Foreldrasamtöl – undirbúningur og framkvæmd
Færsla 2 Kristín Dýrfjörð
Hér er fjallað um undirbúning fyrir samtalið sjálft. Það er góð regla að ræða stöðugt um hvers vegna samtölin eru. Eftirfarandi punktar eru góðir til að ræða bæði milli starfsfólks og við foreldra fyrir samtalið. Það er gott að hafa í huga að hafa ekki of mörg samtöl dag hvern, hættan er að það snjói yfir tilfinningar og upplýsingar um einstaklinga. Við það verður erfiðara fyrir kennara að vinna úr upplýsingum.
- Hver eru markmið foreldrasamtala? (Meðal annars að byggja upp gagnkvæmt traust, kynnast barninu heima, kynnast barninu í leikskólanum).
- Hver er tilgangur samtalsins? (Að vera vettvangur til að miðla upplýsingum og kynnast).
- Hver tekur þátt í því? (Hver verður þátttakandi í samtali um hvert barn, að foreldrar geta verið báðir eða haft með sér aðila sé þeir telja skipta máli, sem dæmi ef margir eru í samtali af einhverjum ástæðum geta foreldrar upplifað það sem valdamismunun og liðið illa. Við slíkar aðstæður ætti auðvitað að bjóða þeim að hafa með sér aðila sem þeir treysta. Það er allra hagur.
- Að samtöl séu ætluð foreldrum allra barna í leikskólanum og sjálfsagður og eðlilegur réttur beggja!
- Hversu miklum tíma er ætlað í samtalið. Gefa upp í upphafi samtals hversu miklum tíma er ætlað í það.
- Að fyllsta trúnaðar sé gætt og að allar upplýsingar sem þar komi fram séu trúnaðarmál.
Fyrir samtalið
- Nauðsynlegt að huga vel að umhverfinu.
- Hvernig sætaskipan er- að fólk sitji í augnhæð, kaffi sé tilbúið – að öll gögn sem nota á séu til staðar. Möppur barnsins, skráningar, mat og athuganir sem á að kynna eða fara yfir séu á staðnum og þurfi ekki hlaupa og sækja.
- Tryggja að foreldrasamtalið sé ekki truflað. ekki bankað á hurðir eða opnað inn.
- Kynna foreldrum tímanlega hvenær foreldrasamtalið á að vera.
Á meðan á samtali stendur
- Minna í upphafi samtals á tímamörk.
- Ef samtalið virðist ætla að sprengja tímamörk og leikskólakennarinn finnur að foreldrunum liggur enn mikið á hjarta er nauðsynlegt að bjóða foreldrum upp á framhaldssamtal seinna og setja það á dagskrá strax.
- Minna foreldra á að undir engum kringumstæðum sé heimilt að ræða um málefni annarra barna í samtalinu.
- Það getur hinsvegar verðið nauðsynlegt að viðurkenna að það séu erfiðleikar í barnahópnum en að þið séu að vinna að lausn.
- Ekki taka undir gagnrýni á samstarfsfólk.
- Það á að taka við upplýsingunum og hlaupa ekki í vörn. „Já ég heyri hvað þú ert að segja, við skulum skoða þetta“ æfið ykkur í svörum sem byggja ekki á varnarhætti.
- Það er gott fyrir leikskólakennara sem er að fara í sitt fyrsta samtal að velja samtal sem hann á von á að gangi nokkuð vel fyrir sig, jafnvel helst með samkennara ef kostur er.
- Samtalið er öllum auðveldara ef foreldrar fá líka að stjórna því sem fram fer.
Saga úr starfi. Hlutverkaleikurinn – ég nenni ekki að vera hérna
Fyrir mörgum árum var ég leikskólastjóri, leikskólinn stækkaði eitt haustið heldur hressilega um nokkrar deildir. Við stóðum frammi fyrir gríðarlegri aukningu foreldrasamtala og margt nýtt starfsfólk. Til að undirbúa okkur, ákváðum við að taka einn starfsmannafund í foreldrasamtöl. Við bjuggum til litlar sögur um alla vega foreldra, áhyggjufulla, glaða, ég nenni ekki að vera hérna og svo framvegis og alla vega leikskólakennara. Sögurnar voru lýsingar og hjálpuðu til að átta sig á hvernig viðkomandi gat leikið hlutverkið. Fyrst lékum við ég og aðstoðarleikskólastjórinn eitt eða tvö samtöl. Við skiptumst á á vera foreldri og leikskólakennari. Síðan tók starfsfólkið við. Fékk tíma til að æfa sig og leysti svo sitt samtal fyrir framan okkur hin. Sömu aðferð hef eg notað í kennslu og það er ótrúlega áhugavert að sjá og skynja það sem fram fer. Það er áhugavert að sjá bæði lausnir en líka að ræða saman vandamálin og það sem vel var gert við hópinn.
Í næsta hluta mun ég fjalla um hin svokölluðu krísusamtöl.
Sorry, the comment form is closed at this time.