Hvað hefur Félag leikskólakennara gert fyrir leikskólakennara og leikskóla?
Kristín Dýrfjörð, skrifar.
Félag leikskólakennara stendur í ströngu, verkfall í gangi og mörg spjót sem á félaginu standa. Í ljósi þess langaði mig að vekja athygli á að ég hef nýlega birt grein í Early Years: An International Research Journal þar sem ég fjalla um hvernig Félag leikskólakennara hefur mótað starf og starfsumhverfi leikskólakennara á Íslandi. Í greininni skoða ég hvernig félagið, frá því að það breyttist aftur í stéttarfélag árið 1988, hefur haft áhrif á þróun leikskólans og hvernig það hefur tekist á við áskoranir, sérstaklega þær sem fylgja öldu nýfrjálshyggju bæði hérlendis og erlendis og breyttum kröfum í samfélaginu til leikskólans.
Af hverju að skrifa um Félag leikskólakennara?
Ástæðan fyrir því að ég valdi þetta efni er í fyrsta lagið að efnið er mér hjartfólgið, ég var ein þeirra sem tók þátt í stofnun stéttarfélagsins og var fyrsti formaður Reykjarvíkurdeildar félagsin og átti sæti í samninganefndum fyrstu árin en ekki síður vegna þess að saga félagsins speglar baráttu fyrir viðurkenningu og betri starfsaðstæðum klassískarar kvennastéttar. Upphaflega var félagið stofnað árið sem stéttarfélag 1950, síðar hurfu leikskólakennarar inn í stéttarfélög sveitarfélaganna. Með breytingum á vinnumarkaði og óánægju með takmarkað umboð fagfélagsns, ákváðu leikskólakennarar að stofna félagið sem sjálfstætt stéttarfélag árið 1988. Sjálf tók ég þátt í hópuppsögnum fóstra (gamla starfsheitið okkar) árið 1986, sex mánuðum seinna þann 1. maí 1987 stóðum við frammi fyrir að ganga út (við höfðum ekki verkfallsrétt, hópuppsögn sem gat tekið 6 mánuði var okkar eina vopn). Í lok apríl var sest við samningarborðið en fulltrúum okkar sem höfðum staðið í uppsögnum ekki boðið að borðinu, heldur var það í höndum formanns Starfsmannafélags Reykjavíkur sem skrifaði undir samkomulag sem við felldum. Þegar ljóst var að okkur var full alvara að hætta, var fyrst í alvöru samið með handsöluðum loforðum karlanna sem stjórnuðu. Stuttu seinna tóku leikskólakennarar þá ákvöðrun að stofna sjálfstætt stéttarfélag sem sá um að semja um kaup og kjör félagsmanna, enda búnar að fá nóg af völdum annara yfir fóstrum. Þetta skref var grundvallaratriði – það veitti okkur ekki bara rétt til að semja sjálfstætt um laun og starfskjör heldur samtímis standa vörð um fagleg málefni.
Frá þessum tíma hefur félagið unnið markvisst að því að bæta launakjör, auka fagmennsku og tryggja réttindi félagsfólks. Hins vegar hefur þessi árangur oft krafist erfiðra málamiðlana, og stundum hafa þær haft áhrif á faglega sjálfstæðið okkar. Eitt dæmi sem ég skoða í greininni er hinn svokallaði ábataskiptasamningur frá 1992 sem var liður í að tryggði börnum í Reykjavík lengri vistun og ákveðinni dreifingu á starfsfólki leikskóla. Þótt þetta hafi verið stórt skref fram á við, skapaði það einnig nýjar áskoranir, svo sem aukið álag og þrengri vinnuaðstæður í sumum leikskólum.
Hvað þýðir þetta fyrir leikskólakennara samtímans?
Við vitum öll hversu mikilvægt starf leikskólakennara er fyrir börn og fjölskyldur þeirra. En þrátt fyrir mikilvægið eru vinnuaðstæður oft óásættanlegar – hávært og þröngt vinnuumhverfi, skortur á starfsfólki og takmörkuð viðurkenning samfélagsins. Í greininni bendi ég á að Félag leikskólakennara hefur unnið gott starf við að bæta þessi atriði, en það er enn margt sem þarf að gera.
Þar að auki skoða ég hvernig nýfrjálshyggja hefur haft áhrif á leikskólana. Kröfur um stöðlun og skilvirkni hafa stundum vegið að skapandi og leikmiðaðri nálgun í starfinu. Hver einasti leikskólakennari stendur fram fyrir að spyrja: Hvernig getum við staðið vörð um fagmennsku okkar og gildi leikskólans sem náms- og uppeldisstofnunar? Hvernig fáum við samfélagið í lið með okkur og að það viðurkenni sérfræðiþekkingu leikskólakennara?
Hver er næsta skref?
Það sem stendur upp úr í vinnu minni við þessa grein er að leikskólakennarar verða að halda áfram að styðja við hvort annað og Félag leikskólakennara. Með sameiginlegum krafti er hægt að halda áfram að móta framtíð leikskólans á Íslandi og tryggja börnum besta mögulega uppeldi og menntun.
Ef þú vilt lesa greinina má finna hana hér: Grein á netinu. Ég vona að hún veiti ykkur innblástur til að íhuga mikilvægi starfs leikskólakennara og hvernig hægt er að sameinast um að gera leikskólana enn betri.
Sorry, the comment form is closed at this time.