Hvernig námstækifæri felast í leik með einingakubba
Kristín Dýrfjörð skrifar um eigin sögu tengda einingakubbum og ögn um kubbana líka.
Ég hef kennt um einingakubba í fjölda ára. Fjalla um upphaf þeirra og sögu. Ég segi frá Caroline Pratt og vegferð hennar í að skapa opinn efnivið fyrir börn. Hún er sú sem skapaði einingakubbana og var ein stofnenda City and Country leikskólans í New York (1914). Kubbarnir komu fyrst til Íslands með Valborgu Sigurðardóttur þegar hún koma heim úr námi frá Bandaríkjunum og tók við sem skólastjóri Fósturskóla Sumargjafar, sem núna er hluti af menntavísindasviði HÍ. Kubbarnir hafa aldrei verið ódýrir og á tímum hafta og skömmtunar fékkst varla peningur til að flytja inn rándýrt leikefni fyrir leikskóla. Kubbarnir féllu því smá saman í gleymskunnar dá. Þangað til að leikskólinn Mýri lét flytja inn fyrir sig sett (Krummi gerðu það) og fór í þróunarverkefni um kubba (verkefnið var unnið frá 1991-1993 og Valborg Sigurðarsdóttir var verkefnastjóri). Með innflutningi kubbana kom líka Hariett Cuffaro til landsins og stóð fyrir fjölmörgum námskeiðum í samstarfi við Fósturskólann. Ég er svo heppin að hafa farið á eitt þeirra fyrstu. Á þeim tíma var ég leikskólastjóri í Reykjavík og við í mínum leikskóla keyptum sett frekar fljótlega. Við höfðum fram að því verið afar hrifin af alla vega kubbum og höfðum sótt okkur alla vega tilfallandi afskurð hjá trésmíðaverkstæði borgarinnar. Ein mín dýrmætasta minning er þegar ég var nýtekin við sem leikskólastjóri (1988) tengist kubbum. Ég og Þórhalla Guðrún Gísladóttir aðstoðarleikskólastjóri vorum upp í leikskóla að hreinsa tonn af drasli úr skápum, aðallega gríðarlegt magn af allavega skapalónum til að föndra hitt og þetta. Við vildum hafa opinn og skapandi efnivið og fundum kassa fullan af alla vega trékubbum og afskurði sem við vildum að væri hluti af leikefni fyrir börnin. Við byggðum úr þessum kubbum fyrir framan inngang í leikskólann. Þegar börnin mættu á mánudagsmorgni beið eftir þeim heilt þorp sem við höfðum komið upp. Þorpið stóð ekki lengi, en það var nógu góð kveikja til að koma kubbaleik af stað og eftir það urðu þessir kubbar með því vinsælasta sem til var. Einingarkubbarnir komu litlu seinna og urðu líka afar vinsælir.
Þegar leikskólinn stækkaði svo örfáum árum seinna, ákváðum við að kaupa kubba á allar deildir, þeim efnivið var forgangsraðað við innkaup. Leikskólinn varð allt í einu sex deilda (1995-6) og til að tryggja þekkingu og vinnubrögð fékk ég leyfi frá bandarískum höfundum bókar um kubba og skapandi starf að þýða kubbakaflann og gefa út. Fyrst var kaflinn samt bara ljósritaður fyrir fólkið í Ásborg. Seinast þegar ég kenndi um kubbana núna í mars, báðu nemendur mig um leyfi til að ljósrita heftið, sem ég leyfði góðfúslega. Svo einhverstaðar er aftur ljósritað hefti um kubba á ferð.
Mikilvægi einingakubba
En hvers vegna eru einingarkubbar mikilvægir? Hvað gerir að 110 árum eftir tilurð þeirra eru þeir jafn ómissandi og í upphafi.
Það er vegna þess að einingakubbar eru öflug námstæki sem stuðla að vitrænum, félagslegum, tilfinningalegum og líkamlegum þroska ungra barna. Þeir koma í ýmsu stærðum og eru alla vega í laginu. En á bak við þá er kerfi, kubbarnir eru stærðfræðilega hannaðir til að ganga upp, ekki ólíkt og legókubbar seinna. Sem dæmi er einingarkubburinn, sá sem allir aðrir kubbar ganga út frá 14 cm langur, 7 cm á breidd og 3,5 á dýpt (1:2:4 hlutföll). Kubbarnir hafa líka allir sín heiti sem eru byggð á stærðfræðilegum sérkennum þeirra. Með því að nota þessu heiti í leik er verið að vinna að innlögn heitanna og þekkingu barna til dæmis á því að ferningur er ekki kassi. Einingarkubbur sem er tvöfaldur er sem dæmi 28 cm, lengsti kubburinn er kallaður fjórfaldur kubbur. Það er vegna þess að lengdin samsvarar fjórum grunnskubbum. Ef þeir sem vinna með kubbana tileinka sér að leggja inn heiti þeirra í gegn um leik – eru þeir að byggja upp þekkingu barna sem nýtist þeim allt lífið.
En kubbarnir eru ekki bara öflugir til að börn læri um undirstöðu stærðfræði, þeir hvetja til sköpunar og ímyndunarafls. Kubbar og notkun þeirra bjóða upp á endalausa möguleika fyrir börn og auðvitað líka fullorðna sem taka þátt til að skapa eigin veröld. Þeir hvetja börn til gagnrýninnar hugsunar, að leysa vandamál og sjá fyrir sér nýja uppbyggingu og lausnir. Þeir efla sköpunargáfu og hugmyndaríkan leik.
Kubbarnir eru líka til góðir til að þróa fínhreyfingar. Þegar börn vinna með og stafla kubbum auka þau samhæfingu augna og handa og fínhreyfingar. Leikurinn styrkir einnig vöðva ýtir undir handlagni og leggur grunninn hæfni eins og að skrifa og teikna.
Já kubbar stuðla að vísindalæsi, börn læra stærðfræði- og vísindahugtök. Með kubbaleik kanna börn náttúrulega stærðfræðilegar og vísindalegar meginreglur. Þau læra um lögun, stærð, samhverfu, mynstur og grundvallar eðlisfræðihugtök eins og jafnvægi og stöðugleika.
Kubbar hlú að félagsfærni og samvinnu barna. Þegar börn leika saman með kubba, læra þau mikilvæga félagslega færni eins og að deila, samvinnu og samskipti. Börnin vinna saman að því að skipuleggja og byggja upp mannvirki, semja um hlutverk og leysa átök, sem allt stuðlar að jákvæðum félagslegum samskiptum.
Kubbarnir ýta undir aukin málþroska. Í leik með kubba fá börn tækifæri til að lýsa sköpun sinni, ræða hugmyndir og tjá sig munnlega. Þetta verður til þess að börn búa við ríkt tungumálsumhverfi sem styður orðaforðaþróun, samskiptahæfni og frásagnarhæfileika.
Að lokum má minna á að kubbar ýta undir hæfileika til lausnarhugsunar, að leysa vandamál. Það er vegna þess að það að byggja með kubbum felur í sér að prófa og gera mistök, gera tilraunir og leysa vandamál. Börn lenda í áskorunum eins og að finna jafnvægi þegar byggingar þeirra eru ótryggar. Nýlega í tíma hjá mér sá ég einmitt leikskólakennaranema velja sér að byggja afar flókna og óstöðuga byggingu sem krafðist margra tilraun og lausna til að byggingin þeirra væri stöðug. Byggingar hrundu, en nemarnir gáfust ekki upp og fundu lausnir. Sama sést aftur og aftur þegar börn byggja. Kubbar hvetja börn nefnilega til að þrauka og finna sjálfstæðar lausnir og svo er það gleðin sem fylgir því að byggja það hugurinn sér.
Að lokum minni ég á að allir kubbar bjóða upp á námstækifæri og skapandi hugsun. Svo framarlega sem þeir eru notaðir sem opinn og skapandi efniviður.
Þetta er hluti 1 af færslum um einingakubba.
Endilega deilið færslunni ef þið teljið hana gagnast.
Sorry, the comment form is closed at this time.