Hversvegna skiptir máli að halda bókum að yngstu börnunum?
Kristín Dýrfjörð
Á meðfylgjandi mynd er um árs gömul stelpa að skoða bók af miklum áhuga. Hún bendir, snýr blaðsíðum og virðist algjörlega upptekin af verkefninu. Myndin sýnir mikilvægi þess að halda bókum að börnum frá því þau eru nokkra mánaða gömul.
Samkvæmt kenningum Vygotskys um félagslegt nám (1978) má líta á slíka athöfn eins og ársgamalt barn að skoða bók sem hluta af menningarbundnum verkfærum sem styðja við þroska. Þegar barnið notar fingurinn til að benda á myndir eða texta er það að þróa hæfni sína til að tengja hluti, orð og hugtök, jafnvel án þess að geta lesið í hefðbundnum skilningi. Þetta er einnig í takt við það sem Bruner (1983) kallaði „samning um merkingu,“ þar sem börn, í gegnum samskipti við umhverfi sitt og fullorðna, læra að skilja hvernig t..d bóklegar upplýsingar miðlast.
Hugtakið sem hér er þýtt sem „samning um merkingu“ er tilvísun til hugtakana sameinuði athygli (e. joint attention) og þess að reisa vinnupalla um þroska barna scaffolding , sem Bruner þróaði í tengslum við rannsóknir sínar á þroska barna og samskiptum þeirra við umhverfið. Hann lagði áherslu á hvernig börn og fullorðnir „semja“ um merkingu í sameiginlegum athöfnum, eins og að skoða bók saman, þar sem athygli barnsins og fullorðna beinist að sama hlutanum. Að hinn fullorðni t.d. bendi með fingri á ákveðin atriði í bókinni, styður samkonar athöfn hjá banrinu þegar það er sjálft að skoða.
Myndin endurspeglar líka það sem Malaguzzi, hugmyndasmiður Reggio Emilia, lagði áherslu á: börn eru meðfæddir könnuðir. Hér má einnig tengja athafnir barnsins við hugmyndir um sjálfsstýringu í námi. Barnið stjórnar sjálft hvaða myndum það skoðar, hvar það bendir, og hvernig það flettir. Þetta endurspeglar sjálfsstjórn og forvitni, sem eru mikilvægir þættir í snemmtækri læsisþróun.
Tengsl við málþroska og læsi
Rannsóknir hafa sýnt að samskipti við bækur, jafnvel áður en börn skilja texta, hafa bein áhrif á orðaforða þeirra og málskilning (Justice & Pullen, 2003). Þegar barn flettir og bendir, eru það fyrstu merki um táknbundinn skilning á texta sem samskiptatæki. Að gefa börnum aðgang að bókum snemma í lífi þeirra getur því lagt grunn að jákvæðri afstöðu til lestrar og fræðslu.
Samræðulestur er ein aðferð sem hefur reynst árangursrík við að efla málþroska barna. Hún felur í sér virka þátttöku barna í lestri, þar sem þau eru hvött til að tala um innihald bókarinnar, spyrja spurninga og tengja efnið við eigin reynslu. Rannsóknir hafa sýnt að samræðulestur getur bætt orðaforða og málfærni barna, og það skiptir máli að byrja snemma. Að lestur, hlustun og samræða um bækur verði hluti af daglegum venjum hvers barns.
Heimildir:
Bruner, J. S. (1983). Child’s talk: Learning to use language. W.W. Norton & Company.
Justice, L. M., & Pullen, P. C. (2003). Promising interventions for promoting emergent literacy skills: Three evidence-based approaches. Topics in Early Childhood Special Education, 23(3), 99–113. https://doi.org/10.1177/02711214030230030201
Vygotsky, L. S. (1978). Mind in society: The development of higher psychological processes. Harvard University Press.
Sorry, the comment form is closed at this time.