Kristin Dýrfjörð

Fagmaður eða framlengingarsnúra!

imageÍ frumkvöðlafræðum er fólki kennt að semja lyfturæðu. Lyfturæða er ræða það sem þú selur hugmyndina þína á 15 -20 sekúndum. Svona eins og þann tíma sem tekur að fara á milli hæða í lyftu og það vill svo til að þú hittir akkúrat þá manneskju sem getur hjálpað þér að koma  hugmyndinni þinni í framkvæmd í lyftunni. Þú þarft sem sagt að geta útskýrt út á hvað hugmyndin gengur í örfáum orðum.

Meðal þess sem ég hef rætt undafarna daga við kollega víða að frá Evrópu er sú hætta sem mér finnst fagmennsku leikskólakennara búin ef alla vega prógröm samin af hinum og þessum og aðkeyptar pakkalausnir verða ráðandi í leikskólastarfinu. Ég velti fyrir mér hvaða afleiðingar það geti haft ef leikskólakennarar máta ekki hverja hugmynd – hvert einsta prógram við eigin faglega kompás. Hvað gerist ef þeir taka ekki gagnrýna afstöðu.

Veitingarhúsið

Í minni fjölskyldu hafa margir tengst veitingarekstri í einu eða öður formi. Kokkar, þjónar, eigendur veitingahúsa, arkitektar. Mér er því ýmislegt sem tengist slíkum rekstri tamt sem líkingarmál. Sem dæmi til að reka gott veitingarhús þarf margt að koma saman, það þarf hugmyndafræði, svo þarf góðan kokk, sem hefur vit á því sem hann er að gera, kann að elda, setja saman áhugaverðan matseðil, fylgja sannfæringu og vera skapandi í sínu starfi. Svo þarf hann að hafa afbragðs tímastjórn á tæru. Það þarf að hanna bæði eldhús og veitingasal þannig að það virki, að tryggt sé að flæði geti verið gott, að fólk sé ekki að flækjast fyrir hvert öðru, lýsing sé góð í eldhúsi en kannski mild í sal. Það þarf að velja hluti, borðbúnað, dúka og annað. Það þarf svo góða þjóna, sem kunna að útbúa og vinna umhverfið, kunna að þjóna til borðs, eru faglegir í ráðleggingum sínum og svo framvegis, eru hvorki of afskiptalausir eða ýtnir. Svo þarf fólk að kunna að vinna saman, mæta hvert öðru sem og kúnnum af virðingu. Það þarf líka kúnna til að mæta, sem kunna að meta það sem vel er gert, sem taka þátt í að skapa heildarmyndina. Hvað er gott veitingarhús án alls þessa?

Leikskólinn sem veitingarhús

En snúum okkur aftur að leikskólanum. Sömu lögmál gilda þar. Það þarf hugmyndafræði, það þarf sköpun, það þarf að hafa getu og vilja til að útbúa umhverfi og framfylgja því sem þar á að eiga sér stað. Í góðum leikskóla þarf leikskólakennari í raun að vera með marga hatta, góður kokkur (kunna sitt fag og hugmyndafræði, setja saman námskrá), hönnuður (kunna að úbúa umhverfið þannig að það virki fyrir alla), hann þarf líka að vera þjóninn sem af faglegum metnaði sér til þess að allt starfið gangi snurðulaust fyrir sig.

Hlauparinn eða framlengingarsnúrann

Í leikskólum þar sem keyrt er á prógrammi(grömmum) sem ekki er mátað við hugmyndafræðina og starfið er hætt við að leikskólakennarinn verði ekkert að þessu. Hann verði raun hlaupari sem framfylgir því sem aðrir ákveða (eða sá sem er þjálfaður af stóru veitingarhúsakeðjunni til að framfylgja en ekki til að skapa). Hann hannar hvorki umhverfi eða matseðill, hann er ekki þjóninn sem kemur fram að lipurð og fagmennsku. Leikskólakennarinn verður í raun bara eins og hver önnur framlengingarsnúra sem flytur hugmyndir/orku á milli tveggja ása. Hættan er að hann verði fyrst og fremst viðfang annarra. Leikskólakennarinn getur auðvitað reynt að samhæfa allar þessar mótsagnarkenndu hugmyndir en einhvernveginn held ég að það leiði ekki til michelín stjörnu.

Já og lyfturæðan

Hvað kemur þetta lyfturæðu við? Lyfturæðan mín gengur út á að reyna að skýra það sem ég tel vera hættuna við það að framselja of mikið vald til sérfræðinga utan leikskólans og í leiðinni hætta á að treysta á fagmennsku og eigið innsæi.

Að vera á sjálfstýringu eða sá sem skapar og hefur vald

Það koma þær stundir í lífi margra að þeim finnst bara ágætt að vera á sjálfstýringu í vinnunni en ég held samt að starfsánægja flestra tengist ekki slíku starfsumhverfi heldur umhverfi þar sem viðkomandi fær að njóta þekkingar sinnar og reynslu, þar sem hann hefur vald til að skapa og vera þátttakandi í sköpun annarra, það gerist held ég sjaldan á MacDonalds.

Sturla byggir

Sorry, the comment form is closed at this time.

Kristín Dýrfjörð er eigandi og ábyrgðarmaður síðunnar