Kristin Dýrfjörð

Barnamenning

Á síðari árum hafa fræðimenn fjallað um að börn séu afmarkaður hópur með eigin menningu, hér nefnd barnamenning. Meðal þeirra sem hafa fjallað um uppruna barnamenningar er Winnicott (1982) sem telur að hún verði til á svæði þar sem barnið annarsvegar og umhverfið hinsvegar mætast. Á þessu svæði myndast spenna sem er uppruni menningar og leikja barna. Bergström (1997) hefur leitt líkur að því að kjarni allrar menningar sé kaos og er kaosi Bergström hér sambærilegt spennunni hjá Winnicott. Kaos leiðir af sér leiki sem eru uppspretta sköpunar og frá því rekur Bergström sig til þess sem stundum er nefnt æðri menning eða listir. Þannig er hann sannfærður um að ef vilji er til að einstaklingar séu skapandi og menntaðir verði að leyfa óvissuþættinum að vera til staðar.

Flokkun barnamenningar

Barnamenningu er stundum skipt gróflega í þrjá flokka. Í fyrri tveimur flokkunum er hægt að segja að það sé hinn fullorðni sem leiki aðalhlutverkið, en í síðasta flokknum er það barnið og barnahópurinn (Gunnestad, 1993). En lítum nánar á einkenni hvers flokks fyrir sig:

Til fyrsta flokksins heyrir menning sem búin er til með börn í huga. Hægt er að nefna til leikrit, ljóð, bækur og fjölmargt annað sem hinn fullorðni skapar.

Í öðrum flokki er menning sem hinn fullorðni skapar með barninu og er þar átt við ýmiskonar skapandi starf sem börn og fullorðnir vinna að saman.

Til þriðja flokksins heyrir menning sem börnin skapa sjálf. Það sem einkennir þriðja flokkinn eru reglur og leikir sem jafnvel ferðast á milli kynslóða barna án tilstuðlunar hinna fullorðnu. Fullorðnir stjórna ekki því sem er að gerast og hafa ekki áhrif á. Þetta er menningin sem verður til á svæðinu milli barnsins sem einstaklings og umhverfis þess (Att erövra värden, 1997). Telja má að hugmyndir t.d. Graue og Walsh um eigin heim barnsins fari ágætlega saman við hugmyndir manna um seinni flokk barnamenningar.

Barnamenningin er talin skipta máli varðandi félagsmótun barnsins og þess hvernig því gengur til dæmis að vinna með öðrum. (Att erövra värden, 1997; Gunnestad, 1993). Ýmsir hafa haft áhyggjur af afdrifum eigin menningar barnanna með sífellt meiri stofnanavæðingu. Sérstaklega eiga þessar áhyggjur við hjá þeim sem hafa viljað skilgreina barnamenningu þröngt. Gullestad (í Gunnestad, 1993) telur varhugavert að líta bara á afurðir eigin menningar barnanna svo sem rímur, reglur og leiki. Hún telur að barnamenning sé samofin öðru í leikskólanum, ofin inn í daglegt starf og leiki barna. Hún álítur að þegar rannsakendur beri því við að barnamenning sé í hættu geri þeir sér ekki grein fyrir hinu nýja birtingaformi hennar, en það breytist auðvitað samfara breytingum á æsku og aðstæðum barna. Er þetta sjónarhorn í samræmi við hugmyndir Dewey um að á hverjum tíma í öllum hópum myndist sjálfstætt menningarmynstur. Það er þetta mynstur sem er svo mikilvægt að koma auga á.

Að skynja og skilja þá menningu sem ríkir í barnahópnum á hverjum tíma færir leikskólakennara nær því að skilja börn og, það færir þeim örðuvísi innsýn í líf barna í leikskólum. Meðal þess sem valdið hefur áhyggjum um afdrif barnamenningarinnar er mikið skipulag í leikskólanum og eftirfarandi spurningar leita á hugann. Þegar starfið er farið að ganga fyrst og fremst eftir klukkunni og skipulaginu, er þá rými fyrir börn til að skapa eigin reglur og eigin leiki? Ef starfið er meira og minna stýrt hópastarf, fá börnin þá tækifæri og rými til að skapa sína eigin menningu? Skipulag og námskrá ættu því að vera nokkrar heimildir um sýnileika barnamenningar og. Þótt hér sé aðallega átt við eigin menningu barnanna, gefur það auðvitað vísbendingu um hugsunarhátt og viðhorf til bernskunnar og barna í leikskólanum að skoða líka tvo fyrstu flokka barnamenningar eins og hún hefur verið skilgreind hér að ofan.

Að lokum nýleg rannsókn Öksnes (2010) í Noregi gefur til kynna að börnin finni sinni menningu stað, jafnvel í mjög skipulögðum leikskólum þar sem haukfrán augu starfsfólks virðast vaka yfir hverju fótmáli þeirra. Börnin finna tíma og rými til að leika eins og þau vilja leika.

Barnamenningarhátíð

Í Reykjavík stendur fyrir dyrum barnamenningarhátíð (apríl 2012) og er sérstaklega ánægjulegt að hún er tengd einum elsta hátíðardegi okkar Íslendinga og á sama tíma þeim degi sem lengst af hefur verið tileinkaður börnum, Sumardeginum fyrsta. Á meðal leikskólakennara heyrist að barnamenningarhátíðin spegli of mikið fyrsta flokkinn hér að ofan,menningu fyrir börn,að einhverju leyti flokk tvö og alla vega fyrir þann aldur sem er í  leikskólanum þá sé flokkur þrjú minnst sýnilegur. Sjálfsagt er að hugsa að hátíð sem þessi byggi á jafnvægi á milli allra flokka.

(Unnið upp úr kafla í MA ritgerð minni frá 2003).

Tags: , ,

Sorry, the comment form is closed at this time.

Kristín Dýrfjörð er eigandi og ábyrgðarmaður síðunnar