Áhrif fjölmiðla á leik barna
Samkvæmt Aðalnámskrá á að tengja starfið í leikskólanum því umhverfi og menningu sem barnið lifir og hrærist í. Þar er lögð áherslan á þá menningu sem hægt er að skilgreina sem fullorðinsmenningu. Menning hefur m.a. verið skilgreind sem þær:
Hugmyndir, gildi, reglur og norm sem við meðtökum frá eldri kynslóðum og við viljum að næst kynslóð meðtaki að einhverju leyti í breyttu formi.
Menning er m.ö.o. það sem viðkomandi lærir, rétt og rangt, fallegt og ljótt, hagnýtt og fánýtt, daglegar athafnir og tilgangur lífsins. Menning sem hefur færst á milli kynslóða, í formi sagna, söngva, ljóða, matargerðar og svo framvegis.
Hérlendis verður okkur tíðrætt um menningararfinn, og oftast erum við þá að ræða um sagnaritun fyrri alda, en menningararfurinn er fleira hann er m.a. summa þeirrar reynslu og innsæis sem í tímans rás birtist í trú, siðum, hefðum, listum, skáldskap, vísindum, tækni og í stofnunum samfélagsins. Menningararfurinn birtist því í ýmsum formi.
Menning barna
Til er sérstök menning sem er tileinkuð börnum henni er hægt að skipta í tvennt annarsvegar menning fyrir börn og hinsvegar menning sem börnin skapa sjálf. menning fyrir börn eru þá bækur, myndir leikrit og ljóð sem hinir fullorðnu semja til fyrir börn með börn í huga. Barnið eða æskan er markhópurinn. Menning sem börnin skapa sjálf berst á milli barna og barnahópa í formi leikja reglna, jafnvel nafngifta. Í leikskólanum sjáum við daglega bæði formin, menningu sem börnin skapa og menningu sem er sköpuð með þau í huga. Má segja að til þess að skilja og skilgreina líf sitt móti börn sína eigin menningu. Þau nota leiki og annað skapandi starf til þess að fá botn í rannsaka fullorðinsveröldina. Hér á eftir ætla ég aðeins að fjalla um þau áhrif sem fjölmiðlar hafa í leikskólanum, áhrifum sem endurspeglast í lífi barna í leikskólanum. Ég ætla að byrja á því að draga upp myndir af atvikum sem ég hef upplifað í leikskólum í áranna rás.
Ég man vel þegar ég byrjaði að vinna í leikskóla og þar var horn í garðinum sem bar það fína nafn Bjölló, en enginn vissi hvernig nafnið hafði í raun komið til, ýmsir voru með getgátur um að þar hefði verið bjalla sem kallaði börnin inn á árum áður, í raun skipti það engu máli, aðalatriðið var að nafnið lifði á meðal barnanna í leikskólanum. Sama má segja um ýmsar reglur sem enginn starfsmaður kannast við, en lifa góðu lífi í barnahópnum. Ný börn eru fljót að læra allan sannleikann um þessar reglur.
Að leika sprengjuflugvélar
Ég var í leikskóla nokkrum að rabba við börn, en áður hafði ég fylgst með þeim í leik og starfi. Ég tók eftir ákveðnum leik sem fólst í því að leika sprengjuflugvél sem kom niður á fólk og drap alla. Vel að merkja þetta var rétt í þann mund sem sprengjuárásum Bandamanna á Serbíu var að ljúka. Leikurinn var allur án leikfanga og fólst í því að nota hendur og kropp. Seinna spurði ég börnin um þennan leik, svona út á hvað hann hefði gengið. Þau horfðu gaumgæfilega á mig og þegar að þau voru búin að ákveða að væri ekki reið svaraði einn drengur mér. „Þetta er leikur með engum reglum“. „Ha“ svaraði ég, „já það er einn sem ræður reglunum og við verðum að gera eins“.
Hvað liggur á bak við slíka leiki og eru þeir algegnir í leikskólanum eða bara í lífinu? Að allir verði að fylgja einum, hversu heimskulegt sem það kann að virðast og jafnvel þó það stríði gegn réttlætiskennd og eigin vilja.
Annað dæmi er að ég var að fylgjast með tveimur 5 ára strákum byggja lest í beygju, þeir byggðu lestina úr stórum einingarkubbum. Það var mikið mál að lestin væri í beygju. Vikuna á undan höfðu orðið tvö alvarleg og mannskæð lestaslys í Evrópu annað þar sem lestin hafði farið út af í beygju. Slys sem mikið var fjallað um í fréttum.
Að grípa inn í leik – vegna þekkingarleysis
Enn annað dæmi er um börn sem voru að leika sér í leik sem fólst í því að setja stóran bóndabæ upp á borð. Á gólfinu í kring lágu síðan öll dýrin og börnin voru á hlaupum um herbergið. Ég spurði í hverju leikurinn væri fólgin (var reyndar næstum búin að segja þeim að taka saman og hætta þessum látum). Jú Kekó var veikur í búrinu sínu (bóndabænum) og gat þess vegna ekki bjargað öllum dýrunum úr sjónum. Þau voru að bíða eftir að hann hresstist.
Fyrir mörgum árum var ég að vinna í leikskóla þar sem einn leikur bar það einkennilega nafn ég er dáið barn í Sarajevó. Þetta var á þeim tíma sem stríð í Evrópu var fáheyrt. Allt í einu vorum við komin með stríðsástand inn á gafl til okkar og frétta flutningur var í samræmi við það. Allt eru þetta dæmi um hvernig fjölmiðlar hafa áhrif á lífið í leikskólanum.
Að fá rými til að túlka upplifun
Börn verða fyrir áhrifum frá umhverfi sínu, í leikskólanum ef þau eru heppin geta þau leikið og túlkað upplifanir sínar. Ég man að þegar að leikurinn um Sarajevó var í leikskólanum mínum voru við svo sem ekkert að skipta okkur af honum, okkur fannst nafnið óhugnanlegt en við gerðum ekkert með það. Þarna misstum við af tækifæri til að hjálpa okkur og börnunum að skilja að einhverju leyti það sem um var að vera. Við misstum tækifæri. Þegar að ég spurði starfsfólkið um leikinn með engum reglum hafði það aldrei heyrt á hann minnst. Samt var hann þarna og lifði góðu lífi í barnahópnum.
Leynd skilaboð
Hér hefur bara verið fengist við fréttir og fréttaflutning, hvað með allar alþjóðlegu teiknimyndirnar og barnaefnið sem er sérhannað fyrir börn og nú á síðari árum hafa bæst við tölvuleikir? Hefur það ekki áhrif? Efni þar sem leynt og ljóst eru lögð inn skilaboð.
Fyrir nokkru síðan var ég að prufa einn þessara alþjóðlegu tölvuleikja, þessi var aðallega ætlaður stelpum, og fjallaði um Barbie. Leikurinn fólst aðallega í því að klæða hana og hanna á hana föt. Einn stór galli var þó á leiknum að hvert skipti sem maður þurfti að skipta á milli borð varð skjárinn svartur í nokkrar sekúndur. Meiri virðing var nú ekki borin fyrir stelpunum og augljóst að framleiðendur telji þær ekki gera miklar kröfur til upplausna og hraða.
Margt barnaefni sem sést í sjónvarpi er framleitt með ákveðin skilaboð og markmið í huga. Ekki fyrir löngu mátti sjá þátt eftir þátt í barnatímanum þar sem dýr voru í útrýmingarhættu, fiskar sem vondir menn fengust við að elta upp um allan sjó, og svo þessi hugrökku sem klipptu á netin. Hérlendis byggja mörg sveitarfélög afkomu sína á fiskiveiðum, þetta er eins helsta tekjulind þjóðarinnar. Börn eiga foreldra sem vinna störf tengd fiskveiðum og verkun. Í þáttunum er mynd varpað upp fyrir börnin, þar sem þessi iðnaður er af hinu illa sem hefur það eitt að markmiði að drepa allt kvikt og engu eira.
Svo er það hin hliðin þar sem lagðir eru inn og byggt undir fordóma. Þar sem góðir menn eru He men og vondir svartstakkar. Þar sem til eru ljósulendur og svörtulendur, þar sem ljósálfar eru góðir og svartálfar vondir.
Eða þeir þættir sem ganga hreint og klárt út á markaðssetningu. Sem dæmi má nefna spice girls og star wars og eins og ég kom að áðan Barbie. Þar sem ásamt myndum, myndböndum er samhliða sett af stað markaðssetning á allavega varning, fatnaði, leikföngum, bókum, tölvuleikjum og ýmsum aukahlutum. Þar sem keyrt er á því að öll börn verði að eiga þessa hluti til að geta verið hamingjusöm. Að það eigi öll börn svona hluti og í því sé hamingja þeirra fólgin. Á þennan hátt erum við gerð ábyrg fyrir neyslunni, við fullorðna fólkið verðum að kaupa þessi gæði fyrir börnin svo að þau séu samkeppnishæf í sínum heimi, í sinni menningu, leikskólanum.
Valdleysi gagnvart aðstæðum
Stundum finnst okkur við standa valdalaus gagnvart þessum bylgjum og við tökum þátt. Sem foreldrar kaupum við þessi leikföng við viljum ekki vera þau sem brjótum niður sjálfsmynd barnsins okkar. Lítið í hvaða barnaherbergi sem er þar er að finna leikföng sem falla undir þá skilgreiningu að vera alþjóðleg. Vera hönnuð með ákveðinn markað í huga.
En hvernig mætum við þessum heimi í leikskólanum. Viðurkennum við hann eða þolum við hann bara. Hvernig birtist þessi heimur í menningu barnanna í leikskólanum, í leikjum, máli og myndum?
Treystum við börnunum til að skilgreina og vinna með reynslu sína og þá leiki sem tengjast þessum fjölþjóðlegu fyrirbærum, eða lokum við þau úti frá heimi leikskólans?
Ég var að tala við nokkra 4ra og 5 ára krakka þegar talið barst af því sem þeim fyndist skemmtilegt. Eitt barnið sagði mér að það væri svo skemmtilegt að horfa á stóru systur og vinkonu hennar ráða því sem gerðist í sjónvarpinu. Ég skildi ekki hvað barnið átti við og spurði nánar, þá sagði einn strákurinn mér að hún ætti við tölvuleiki í sjónvarpinu, þar sem börnin hafa fjarstýringuna í höndunum og sitja fyrir framan sjónvarpið og stjórna. Það væri alveg eins og að horfa á sjónvarp nema maður réði því sjálfur hvað gerðist. Það var ekki fyrir en eftir á að ég hlustaði á skráninguna að ég sá hvaða tækifæri ég hafði misst, hvernig ég gat haldið áfram með þessa pælingu um það að stjórna og hafa vald á aðstæðum. Það skiptir nefnilega börnin ekki síður en okkur máli að finna að þau hafi vald raunverulegt vald og á því sé tekið mark.
Vald barna til að móta eigið líf og upplifanir
Hver er ímynd barnsins, er það hvernig barnið verður sem fullorðinn einstaklingur alveg á okkar valdi, hefur barnið ekki sitthvað um það að segja
Með því að telja barnið hæfileikaríkt, forvitið og getumikið, getum við þá ekki viðurkennt að við stjórnum ekki öllu í lífi þess að það sjálft mótar sér snemma skoðanir, langanir og þrár sem það leitast við að fá fullnægt. Að okkar hlutverk er að búa barnið þeim tólum sem gerir því kleift að velja og hafna á gagnrýnin hátt. Að gera því kleift að skoða það sem liggur undir yfirborðinu.
Mannskilningur og lífsýn
Meðal þess sem er talið hafa áhrif á ímynd okkar af barninu er mann-, félags- og söguskilningur okkar. Því er ekki úr vegi að fjalla lítillega um þessa þætti.
Mannskilningur okkar segir e.t.v. mest til um hvernig uppeldi við veitum eða öllu heldur þá sýn sem við höfum á barnið. Byggir manngildið á mögulegum þroska viðkomandi, eiginleikum, kyni eða stöðu eða hafa allar manneskjur sama manngildi án tillit til alls.
Lítum við á barnið sem óskrifað blað, lítum við svo á að sé óvirkt og leikskólakennarans að móta það, bregst það við utanaðkomandi eða hefur það innri áhugahvöt, er barnið skapandi? Hafa börn frjálsan vilja, geta þau vegið og metið aðstæður og tekið rökréttar ákvarðanir í samræmi við það og borið á þeim ábyrgð? Eða er barninu stýrt af utanaðkomandi öflum og afurð umhverfis og erfða. Þarf barnið á uppeldinu að halda eða er allt sem það þarfnast í genum þess og þroskast af sjálfu sér?
Allir þessir þættir samtvinnast í heimspekilegu viðhorfi okkar Lífskilningur okkar og það hvernig við skynjum veröldina greinir hvernig við upplifum lífið og tilveruna og hefur mikil áhrif á hvernig við skynjum mannveruna.
Lífskilningur mótar viðhorf og vinnuaðferðir sem við aðhyllumst
Heimspekilegt viðhorf er talið hafa forspágildi um hvernig við störfum í leikskólanum á hvað við trúum þar. Þetta viðhorf stjórnar að einhverju leyti því hversu mikið við viljum eða teljum æskilegt að hafa barnið með í áætlanagerð og ákvörðunum um það sem fram fer í leikskólanum. Um það hver má skilgreina hvað í leikskólanum. Heimspekilegt viðhorf hefur líka áhrif á hvernig við skipuleggjum eigin vinnu og þær aðferðir sem við tileinkum okkur og viljum helst beita. Heimspekilegt viðhorf okkar hefur og áhrif á þau gildi sem við leggjum áherslu á og vinnum út frá.
Í leikskólanum hefur lengi verið við lýði sterk sálfræðileg sýn á barnið, þar hefur skipt í tvö horn milli annars vegar sálgreiningasinna og hinsvegar atferlissinna. Mannhyggjustefnan var andsvar við mannskilningi bæði atferlis- og sálgreiningasinna. Þar er litið á manninn sem skynsemisveru sem býr yfir möguleikum til að þroskast. Það er rannsakað hvernig heilbrigðar manneskjur nema og þroskast. Mikilvægt hvöt eða kraftar sem knýja manneskjuna áfram eru forvitni, áhugi, sköpunarþörf, vilji til að láta í ljós skoðanir og ýta eigin verkum í framkvæmd.
Telja má að uppeldisleg skráningar falli vel að þessari hugmyndafræði.
Hugmyndafræði Reggio Emilia
Hvernig mannskilningur er ríkjandi í Reggio Emila, hvar fellur hann undir það litróf sem ég hef verið að fjalla um hér að ofan. Í Reggio trúa menn því að barnið sé hugsandi vera sem geti skilgreint eigið líf, eiginn áhuga. Þar sem hlutverk leikskólakennarans er að skapa og rannsaka umheiminn saman barninu. Í Reggio hafa menn þá samfélagssýn að öll séum við ábyrg fyrir okkar minnsta bróður, að við berum sameiginlega ábyrgð á uppeldi og uppeldisaðstöðu barna. þess vegna skiptir svo miklu máli hvernig búið er að leikskólanum, hvað í hann er lagt.
Hvernig verður menningarauður okkar til?
Samkvæmt kenningum Bourdieu verður mannskilningur okkar, heimspekileg viðhorf og lífsýn til smámsaman. Snar þáttur í því er skólakerfið. Hann telur að þeir sem stjórni í skólum stjórni því líka hvað er talið æskilegt, fagurt og gott þar. Þess vegna telur hann að skólakerfið hafi lengi haft það hlutverk að flokka í sundur fólk, menntun sérstaklega á efri stigum hafi verið fólgin í því að kerfið viðurkennir æskilega eiginleika og sækist eftir slíkum eiginleikum ef þeir eru sambærilegir við það sem fyrir er. Þ.e.a.s. kennarar vilja nemendur sem eru líkir þeim sjálfum, hafa líkar skoðanir og grundvallarviðhorf. Þess vegna eru þeir nemendur sem eru aldir upp í slíku andrúmslofti líklegri til að ná langt innan skólakerfisins og til þess að raða sér í æðstu stöður samfélagsins. Á sama tíma telur Bourdieu að gagnrýnin hugsun bíði hnekki og þ.a.l. rannsóknarumhverfið. Nemendum er ekki ætlað að vera gagnrýnir eða skapandi. Segja má að Reggio skori þessa hugsun á hólm. Þ.e.a.s. áherslan er á að viðurkenna það sem er ólíkt og trúa að það hafi gildi fyrir samfélagið.
Þar er því líka trúað að það hvernig uppeldi barnið fær sé á færi margra, foreldrar, starfsfólk og umhverfi hafa áhrif á barnið, taka sameiginlega þátt í uppeldi þess. Aðrir bera líka ábyrgð svo sem fjölmiðlar. Fjölmiðlar eru valdastofnanir og hafa áhrif á hugmyndir og viðhorf barnanna til ýmissa þátta. Þeir geta byggt undir eða dregið úr trú barnsins á sjálft sig og umhverfi sitt.
Samkvæmt hugmyndafræði Reggio Emila, skapar barnið og skilgreinir á sinn hátt líf sitt og umhverfi. Í því felst að barnið hefur ákveðið vald yfir eigin lífi yfir eigin skilgreiningum. En til að barnið geti gert þetta á gagnrýnin hátt verðum við fullorðna fólkið að viðurkenna líf þess og þá áhrifavalda sem þar eru. Við erum flest sammála um að foreldrar hafa mest áhrif á barnið í frumbernsku, en samkvæmt rannsóknum hafa félagar og vinir mikil áhrif á barnið þegar og jafnvel meiri en foreldrar á ákveðnum aldri, sérstaklega á unglingsárum. Það má því orða það svo að foreldrar og þeir sem koma að uppeldi barna í frumbernsku veiti þeim ákveðið vegnesti út í lífið, til að takast m.a. á við þrýsting frá jafnöldrum og öðru í umhverfinu.
Hverjir eru áhrifavaldar í lífi barna?
Í leikskólanum höfum við ýmsar leiðir til skoða og komast að hvaða áhrifavaldar eru sterkir hverju sinni. Við getum út frá þeirri þekkingu, ákveðið næstu skref í starfinu. Ein þeirra leiða sem geta hjálpað okkur að skilja og afla okkur þekkingar á barninu og hugmyndaheimi þess er skráning. Gunnilla Dahlberg telur að skráning byggi alltaf á vali, okkar vali. Þess vegna má segja það að það sem við ekki kjósum sé líka val, sýni ákveðnar áherslur.
Því má spyrja hvernig höfum við kosið að sjá áhrif fjölmiðla og fjölþjóðlegra fyrirbæra í lífi barnanna, hvernig höfum við tekist á við þann heim sem barnið býr í fyrir utan leikskólann. Erum við seld undir sama hatt og kennarar og stjórnendur franskra skóla, viðurkennum við bara það sem fellur að okkar hugmyndaheimi og þeirri ímynd sem við höfum af barninu.
Uppeldisfræðileg skráning – gangsemi
Uppeldisleg skráning er lífsnauðsynlegur þáttur í ígrundandi og lýðræðislegri uppeldisfræði og vinnubrögðum, en hún er líka mikilvæg vegna annars. Hún leikur eitt aðalhlutverkið í því að byggja merkingu í starfið. Í stað þess að reiða sig á staðla um hvað eru gæði, skiptir umræðan um hvað gæði eru meira máli. Í gegn um skráningu getum við ákveðið hvað rætt er og við berum jafnframt ábyrgð á umræðunni og það erum við sem stjórnum því hvert hún leiðir okkur.
Skráningin er líka stuðningur við lýðræðið í leikskólanum á þann hátt að í gegn um umræðuna (um skráningu og hvert hún á að leiða) erum við í sífellum samningaviðræðum og þurfum að rökstyðja vinnubrögð og leiðir. Þegar rætt erum skráningar, þarf viðkomandi að sjá sjónarhorn annarra, skýra sitt eigið og vera fær um að rökræða starfið. Umræðan er opin sem í leiðinni opnar og gerir starfið í leikskólanum sýnilegt fyrir aðra.
___________________________________
Þetta er fyrirlestur sem ég flutti á alþjóðlegri Reggio ráðstefnu á Akureyri sumarið 2000. Fann hann í tiltekt í tölvunni minni og held að ég hafi aldrei birt hann á prenti. Seinna sumarið 2000 breyttist líf mitt og þessi fyrirlestur varð í raun algjört aukaatriði. Hann stendur þó að mörgu leyti enn fyrir sínu. Þessi vefur er laupurinn minn, staður þar sem ég safna ýmsu eftir mig og mér fannst passa ágætlega að setja fyrirlesturinn hér.
KD
Sorry, the comment form is closed at this time.