Ef þú vilt drepa frumkvæði, verðlaunaðu það. Getur verið neikvætt að hrósa/verðlauna börn?
Sumarið 2000 var haldin hér á landi merkileg ráðstefna um Öfga öfganna,um áhrif flóða á umhverfið, einn fyrirlesarinn var prófessor Victor R. Baker frá Arizona í Bandaríkjunum en hann ræddi um flóð á plánetunni Mars. Með honum í för var kona hans Pauline Baker sem þá hafði nýlega sigrast á krabba og var ferðin hingað hennar eigin verðlaun. Pauline er áhugamanneskja um leikskólauppeldi í anda Reggio Emilia. Og einmitt í gegn um slík alþjóðleg tengsl hafði hún upp á mér. Dagana sem flóð og afleiðingar þeirra á heiminn voru rædd á Grand hótel, fórum við víða, skoðuðum leikskóla, landið og borgina. Við ræddum auðvitað mikið um leikskólamál. Þegar við kvöddumst sagðist hún ætla að senda mér bók sem ég hefði örugglega áhuga á. Bókina fékk ég svo skömmu seinna. Af öðrum ástæðum fór líf mitt á haus seinna þetta sumar og ég hafði ekki samband til baka og missti tengslin við Pauline.
Bókin sem ég fékk, heitir því skemmtilega nafni Punished by reward eða Refsað með verðlaunum og er eftir Alfie nokkurn Kohn. Hann kemst að þeirri niðurstöðu að til lengri tíma litið sé sú uppeldisfræði sem byggist á arfleið Skinner hættuleg fyrir börn og þ.a.l. samfélagið. Hann styður niðurstöður sínar með ýmsum rannsóknum sem gerðar hafa verið síðastliðna áratugi. Í tímaritinu Young Children, (sem margir leikskólakennara þekkja vel) september, 2001 er grein eftir hann um fimm ástæður þess að hætta að hrósa börnum í tíma og ótíma fyrir vel unnin verk.
Ég ákvað í tilefni Páska að draga fram þessar fimm ástæður og hvað hann telur að geti komið þeirra í stað. En áhugasömum vísa ég annars á heimasíðu Kohn.
DULIN STJÓRN. Segjum sem svo að þú notir orð til að styrkja eða verðlauna hegðun hjá tveggja ára barni sem borðar matinn sinn án þess að káma allt út, eða fimm ára barni sem tekur litina sína saman eftir notkun. Kohn spyr hver hagnast á hrósinu? Hann veltir fyrr sér hvort það hafi minna með tilfinningarlegar þarfir barna að gera en meira með okkar eigin þægindi. Hann vísar til Rhetu DeVries sem margir leikskólakennarar þekkja frá námsárum sínum, en hún nefnir þessa tegund stjórnunar “sykurhjúpaða stjórnun” (sugar-coated control). Þar sem málið snýst um að við gerum eitthvað við börn til að fá þau til að fara að óskum okkar. En hún bendir á muninn á að gera við og gera með. Sem dæmi að ræða við börn um áhrif þess á aðra að ganga ekki frá eftir sig eða ræða um hvaða áhrif hegðun þeirra hefur á aðra. Að nota í sífellu GOD JOB eða FLOTTUR getur auðveldað líf okkar fullorðna fólksins í skamman tíma en til lengri tíma er afleiðingin fíkn barna í hrós.
Þá kemur að ástæðu númer 2, að við sköpum HRÓS FÍKLA. Því meira sem við hrósum börnum fyrir allt og ekkert því meira fara þau að treysta á dómgreind og ákvarðanir okkar um hvað er gott eða slæmt. Viðmið þeirra verða hvort þau fá hrós eða bros frá okkur ekki þeirra eigin gleði yfir vel unnu verki. Kohn bendir á rannsókn Rowe sem komst að því að börn sem biðu eftir styrkingu hróssins voru líklegri til að gefa eftir eigin hugmynd og svar, þau svöruðu líka gjarnan í spurnartón. Dæmi: kennari spyr hvað eru 5 + 5, barnið svarar í spurnartón 10. Önnur afleiðing er að þau voru líka ólíklegri til að halda áfram við erfið verkefni og að deila hugmyndum með öðrum. Kohn kemst að þeirri niðurstöðu að FLOTT – FLOTTUR geti leitt börn inn í vítahring sem erfitt er að komast út úr. Vítahring þess að treysta sífellt á hrós og viðurkenningu annarra. Hann spyr; viljum börnum okkar þá framtíð að geta aldrei treyst á eigið sjálf, heldur á hrós og viðurkenningu annarra?
AÐ RÆNA BÖRN ÁNÆGJU. Börn eiga skilið að upplifa ánægju þess að hafa tekist vel til. Að finna til stolts yfir eigin afrekum. Börn eiga rétt til að ákveða hvenær þau finna til stolts. Með því að vera síflett að hrósa þeim fyrir allt, með sífellt að klifa á flott, flottur, vel að verki staðið erum við í leiðinni að segja börnum hvernig þeim á að líða. Kohn bendir á að það sé enginn að halda því fram að hrós sé ekki viðeigandi stundum. Auðvitað er það notað sem leið í uppeldi, en stöðugur straumur hrósyrða, og gildisdóma um verk barnanna, er hvorki nauðsynlegt né börnum notadrjúgt. Sjálfur segist hann gleðjast og geyma með sér andartök þegar dóttir hans gerir eitthvað í fyrsta sinn eða gerir eitthvað alveg sérstaklega vel. En hann segist reyna að halda aftur af sér með að hrósa henni, vegna þess að hann vill að þau eigi þessa ánægju saman en ekki að hún líti til hans og bíði eftir úrskurði um vel eða illa unnið verk. Hann segist vilja heyra, ég gat það, ég gerði það, í stað þess að heyra: Var þetta flott hjá mér?
MISSA ÁHUGANN. Sífelldar setningar eins og FLOTT VERK getur stuðlað að því að börn haldi áfram að mála (eða hvað annað) eins lengi og hrósið kemur. Hann bendir á annan leikskólasérfræðing sem við leikskólakennarar þekkjum vel Lilian Katz en hún segir að um leið og athygli kennarans fer af verkinu (hrósið stoppi), geti þessi aðferðafræði leitt til að það líði langur tími þar til að börn taki upp viðkomandi verkefni aftur. Málið verði ekki að teikna, lesa eða hugsa, heldur að fá verðlaunin, hvort sem þau eru hrós, ís eða límmiði. Kohn segir að rannsóknir hafi leitt í ljós að því meira sem fólki er hrósað því líklegra sé það til að missa áhugann á verkinu. Hann vísar í rannsókn Grusec um börn sem fengu iðulega hrós fyrir örlæti, þau höfðu tilhneigingu til að sýna minna örlæti í daglega lífinu en börn sem ekki var hrósað. Þannig að örlæt var ekki eitthvað sem skipti máli í sjálfu sér, heldur eitthvað sem þú fékkst verðlaun fyrir frá fullorðnum.
DRAGA ÚR ÁRANGRI. Ekki nóg með að VEL GERT, flottur geti dregið úr sjálfstæði barna, heldur sýna rannsóknir að börnum sem er hrósað fyrir skapandi starf, séu líkleg til að eiga erfitt með næsta verkefni og þau nái ekki sama árangri og börn sem ekki er hrósað.
Kohn veltir fyrir sér hversvegna þetta gerist. Að hluta telur hann það vera vegna þess að pressan við að halda í fyrri árangur stendur í veginum. Að hluta vegna þess að þessi börn eru ólíklegri til að þora að taka áhættu (sem er í raun forsenda sköpunar). En almennara vegna þess að “Flott, vel gert” smættar alla mannalega hegðun í það sem hægt er að mæla og sjá. Þá er horft framhjá, hugsunum, tilfinningum og gildum sem að baki liggja. Og verst að öllu afleiðingin er að börn fara á endalausar veiðar eftir hrósi.
Kohn mælir almennt með meiri og lýðræðislegri hugsunargangi og vinnubrögðum í skólum. Þar sem hlustað er á börn og á þeim tekið mark. Hann biður fólk líka að hugsa um þrjár aðferðir til að svara börnum þegar þau gera eitthvað sem við, hin fullorðnu, erum stolt af.
Segðu ekkert.
Orðaðu það sem þú sást/upplifðir. “Þú settir skóna sjálf í hilluna”, “þú tókst til eftir þig, þér tókst það”. Með þessu sýnir þú barni að þú hafir tekið eftir því. Þú getur líka í stað þess að segja “fín eða flott teikning” sagt, “þetta er nú stór dreki”. Þegar þú vilt hrósa fyrir örlæti, er hægt að draga athygli að líðan þess sem verður fyrir örlætinu, “sjáðu hvað amma varð glöð þegar þú gafst henni teikninguna þína”.
Enn betra en orðun er spurning. “Hvað líkar þér best við teikninguna þína?”, “hvað var erfiðast að teikna?”, “hvernig fattaðirðu hvað allt átti að vera stórt?”, „hvað viltu segja mér um teikninguna þína?“
Að lokum, Pauline Baker sá ég svo ekki aftur fyrr en ég heimsótti leikskóla í Stokkhólmi með alþjóðlega Reggio netinu síðasta sumar. Þegar við komum í einn leikskólann sátu þau hjón og biðu hópsins. Þau höfðu þá hitt Gunnillu Dahlberg í Helsinki þar sem þau gistu öll í gistiheimili sem háskólinn í Helsinki á, en Victor hafði verið með erindi þar. Gunilla bauð þeim yfir og að taka þátt í hluta af dagskránni. Þetta varð skemmtilegur endurfundur. Já heimurinn er lítill.
* Fyrirsögnin „Ef þú vilt drepa frumkvæði, verðlaunaðu það“ er frá Kohn komin. Birtist fyrst á blogginu mínu 20 apríl 2008.
Sorry, the comment form is closed at this time.