Af hverju er menntun leikskólakennara minna metin en annarra kennara?
Kristín Dýrfjörð, leikskólakennari og dósent við Háskólann á Akureyri skrifar
Í samfélagi sem leggur mikla áherslu á menntun, nýsköpun og framtíð barna okkar er undarlegt hversu lítil virðing er borin fyrir menntun leikskólakennara. Þrátt fyrir að leikskólakennarar hafi menntun sem byggir á viðamikilli þekkingu á þroska barna og uppeldi, verða þeir oftar en ekki fyrir því að þeirra faglega þekking er véfengd og lítilsvirt. Hún þarf hvorki að vera jafn mikil eða löng og annarra kennara. Það er þreytandi að svara sífellt fyrir kröfur sumra pólitíkusa og fjölmiðlafólks um styttingu námsins.
Kvennaafsláttur og félagslegur bakgrunnur
Það er ekki tilviljun að menntun leikskólakennara og starf með ungum börnum er minna metin en annarra kennara. Þetta má rekja til sögulegra og samfélagslegra þátta sem eiga rætur í kynjaskiptingu vinnumarkaðarins og kvennaafslættinum, sem felst í að fjárhagslegt virði kvennastarfa er kerfisbundið lægra en starfa karla.
Starf með börnum hefur lengi verið tengt kvenleika og talið byggjast á náttúrulegum hæfileikum kvenna til að ala upp börn. Þetta sjónarmið leiðir til þess að mikilvægi menntunar leikskólakennara er talað niður. Þessi alvarlega rangfærsla dregur úr faglegri viðurkenningu starfsins og stuðlar til lengri og skemmri tíma að undirfjármögnun leikskólastigsins og lágum launum.
Hvernig nýfrjálshyggja brýtur niður faglegt frelsi
Annað alvarlegt vandamál sem leikskólinn glímir við í dag er minnkandi faglegt frelsi leikskólakennara. Þegar leikskólakennarar vinna við aðstæður þar sem áætlanir og námskrár eru knúnar áfram af nýfrjálshyggjulegum áherslum á mælanlegan árangur, hagkvæmni, og þekkingu annarra fagstétta, umbreytist leikskólinn og verður fyrst og fremst undirbúningur fyrir næsta skólastig. Þetta dregur úr faglegu sjálfstæði sem er nauðsynlegt til að rækta gæði og dýpt í leik og námi barna.
Faglegt frelsi er ekki bara nauðsynlegt fyrir kennarana sjálfa; það er einnig forsenda þess að börn fái alhliða og skapandi menntun sem styður sjálfstæði þeirra og styrk.
Fagleg ást – kjarninn í leikskólastarfi
Að lokum má nefna mikilvægi þess sem ég hef kallað faglega ást í starfi með börnum. Þetta hugtak vísar til þeirra tengsla, umhyggju og einlægs áhuga sem leikskólakennarar leggja í sitt starf. Þessi ást og umhyggja er hins vegar oft misskilin sem eitthvað sem krefst ekki fagþekkingar – sem aftur réttlætir vanvirðingu fyrir fagstéttinni. Það er grundvallaratriði að skilja að þessi ást er ekki andstæða fagmennsku, heldur ómissandi hluti hennar.
Tími til að virða menntun leikskólakennara
Til að breyta þessari stöðu þarf samfélagið að endurskoða gildi leikskólamenntunar og fagna því að uppeldi ungra barna er krefjandi og mikilvægt starf sem krefst bæði mikillar þekkingar og ástríðu. Leikskólakennarar eru vissulega umönnunaraðilar – umönnun þeirra byggist á faglegri þekkingu, þeir eru fagfólk sem vinnur að því að leggja grunn að framtíð samfélagsins.
Það er þreytandi að hlusta sífellt á að menntun stéttarinnar sé töluð niður. Hættum því og fögnum þeirri staðreynd að sömu menntunarkröfur eru gerðar til allra kennara á Íslandi.
Eldri tengdar færslur
Sorry, the comment form is closed at this time.