Er leikskólinn sólkerfi, reikistjarna eða tungl? Eftirnýlenduvæðing leikskólahugmyndafræðinnar
Eftirnýlenduvæðing hugarfars er viðfangsefni sem fleiri og fleiri hafa velt upp. Eftirnýlenduvæðing felur í sér að tiltekinn hugarheimur smitar eða tekur yfir annan. Þetta getur gerst smám saman og sá sem fyrir verður er ekki endilega meðvitaður um það sem er að gerast. Má sem dæmi benda á uppgang nýfrjálshyggjunar og skilgetins afkvæmis hennar, markaðshyggjunnar hérlendis (Páll Skúlason, 2008). Hin síðari ár hafa kenningar um eftirnýlenduvæðingu verið notaðar þegar áhrif hugmyndafræði eins og nýfrjálshyggjunnar eru skoðuð. Með eftirnýlenduhyggju er vísað til þess tíma í sögunni þegar sum ríki voru nýlendur annarra. Komið var fram við íbúa nýlendanna eins og óvita og sem leiddi að hluta til þess að sjálfsmynd þeirra mótaðist af viðhorfi herraríkisins. Ríki eru fæst í dag nýlendur annarra, en í stað þess eru uppi hugmyndafræðilegar lendur. Með hugmyndafræðilegum lendum er átt við að tiltekin hugmyndafræði nær þeirri stöðu að verða ráðandi, hún setur þá sem fyrir eru út á jaðarinn og verður hin nýja miðja (Canella og Viruru, 2004; Viruru, 2005). Viruru (2005) bendir sérstaklega á mikilvægi þess að beita eftirnýlenduhugmyndum í rannsóknum innan leikskólafræða meðfram öðrum aðferðum. Eftirnýlenduhugmyndir gera rannsakendum mögulegt að greina hvernig hugmyndir og aðferðir hafa smeygt sér inn og náð ráðandi stöðu.
Ég er í þeirri stöðu að hafa verið þátttakandi á sviði leikskólans í yfir aldarfjórðung. Ég hef átt sæti í ýmsum nefndum og ráðum Félags leikskólakennara, komið að því að semja síðustu tvær námskrár, átt þátt í að móta og skrifa fyrstu leikskólastefnu Félags leikskólakennara og svo mætti lengi telja. Því er ómögulegt fyrir mig að aðskilja persónu mína greininni – um sumt er ég hreinlega heimildarmaður. Þess vegna vel ég, þegar ég skrifa um eigin reynslu og viðhorf, að gera það í fyrstu persónu. Ég vel að fara á milli starfsheitanna fóstra og leikskólakennari eftir því hvort starfsheitið var í gildi á þeim tíma sem ég skrifa um.
Hvað er svarthol?
Í greininni verður leitast við að skilja hvernig einn hugmyndaheimur hefur áhrif, bæði meðvitað og ómeðvitað, á annan. Hvernig það að staðla hugtakaskilning getur leitt til hugmyndafræðilegrar og jafnvel verklegrar fátæktar. Innan stjörnufræðinnar er til fyrirbæri sem nefnist svarthol. Svarthol er skilgreint:
Stjarna sem fellur saman undan eigin massa. Kjarninn fellur saman þangað til hann er orðinn geysilega þéttur og allur massinn er saman kominn á örlitlu svæði. Umhverfis það er þyngdarsviðið svo sterkt að ekkert sleppur í burtu, ekki einu sinni ljós (Tryggvi Þorgeirsson og Þorsteinn Vilhjálmsson, 2000).
Galdur svartholsins liggur því í geipimiklu þyngdarsviði, það er eins og ofursegull sem gleypir allt sem kemst í tæri við hann. Mín tilgáta er að hugmyndafræði og vinnubrögð grunnskólans sé eins og slíkur ofursegull sem dregur þá sem nærri eru inn í þyngdarsvið sitt. Leikskólafræðin eru til þess að gera nýleg fræði þó þau byggi á gömlum merg. Í samfélaginu hefur grunnskólinn löngum notið meiri virðingar og skilnings en leikskólinn, notið samfélagsviðurkenningar sem leikskólakennurum hefur þótt eftirsóknarverð. Með því að rekja sögu og baráttu leikskólakennara er ætlunin að gera tilraun til að svara hvort leikskólinn sé í hættu að sogast inn í svarthol, verði í framtíðinni fylgitungl, eða hvort hann sé í raun sjálfstæð pláneta í sólkerfi skólasamfélagsins.
Undanfarnar vikur og mánuði hefur átt sér stað mikil og um margt gagnleg umræða um málefni leikskólans. Á nokkrum árum hefur landslag hans breyst. Skipulag og sérhæfing hefur aukist og ein birtingarmyndin er orðræða leikskólans. Sem dæmi hefur „frjáls“ leikur vikið að hluta fyrir skipulögðum stundum, örlað hefur á hugtakinu kennslufræðilegur leikur, barnaheimilin orðið leikskólar og svo skólar, í stað þess að ræða um börn er rætt um nemendur og dagskipulag jafnvel að stundaskrám. Starfsheitið breyttist, fóstrur urðu að leikskólakennurum sem síðar hefur styst í kennara og svo framvegis. Er eitthvað að þeirri mynd sem hér er dregin upp? Er hún ekki ósköp eðlileg og í takt við hugmyndir fólks um leikskólann sem fyrsta skólastigið? Er þetta ekki rökrétt framhald þess að menntun leik- og grunnskólakennara eru að hluta sama menntunin og stéttarfélagið hið sama? Auðvitað er hægt að velta því fyrir sér hvort hér sé um raunverulega eftirnýlenduhyggju að ræða, eða hvort að áhrifin séu „eðlileg þróun“ skólastarfs. Til að geta greint þar á milli tel ég mikilvægt að leikskólafólk rýni í söguna, athafnir og áhrif þeirra á leikskólastarfið, og velji til þess leikskólapólitískt sjónarhorn.
Málið mótar starfið
Innan leikskólafræðanna hefur fólk verið upptekið af mótun starfsins í gegnum málið. Það var ekki að ástæðulausu að leikskólakennarar lögðust eftir því að fá bæði starfsheiti sínu og samnefnara fyrir vinnustaðinn breytt. Þegar menntun leikskólakennara hófst hér 1946 varð fóstruheitið fyrir valinu, en það hafði áður verið notað um þær stúlkur sem unnu við smábarnauppeldi. Fóstruheitið varð ofan á þrátt fyrir að Valborg Sigurðardóttir (1998) hafi óbeint lagt til að starfsheitið leikskólakennari væri tekið upp. Þegar saga Fósturskóla Íslands er lesin má oft sjá rætt um „fagmenntaðar“ fóstrur, sem gefur til kynna þau vandamál sem fólust í að nota fóstruheitið, enda heitið eldra í málinu en menntunin. Steingrímur Arason skrifar t.d 1948 um nauðsyn þess að mennta fóstrur til þess að þær héldust við í starfi, „þegar búið var að gera stúlkurnar að fyrirmyndafóstrum, hurfu þær oftast frá starfinu“ (í Davíð Ólafsson, 2000, bls. 20). Kannski að upprunalega ástæða þess að fóstruheitið varð fyrir valinu hafi verið tilvísun til fornra texta. Það að senda börn í fóstur eða að börn voru fóstruð annars staðar en heima var alþekkt. Fóstruheitið minnti líka á það að hlutverkið væri að vera staðgengill móður en slík viðhorf hafa löngum fylgt starfinu. Dæmi um það er viðtal við nokkra nýútskrifaðar fóstrur í Morgunblaðinu 1967. Þar segir ein þeirra að „að starf fóstrunnar sé að vera sem móðir fyrir börnin — koma þeim í móðurstað, þegar móðirin er víðsfjarri“ („Að vera börnunum sem móðir“, 1967). Fóstrustarfsheitið hafði því beina tilvísun til hefðbundins kynhlutverks. Þegar Fósturfélag Íslands varð 40 ára fékk það gjöf frá þáverandi menntamálaráðherra, Svavari Gestssyni; styttuna Ung móðir eftir Einar Jónsson – en hún er af konu að gefa barni brjóst. Stytta, sem er í raun táknmynd þess sem fóstrur töldu sig ekki vera, og ímynd sem þær vildu fjarlægjast. Styttan er fulltrúi þeirrar rómantísku sýnar sem löngum hefur fylgt uppeldi ungra barna, að þau séu varnarlaus og það sé hinna fullorðnu að bæði verja þau og samtímis að móta þau. Þannig nærir fóstran barnið samtímis því að skapa rétt umhverfi og skilyrði sem leiði til þess að barnið þroskist. Hér er byggt á hugmyndum frá bæði Rousseu og Fröbel. Báðir notuðu þeir garða sem líkingamál þegar þeir ræddu um uppeldi barna. Að fóstrur yrki börn varð lífseigt viðhorf – ekki bara á Íslandi, heldur víðar um hinn vestræna heim. Það þarf ekki annað en að líta til þeirra hugtaka sem notuð eru um leikskóla, kindergarten, börnehave. Meira að segja var hérlendis rætt um barnagarða, svo dæmi séu nefnd. John Dewey er á meðal hinna fyrstu til að gagnrýna líkingamálið. Hann innleiddi hugtakið preschool, eða forskóli. Þess ber þó að geta að jafnframt því sem hann vildi breyta menntun ungra barna vildi hann líka gjörbylta skólakerfinu. Þannig að forskóli hans átti ekki að verða forskólun eða beinn undirbúningur fyrir hinn hefðbundna grunnskóla. Hann hafði ekki mikla trú á skólum sem ekki tækju breytingum og sem ekki væri í tengslum við veruleikann utan skólans. Að hans mati á skóli að vera hluti af samfélaginu og endurspegla það besta á hverjum tíma. Því miður þróaði hann grunnskólahugmyndir sínar ekki eins vel og leikskólahugmyndirnar, en hugmyndafræði hans hefur þó haft gríðarleg áhrif á hugmyndir manna um lýðræðislega skóla sem byggja á því að virkja hugsun og reynslu barna og ungmenna.
Með hugtakinu forskóli og forskólakennari var sleginn nýr strengur í hugtakaflóru þeirra sem sinntu menntun yngstu borgaranna. Á Íslandi greiddu fóstrur t.d. atkvæði um hvort þær ættu að taka upp hugtakið forskólakennari. Því var hafnað oftar en einu sinni. Það var ekki fyrr en með lögum um leikskóla árið 1991, þegar forstöðumenn fengu starfsheitið leikskólastjóri og stofnanirnar fengu starfsheitið leikskólar, að fóstrur samþykktu nýtt starfsheiti, leikskólakennari, en það gerðu þær með atkvæðagreiðslu 1994 (Davíð Ólafsson, 2000).
Hins vegar hefur lengi verið ljóst að þrátt fyrir að hafna forskólakennaraheitinu hafa fóstrur litið á sig sem kennarastétt. Til dæmis sóttust þær eftir að verða aðilar að Kennarasambandi Íslands við stofnun þess 1977 en var hafnað vegna mótmæla Sambands íslenskra barnakennara (Davíð Ólafsson, 2000). Á Norðurlöndunum var hugtakið forskólakennari víða notað og hafði það sín áhrif hér. Svo dæmi sé tekið þá var nefndin, sem vann að frumvarpi til laga um leikskóla, nefnd forskólanefnd og átti samkvæmt því sem fram kom í ræðu þáverandi menntamálaráðherra Svavars Gestssonar; „að skapa ramma um nýtt skólastig, forskólastig, fyrir börn undir skólaskyldualdri“ (Svavar Gestsson, 1990-1991). Leikskólakennarar í nefnd menntamálaráðuneytisins um frumvarpið börðust fyrir samheitinu leikskóli, með tilvísun til þess að þar færi fram menntun í gegnum leik og varð það ofan á (Svandís Skúladóttir, 2010).
Af ofangreindu má vera ljóst að leikskólakennarar hafa lengi velt fyrir sér hugtökum og áhrifum þeirra. Fyrst eftir að leikskólakennarar lögðu niður fóstruheitið og tóku upp leikskólakennaraheitið héldu fjölmiðlafólk og almenningur iðulega áfram að tala um fóstrur í opinberri umræðu. Margir leikskólakennarar notuðu hvert tækifæri til að gera athugsemdir við slíkt, og fékk stéttin gjarnan að heyra að hún væri ofurviðkvæm – þetta skipti ekki máli. Sama má að hluta til segja um leikskólaheitið, þrátt fyrir að „dagheimilistalið“ hafi ekki verið jafn lífseigt og hugtakið fóstra. Það hversu hart leikskólakennarar börðust fyrir breytingu á starfsheiti og heiti stofnana bendir til þess að þeir hafi vel gert sér grein fyrir áhrifum þess á ímynd og viðhorf til viðkomandi stofnana í samfélaginu.
Amma dreki
Fóstrur voru sannfærðar um að með breyttri hugtakanotkun og hugsun hjá þeim sjálfum tækist að sveigja hugmyndir fólks frá því annarsvegar að álíta fóstrur einhvers konar staðgengla mæðra yfir til þess að vera kennarar. Hinsvegar frá því að líta á leikskólana sem heimili að heiman, til þess að vera staður sem menntun á sér stað. Í tengslum við stofnun stéttarfélags fóstra leiddi nýkjörinn formaður þess, Selma Dóra Þorsteinsdóttir, fundarherferð um landið sem bar heitið Amma dreki veturinn 1990 -1991. Amma dreki er tilvísun til bókar Guðrúnar Helgadóttur um Jón Odd og Jón Bjarna, en amman í bókinni talar einmitt fyrir menntun kvenna, sjálfstæði þeirra og fagmennsku. Amma dreka herferðin byggðist á því að styrkja fagmennsku og ímynd fóstrustéttarinnar. Markmið herferðarinnar var: „Að efla stéttarímynd hverrar einustu fóstru og að fá fóstrur til að gera sér grein fyrir ábyrgð sinni í þjóðfélaginu“ (Unnur Jónsdóttir, 1990 bls, 15). Til að stéttin öðlist virðingu yrðu fóstrur að bera virðingu fyrir sér og temja sér ýmislegt sem einkenndi fagstéttir. Meðal þess eru siðareglur (sem hún setti sér fljótlega eftir stofnun stéttarfélagins, eða árið 1993), og það að starf fóstru væri hennar aðalstarf og að hver fóstra yrði að vera skuldbundin starfi sínu og stétt. Í kjölfarið sköpuðust miklar umræður. Þær fóstrur sem störfuðu hálfan daginn fannst t.d. að sér vegið og töldu sig ekki minni fagmenn en hinar.
Uppeldisáætlun eða aðalnámskrá
Árið 1985 setti menntamálaráðuneytið leikskólum sína fyrstu námskrá, Uppeldisáætlun fyrir leikskóla. Áætluninni var ætlað að vera leiðarvísir um starfshætti og áherslur leikskólans. Árið 1997 ákvað menntamálaráðuneytið að láta endurskoða gildandi uppeldisáætlun. Ég var ein þeirra sem ráðin var til þess. Meðal þeirra nýjunga sem lagðar voru til var að leggja niður nafnið Uppeldisáætlun fyrir leikskóla og ræða þess í stað um Aðalnámskrá leikskóla. Jafnframt var lagt til að í stað þess að ræða um vetrarskipulag og hugmyndafræðilegan grundvöll skyldi hugtakið skólanámskrá tekið upp. Breytingin var líka í takt við greinargerð með frumvarpi til laga um leikskóla en þar segir í athugasemd við 13. grein, sem fjallar um setningu uppeldisáætlunar fyrir leikskóla, að hún sé: „nokkurs konar námskrár leikskóla sem myndi eins konar umgjörð um starfið eða sveigjanlegan starfsramma“ (Þingskjal 599, 1990-1991). Um það leyti sem verið var að leggja lokahönd á gerð Aðalnámskrár fyrir leikskóla (Menntamálaráðuneytið, 1999) höfðu nokkrir aðilar, þar á meðal Valborg Sigurðardóttir, fyrrverandi skólastjóri Fósturskóla Íslands og aðalhöfundur gildandi Uppeldisáætlunar fyrir leikskóla, áhyggjur af því að með því að taka upp heitið aðalnámskrá væri ákveðin hætta á að vinnubrögð leikskólans tækju mót af vinnubrögðum grunnskólans sem leiddi af sér að strokað væri yfir sérstöðu hans. Sjálf taldi ég litla hættu á því; ímynd leikskólans, sérstaða hans og sjálfsmynd stéttarinnar væri of sterk til þess að það gerðist. Stéttin var á þeim tíma nýbúin að slást hatrammri baráttu fyrir tilveru sinni og ætlaði ég að þar ríkti rík stéttarvitund og stolt. Hins vegar taldi ég að með því að taka námskrárhugtakið í þjónustu leikskólans opnaðist í leiðinni víðfeðmur heimur námskrárfræða sem fram að því hafði verið leikskólakennurum að einhverju leyti lokaður, eða þeir valið að tileinka sér hann ekki. Á þessum tíma kenndi ég námskrárfræði fyrir leikskóla við Háskólann á Akureyri. Fannst mér sérstakt að þýða hugtakið curriculum á tvo vegu eftir því hvort um leik- eða grunnskóla var að ræða eins og tíðkast hafði.
Um svipað leyti og vinna við aðalnámskrána stóð sem hæst, hófst umræða um sameiningu Félags leikskólakennara við Kennarasamband Íslands. Félag leikskólakennara setti á stofn nefnd og meirihluti hennar skilaði áliti þar sem sameining var lögð til. Ég skilaði minnihlutaáliti þar sem ég varaði við ákveðnum hættum sem ég taldi að gætu skapast við sameiningu. Í minnihlutaálitinu kom fram ákveðin hræðsla við að hugmyndafræði og vinnubrögð næstu skólastiga yfirtækju hugmyndafræði leikskólans. Hræðsla við að Félag leikskólakennara myndi aðlagast Kennarasambandinu fremur en að félögin myndu samlagast. Meðal þess sem ég spáði var að félagið myndi með tíð og tíma slitna í tvö félög, annars vegar félag leikskólakennarar og hins vegar félag stjórnendur leikskóla – en ég taldi slíkt veikja stöðu leikskólans. Félag leikskólakennara gekk í Kennarasamband Íslands haustið 2001. Vorið 2010 rættist spádómurinn um tvö félög. Bæði í aðdraganda boðaðs verkfalls leikskólakennara haustið 2011 og umræðum um sameiningu leikskóla á vormánuðum 2011 komu fram sterkar raddir sem töldu að leikskólakennarar hefðu haft betri stöðu í einu félagi en tveimur.
Orðræða – sérkenni strokuð út
Félag leikskólakennara hefur lengi verið í forystuhlutverki um að móta orðræðu stéttarinnar. Félagið hefur oftar en einu sinni staðið fyrir að safna saman hugtökum um einstaka þætti leikskólastarfs og þeim skilgreiningum sem að baki liggja. Síðast var tekin ákvörðun um slíka hugtakavinnu árið 2005 og lauk henni árið 2007.
Umræða um sameiginlegan orðskilning og hugtakanotkun hefur oftar en ekki ratað inn á þing og á fundi stéttarinnar. Félagið fór sem dæmi í sérstaka fundarferð í kjölfar skýrslu hugtakanefndarinnar árið 2007 undir nafninu, Frá gæslu til skóla – hvernig skóla?, þar sem ræða átti hugtök og skilgreiningar á leikskólastarfi. Í framhaldi af vinnu hugtakanefndarinnar var eftirfarandi bókað á 48. fundi skólamálanefndar Félags leikskólakennara þann 11. maí 2007:
Skólamálanefnd er sammála greinargerð hugtakanefndar um að draga fram eftirfarandi meginhugtök í leikskólastarfi: skóli, skólastjóri, kennari, nemandi og kennsla. Nefndin leggur einnig til að hugtakið nám verði bætt við. (Félag leikskólakennara, 2007a)
Stjórn félagsins og skólamálanefndin lögðu áherslu á að hugtökin og notkun þeirra yrðu kynnt vel og vandlega fyrir félagsmönnum og innan háskólanna.
Í ljósi þessarar bókunar er vert að benda á þá hefð, sem hafði áður fyrr skapast í mörgum leikskólum, að kalla allt starfsfólk fóstrur án tillits til menntunar, og til aðgreiningar var rætt um menntaðar fóstrur. Reyndar var það svo, að viðbótin „menntaðar“ fór fyrir brjóstið á mörgum fóstrum sem töldu fóstruheitið vera starfsheiti sitt en ekki samnefnari fyrir alla sem í leikskólum störfuðu. Með breytingum og lögverndun á starfsheitinu er ljóst að enginn getur kallað sig leikskólakennara nema að því tilskyldu að hafa leyfisbréf. Lausn margra leikskóla er því að nota samheitið kennari um allt starfsfólk sem vinnur með börnum. Innan leikskólans var lengst af mjög flatur stjórnunarstrúktúr og leikskólakennarar átt erfitt með að setja sig skör hærra en annað starfsfólk. Þetta hefur valdið ákveðnum vanda sem birtist í vandræðagangi gagnvart foreldrum og börnum með hvað kalla eigi þá sem ekki hafa formlega menntun og leyfisbréf.
Það eru fleiri hugtök en starfsheitið sem hafa tekið breytingum í átt að því sem er í grunnskólum. Dagskipulag hefur t.d. sums staðar verið skipt út fyrir stundaskrár. Inn í stundaskrána má víða sjá stundir sem tileinkaðar eru fagsviðum aðalnámskrárinnar frá 1999. Börn (nemendur) fara því í tónlist, myndlist, útikennslu (athugið að ekki er sagt útinám, heldur kennsla) og svo framvegis. Í stað þess að ræða um leikföng og leikfangakost er rætt um náms- og kennslugögn. Til útskýringar fyrir lesendur þá hafa leikskólakennarar lengstum verið duglegir við að móta sinn eigin orðaforða og skilgreina starfið með sínum eigin hætti. Skemmst er að minnast hinnar sérstöku hugtakanotkunar Hjallastefnunar ehf. Á meðal þeirra hugtaka sem leikskólakennarar hafa rætt og skilgreint mismunandi er hugtak eins og samverustund. Þetta að því er virðist einfalda og gegnsæja orð getur haft mismunandi merkingar; það merkir samtals- og ígrundunarstund í einum leikskóla, en lestur eða frásögn í öðrum. Samverustund getur líka átt við söngstund í einum leikskóla á meðan það á ekki við annars staðar.
Umræðan um nýja starfsheitið átti sér m.a. stað í gegnum umræðu um eðli starfsins. Hvað felst í því að vera leikskólakennari? Er það fyrst og fremst kennsla, uppeldi, umönnun eða menntun? Er sá sem menntar ekki sjálfkrafa kennari? Ber því ekki að tala um kennslu í stað þess að tala um umönnun og uppeldi? Þegar kennslu- og kennarahugtakið hefur verið tekið upp er þá ekki næsta skref að ræða um nemendur? Telja má að orðræðan um virkni barnsins og það, að útbúa menntandi umhverfi, hafi verið víkjandi. Áherslan varð á beint hlutverk leikskólakennarans við kennslu nemandans, við miðlun þekkingar. Nú er það kennarinn sem er í brennidepli, (barnið) neminn er sá sem miðlað er til, er viðtakandi. Sú staðreynd að hugtakanefndin hafi gleymt hugtakinu nám segir e.t.v. nokkuð um viðhorfin.
En hvaðan komu hugtökin sem hugtakanefndin, og leikskólakennarar í kjölfarið, hafa gripið til? Eru þau ættuð frá nýyrðasmíði leikskólakennara eða hvað? Flest eru þau ættuð af næsta skólastigi; grunnskólastiginu. Einhver gæti spurt, í ljósi þess að leikskólakennarar eru í sama stéttarfélagi og menntun þeirra og grunnskólakennara er að hluta sú sama, hvort ekki sé eðlilegt að leikskólinn taki upp orðræðu grunnskólans? Er nokkur hætta sem því fylgir? Er leikskólinn ekki svo sterk eining með sína sérstöku hugmyndafræði og verklag að hann þarf ekkert að óttast? Reyndar eru þetta rök sem fram komu í greinargerð hugtakanefndarinnar en þar segir:
Það má segja að þau hugtök sem nefndin mælir með séu eðlileg og sjálfsögð í ljósi þeirrar þróunar sem orðið hefur í stéttinni frá árinu 1994. Stéttin hefur farið frá fóstrum til leikskólakennara, frá sérskóla til háskóla og frá Grettisgötu að Laufásvegi … Það má einnig líta á breytta hugtakanotkun sem eitt skref af mörgum í þessu mikla þróunarferli. Skref í átt til þess að samræma hugtakanotkun aðildarfélaga KÍ. (Félag leikskólakennara, 2007b).
Elstu börnin í leikskólanum
Til að skilja hvernig hugmyndafræði grunnskólans togar leikskólafræðina til sín er gagnlegt að skoða umræðuna um elstu börnin í leikskólanum og hvernig hún hefur þróast.
Umræðan um elstu börn leikskólans er ekki ný af nálinni. Hér áður fyrr hófu íslensk börn grunnskólagöngu 7 ára. Þó sóttu mörg börn nokkurra vikna vorskóla og önnur fóru í tímakennslu í lestri. Leikskólaganga var á þessum tíma ekki eins almenn og hún er nú. Í samfélaginu og á meðal skólafólks átti sér stað um miðbik sjöunda áratugarins umræða um að færa grunnskólaaldurinn niður um ár.
Með slíkri aðgerð væri fleiri börnum tryggð skólaganga. Það var inn í þessa umræðu sem Valborg Sigurðardóttir hélt erindi um sex ára börnin á fundi Fóstrufélagsins árið 1968. Hennar skoðun var sú að þau ættu ekki að vera í leikskólum, heldur í sérstökum „aðlögunarbekkjum“ í grunnskólunum. Starfið átti að byggja á hugmyndafræði leikskólans, starfsfólkið ætti að vera leikskólakennarar og menntunin vera staðsett í formlegu umhverfi barnaskólans (Davíð Ólafsson, 2000). Valborg leit á þennan fyrsta bekk sem aðlögun á milli þessara tveggja skólastiga. Hugmyndafræðilega varð þessi barnhverfa nálgun ofan á, þó svo að framkvæmdin hafi orðið önnur. Samkvæmt því sem kemur fram í skýrslu Forskólanefndarinnar frá 1981 var markmið með sex ára bekkjum í Reykjavík, þegar þeir voru almennt teknir upp um 1970, fyrst og fremst að jafna námsaðstæður barna, þroska almenna hæfileika þeirra og stuðla að almennum þroska. Leiðirnar voru „hefðbundið leikskólastarf og m.a. að temja börnum að hlíta skólareglum, lúta aga viðfangsefnisins og stjórn kennarans“. (Menntamálaráðuneytið, 1981 bls. 26 – 27). Enn fremur kom fram í skýrslunni að viðfangsefnin áttu frekar að höfða til vilja og tilfinningalífs en greindar. Þrátt fyrir góð fyrirheit taldi nefndin að miðlunarstefna í kennslu hafi mjög fljótlega náð fótfestu í sex ára bekkjunum. Hlutverk nefndarinnar var að gefa álit um hvernig til hefði tekist og koma með tillögur um framtíð sex ára bekkjarkennslunnar. Lagði nefndin til að sex ára bekkurinn yrði hluti af skólaskyldu, og jafnframt að hætt yrði að leyfa fóstrum og réttindalausu fólki að kenna börnunum. Það væri hlutverk grunnskólakennara. Hér kemur strax fram sterk skoðun á menntun fóstra; þær gætu ekki talist kennarar.
Umræðan um elstu börn leikskólans er eins og sjá má bæði gömul og ný. Iðulega heyrast raddir um að leikskólinn sé ekki að uppfylla þarfir elstu barnanna og þess vegna verði að færa menntun þeirra inn í grunnskólann (sjá Hagfræðistofnun Háskóla Íslands, 2002). Undirliggjandi er e.t.v. það viðhorf sem kom svo skýrt fram í skýrslu forskólanefndarinnar að í leikskóla fari þrátt fyrir allt ekki fram „alvöru kennsla“ – í leikskóla fari fyrst og fremst fram tamning vilja og tilfinninga – hvað svo sem það felur í sér. Umræðan um að færa fimm ára börnin í grunnskólann hefur bæði tengst hugmyndum um styttingu náms til stúdentsprófs og því að leikskólabörn séu ekki nægilega tilbúin til að ástunda grunnskólanám þegar þau hefja það sex ára. Tíminn í leikskólanum hafi ekki verið nýttur í þágu framtíðarnáms barnanna. Það þurfi því að aðlaga þau grunnskólanum og gefa þeim tækifæri til „alvöru náms“. Leikskólarnir hafa reynt að mæta þessum röddum á ýmsan hátt. Löng hefð er fyrir „skólahópum“ sem hafa það markmið að undirbúa börn fyrir formlegt nám grunnskólans. Þá er jafnvel leitast við að líkja eftir því sem gert er eða talið gert í yngstu bekkjum grunnskólans (Rannveig Jóhannsdóttir, 2002). Hægt er að líta á tilhneigingar til að færa elstu börn leikskólans inn í grunnskólann sem skort á tiltrú á leikskólanum og því starfi sem þar á sér stað. Ein birtingarmynd hennar er tillaga Leikskólaráðs Reykjavíkur frá í febrúar 2008 um að stofna sérstaka fimm ára bekki í grunnskólum borgarinnar (Leikskólaráð Reykjavíkur, 2008).
Til að undirbúa það mál fól Menntaráð Reykjavíkurborgar árið 2006 sérstakri nefnd að vinna fyrir sig skýrslu um sveigjanleg skólaskil. Meðal annars var nefndinni ætlað að fjalla um og skýra möguleika „þroskaðra“ barna til að byrja fyrr í grunnskóla en nú er. Niðurstaða hópsins var að leggja til að skoða sérstaklega að einn eða fleiri leikskólar reki fimm ára deild í húsnæði grunnskóla, og að slík deild verði rekin undir stjórn og á forsendum leikskólans (Menntaráð Reykjavíkur, 2007).
Þegar skýrsla sameiningarnefndarinnar er skoðuð má sjá að mikill samhljómur er með hugmyndum þeim sem þarna eru kynntar og þeim sem birtust í aðdraganda þess að sex ára börnin fóru inn í grunnskólann upp úr 1970. Sömu rök enduróma nú.
Ef ofangreind leið Reykjavíkurborgar verður valin og henni fylgt annars staðar á landinu má ætla að afleiðingin verði ekki ósvipuð og þegar menntun sex ára barna var færð inn í grunnskólann í upphafi áttunda áratugarins. Uppeldisstarf sem byggist á miðlun og því sem Bennett (2005) nefnir skólamiðlun muni nái yfirhöndinni nú eins og þá. Aðferðir sem Bennett telur andstæðar því sem fram kemur í áliti menntaráðs Sameinuðu þjóðanna um inntak leikskólamenntunar árið 1997.
Fyrir nokkrum árum var menntun sex ára barna í Noregi færð til grunnskólans. Markmiðið var að halda eftir sem áður í starfsaðferðir og hefðir leikskólans, e.t.v að gefa grunnskólanum tækifæri til að nálgast aðferðir leikskólans. Það sem gerðist hins vegar er að smám saman tók menning grunnskólanna yfir og í mörgum skólum er lítið eftir af hugmyndafræði leikskólastarfsins. Vinnulag og verkefni grunnskólans urðu yfirsterkari (Germeten, 2008). Menning og hugmyndafræði grunnskólans er sterk og það er við ramman reip að draga að halda í eigin sérkenni í jafn sterku umhverfi. Miðjan mjakast lítið á meðan jaðarinn máist út.
Svarthol, fylgitungl eða reikistjarna?
Í tengslum við fyrirhugað verkfall leikskólakennara haustið 2011 átti sér stað umræða um stöðu leikskólans í samfélaginu og um menntun leikskólakennara. Meðal þess sem rætt hefur verið á samskiptasíðum leikskólakennara er hvort menntunin sé orðin of mikil. Nú þurfa leikskólakennarar meistaranám eins og kennarar á öðrum skólastigum. Við Háskólann á Akureyri taka allir kennaranemar sameiginlegt eitt ár. Þar er reyndar ekki lengur til leikskólakennaranám, heldur er rætt um kennslu á yngsta stig (þá átt við kennslu barna á aldrinum 0-8 ára). Þær raddir heyrast í samfélaginu á meðal leikskólakennara, sveitarstjórnarmanna og ýmissa annarra að ákvörðunin um lengingu kennaranámsins hafi verið röng, og tilgreina margir sérstaklega leikskólakennaranámið. Jafnvel hafa þær raddir heyrst að ef eitthvað er þá væri betra fyrir framtíð leikskólans að útbýta pungaprófum, þ.e. að útbúa styttri námsleiðir. Með slíkri umræðu er í raun verið að halda því fram að menntun leikskólabarna sé ekki eins merkileg og krefjist minni fagmennsku en að mennta grunnskólabörn. Umræðan um elstu börnin í leikskólanum er iðulega tengd þessar umræðu. Í því ljósi er e.t.v. ekki skrýtið að leikskólakennurum finnist sumum hverjum staða grunnskólans æskilegri og betri í samfélaginu og þar af leiðandi eftirsóknarverðari. Þar sé miðja sem gott er að nálgast.
Í upphafi sagðist ég ætla að reyna að geta mér til um örlög hinnar sérstöku hugmyndafræði leikskólans. Tel ég grunnskólahugmyndafræðina hafa náð þeirri stöðu að vera viðmiðið, að vera svartholið sem allt togar til sín? Þeirri spurningu svara ég að hluta til neitandi. Ég er þeirrar skoðunar að leikskólinn sé heldur ekki pláneta í eigin sólkerfi með sína afmörkuðu og sérstöku hugmyndafræði lengur. Örlög hans eru nær því að vera fylgitungl á sporbaugi grunnskólafræðanna, fylgitungl sem leikskólafólk hefur sjálft unnið í að koma á þennan nýja sporbaug. Að því leyti má merkja áhrif eftirnýlenduhugmyndafræði á leikskólann. Það má vera að fæstum þyki það stórmál hvar og hvernig leikskólafræðin eru skilgreind, hvort þau teljast til sérstakra fræða eða séu undirskipuð grunnskólafræðum. Ég er í þeim hópi sem stendur ekki á sama. Ég er í hópi þeirra sem telur að það sé missir af hinni sérstöku hugmyndafræði og vinnubrögðum leikskólans. Sem álít að skólastarf á Íslandi verði fyrir vikið fátækara.
Heimildir
Að vera börnunum sem móðir. Rætt við þrjár nýútskrifaðar fóstrur. (1967, júní). Morgunblaðið, bls 19.
Bennett, J. (2005). Curriculum issues in national policy-making. European Early Childhood Education Research Journal, 13(2), 5-23.
Canella, G. og Viruru, R. (2004). Childhood and postcolonization: Power, education, and contemporary practice. New York: Routledge/Falmer.
Davíð Ólafsson. (2000). Saga Félags íslenskra leikskólakennara. Í Ívar Gissurarson og Steingrímur Steinþórsson (ritstjórar), Leikskólakennaratal, fyrra bindi (bls. 11-92). Reykjavík: Mál og mynd.
Félag leikskólakennara. (2007a). Fundargerð 48. fundur skólamálanefndar FL þann 11. maí 2007.
Félag leikskólakennara. (2007b). Hugtakanotkun í leikskólum. Greinargerð hugtakanefndar skipaðri fulltrúum úr stjórn og skólamálanefnd Félags leikskólakennara.
Germeten, S. (2008). Early childhood education in Norway: Time as an indication for pedagogical space? Í U. Härkönen og E. Savolainen (ritstjórar), International views on early childhood education (E bók). Savonlinna: University of Joensuu, Savonlinna Department of Teacher Education . Sótt af http://sokl.joensuu.fi/verkkojulkaisut
/varhais/germeten.html
Hagfræðistofnun Háskóla Íslands. (2002). Stytting grunn- og framhaldsskóla: Áhrif á einstaklinga, sveitarfélög, ríkissjóð og þjóðarframleiðslu. Sótt af http://www.vr.is/Uploads/VR/utgefid_efni_vr/hagfraedistofnun_stytting_skola_jan_2002.pdf
Leikskólaráð Reykjavíkur. (2008). Fundargerð 29. fundar. Sótt af http://www.reykjavik.is/desktopdefault.aspx/tabid-725/4398_view-793/
Menntamálaráðuneytið. (1981). Skýrsla forskólanefndar. Reykjavík: Höfundur.
Menntamálaráðuneytið. (1999). Aðalnámskrá leikskóla. Reykjavík.Höfundur
Menntaráð Reykjavíkur. (2007). Sveigjanlegur námstími í grunnskóla – tillögur og greinargerð starfshóps. Sótt af, http://www.reykjavik.is/Portaldata/1/Resources/skjol/svid/menntasvid/pdf_skjol/utgafur/leikskolar/ymislegt/ssveigjanl.namst.grunnsk..pdf
Páll Skúlason. (2008). Menning og markaðshyggja. Skírnir, 182(1), 5-40.
Rannveig A. Jóhannsdóttir. (2002).Sameiginleg sýn tveggja skólastiga: þróunarstarf leik- og grunnskóla í Seljahverfi í Reykjavík. [án útgáfustaðar]: [án útgefenda].
Svandís Skúladóttir. (2010) Svandís Skúladóttir. í Andrés Ingi Jónsson og Oddný Helgadóttir (ritstjórar), Spor í sögu stéttar (bls. 115 -122). Félag leikskólakennara 60 ára. Reykjavík: Skrudda..
Svavar Gestsson. (1990-1991). Flutningsræða frumvarps til laga um leikskóla. Alþingistíðindi B-deild,113, bls??. Sótt 28. af http://www.althingi.is/altext/113/r2/2331.html
Tryggvi Þorgeirsson og Þorsteinn Vilhjálmsson. „Hvað er svarthol?“ Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/?id=445
Unnur Jónsdóttir. (1990). Amma dreki. Fóstra, 12(7), 15.
Valborg Sigurðardóttir. (1998). Fósturskóli Íslands. Reykjavík: Gott mál.
Viruru, R. (2005) The impact of postcolonial theory on early childhood education. Journal of Education, 5, 7-29.
Þingskjal 599. (1990-1991). Frumvarp til laga um leikskóla. Alþingistíðindi. Alþingistíðindi A-deild, 113, bls Sótt af http://www.althingi.is/altext/113/s/0599.html
___________________________
KD
Greinin birtist í Þjóðarspegli XII, 2011 en ég flutti samnefnt erindi á ráðstefnunni Þjóðarspegill sama ár. Hér að neðan er tengil á greinina eins og hún birtist.
Sorry, the comment form is closed at this time.