklega skoða hugtakið örugg höfn (e. secure base), kenning sem ég tileinkaði mér fyrir rúmum 30 árum í námi. Myndirnar mínar eiga að segja sögu um barnið sem þorir að leggja í könnunarleiðangur, hvernig það byggir upp sjálfstæði sitt í gegn um ferðalagið og er lausnamiðað og skapandi í hugsun.
Tengslakenning (John Bowlby)
- Hugtakið örugg höfn eða (secure Base) á vel við hér. Barnið er að kanna heiminn sinn en veit að það getur alltaf snúið aftur til öryggisins – í þessu tilfelli gæti það verið foreldri eða leikskólakennari sem er nálæg (mynd 1 og 2).
- Að fara af stað út í óvissuna og líta síðan aftur (mynd 3) til að athuga hvort sá sem það treystir sé enn til staðar, er klassísk hegðun hjá barni með örugga tengingu. Þetta sýnir hvernig barnið treystir því að einhver sé til staðar til að veita stuðning ef þess er þörf.
Kannanir og sjálfstæði
- Þegar barnið fer út í óvissuna, þaðan sem það sér ekki endilega fram á næsta skref eða veit hvað bíður þess, er það að æfa mikilvæga færni í þróun sinni: sjálfstæði og lausnaleit. Þegar það stoppar á miðri leið og lítur til baka, (mynd 2) gæti það verið að leita eftir staðfestingu á því að það sé á réttri braut eða einfaldlega að tryggja að öryggið sé enn til staðar. Þessi athöfn, að líta aftur til að staðfesta öryggi, er mjög dæmigerð hegðun sem endurspeglar mikilvægi öruggra tengsla fyrir barn í könnunarleiðangri.
Leiðin áfram og að klára verkefnið
- Það að barnið klárar síðan ferðina eftir að hafa stoppað, sýnir traust og sjálfstraust sem hefur þróast með stuðningi þess umönnunaraðila sem barnið hefur sterka tengingu við. Það gefur einnig til kynna að barnið sé að þróa færni í að taka ákvarðanir sjálfstætt, sem er mikilvægt skref í sjálfstæðismótun. Það gefur til kynna þroskaferli þar sem barnið lærir að treysta bæði á sig sjálft og á aðra.
Sköpun og lausnaleit
- Það að kanna rörið gefur barninu tækifæri til að finna eigin lausnir á „vandamálum“ – hvernig á að komast inn, halda áfram, stoppa og líta til baka, og svo að klára könnunina. Þetta er grunnþáttur í skapandi hugsun og lausnaleit þar sem barn í þessum aldri þarf stöðugt að læra um eigin getu og takmarkanir, bæði líkamlega, andlega og félagslega.
Þessi litla skráning endurspeglar mikilvægi öruggra tengsla í þróun sjálfstæðis, forvitni og lausnaleitar hjá 10 mánaða barninu. Með því að hafa öryggisnetið sitt – í þessu tilviki ömmu og afa sem barnið treystir vel – þorir það að taka skref út í óvissuna, það lærir af reynslunni, og sjálfstraust þess eflist. Barnið lærir að hugsa í lausnum sem er einn lykill sköpunar.
Ath. Það er hægt að finna ýmsar góðar heimildir með því að slá inn lykilorðum eins og tengslakenningar eða örugg höfn. skapandi hugsun, lausnaleit, sjálfstæði og sjálfstraust.
Gopnik A. (2016). The gardener and the carpenter. What the new science of child development tells us about the relationship between parents and children. Farrar, Straus & Giroux.
Macagno, A og Molina, P. (2024). Finding a secure base: Exploring children’s attachment behaviors with professional caregivers during the first months of daycare. Infant Behavior and Development, 74. https://doi.org/10.1016/j.infbeh.2023.101919
Sorry, the comment form is closed at this time.