Kristin Dýrfjörð

Að undrast

Í mín eyru hafa leikskólakennarar í Reggio Emilia sagt frá því að þegar Malaguzzi hitti þá hafi hann haft fyrir venju að spyrja: „Yfir hverju hefur þú undrast í dag?“ Ein leið til að undrast daglega og oft á dag felst einmitt í uppeldisfræðilegri skráningu. Með skráningunni er starfið gert sýnilegt, nám barna og pælingar færast yfir til þeirra sem með þeim starfa. Börn og fullorðnir verða í raun samverkamenn.

IMG_1056

Ég hef átt því láni að fagna að vera bæði leikskólakennari með áhuga á skráningum og amma tveggja dásamlegra einstaklinga. Það hefur verið verkefni mitt síðustu ár að nýta þessa einstæðu tækni sem skráning er til að undrast og fylgjast með þroskaferli þessara tveggja gjörólíku barna. Sem hafa frá fyrsta degi nálgast veröldina og verkefni hennar á mjög mismunandi hátt. Þau rannsaka og flokka umhverfi sitt með ólíkum hætti. Annað brýtur allt niður í bita á meðan hitt horfir heildstæðara yfir. Annað dundar tímunum saman á meðan hitt er meira á ferðinni. Í hvert sinn sem ég er með þessum  einstaklingum, undrast ég og undrast. Að leyfa sér að undrast er val. Ég hef valið mér það viðhorf að undrast í hvert sinn sem ég er með þeim og að horfa á veröldina og verkefni hennar frá þeirra sjónarhorni. Ég bæði vona og trúi að það að skrá samveru okkar og almennt að pæla í skráningu hafi fært mig nær þeim, heimi þeirra og pælingum. Það hefur vonandi líka gert mér kleift að verða betri amma og betri talsmaður barna.

KD júlí 2014

Tags: ,

Sorry, the comment form is closed at this time.

Kristín Dýrfjörð er eigandi og ábyrgðarmaður síðunnar