Leikskólinn sumargjöf til íslenskra barna
Sumardagurinn fyrsti er sérstakur dagur hjá þeim sem hafa málefni barna að áhugamáli eða jafnvel lífsstarfi. Það var á Sumardaginn fyrsta árið 1924 sem íslenskar konur stofnuðu Sumargjöf. Félagið sem byggði og rak fyrstu leikskólana.
Í stofnskrá Sumargjafar segir m.a:
Að tilgangur félagsins sé að stuðla að andlegri og líkamlegri heilbrigði og þroska barna í Reykjavík og vernda þau fyrir óhollum áhrifum.
Jafnframt er ætlunin að hrinda af stað rannsóknum um hag barna, stuðla að því að rita um uppeldismál í blöð og tímarit. En líka að reka ýmsar stofnanir sem tengjast hag barna s.s. vinnustofur, dagheimili heilsugæslu og fleira. Margt af því sem þarna má lesa á sama erindi til nútímans – sumt hefur ekki breyst nóg.
Gamla Grænaborg og fyrirmynd hans
Þessum markmiðum Sumargjafar var ötullega sinnt og fyrsta dagheimilið var opnað í núverandi húsnæði Kennarasamtakanna (gamla kennaraskólanum) sumarið 1924. Auk þess var farið að stað með garðyrkjunámskeið fyrir börn (forveri skólagarðanna sem við þekkjum mörg úr eigin æsku), smíðavellir voru opnaðir og barnaleikvellir settir á stofn. Árið 1931 opnaði svo fyrsti sérhannaði leikskóli Íslands, Grænaborg. en það má telja menningarsögulegt slys þegar hún var rifin til að rýma til fyrir umferðamannvirki. Grænaborg var byggð eftir sérstakri hugmyndafræði sem byggði á starfi McMillansystra í London. En þær teljast til frumkvöðla leikskólauppeldis, þær systur voru virkar í hreyfingum sósíalista og rann til rifja þær aðstæður sem börnum var boðið upp á. Þær systur voru sannir aðgerðarsinnar og settu á stofn leikskóla í London sem byggðu á uppeldishugmyndum þeirra.
Skólastarf og þjóðfélag
David Hamilton ritar að skólastarf geti aldrei verið ósnortið af því sem gerist á víðari sviðum þjóðfélagsins. Hann spyr hvort skólar eigi að vera bergmál samfélagsins þar sem varðveisla menningararfsins fer fram eða hvort þeir eigi eða ætli að vera framsæknir og verða verkfæri til þjóðfélagslegra breytinga? Hefð og saga leikskólans er hið síðara, flestir leikskólar voru stofnaðir til þess að breyta þjóðfélaginu – til þess að hafa áhrif.
Kannski er það þess vegna sem allflestir leikskólakennarar sjá ekkert að því að leikskólar séu reknir utan við hin opinberu kerfi. Þannig er nú einu sinni sagan og hefðin – líka hérlendis. Það var ekki fyrr en á 6 áratugnum sem opinberir aðilar tóku við rekstri leikskóla að einhverju marki fram að þeim tíma voru það kven- og verkalýðsfélög sem byggðu og ráku leikskóla auk Sumargjafar. Saga leikskólanna er ekki saga opinbers reksturs.
Leikskólahefðin utan hinnar opinberu hefðar
(þessi kafli var ritaður sem andsvar við gagnrýni á mig um að bera hag starfsfólk framar öllu og að geta ekki séða að aðrir en opinberir aðilar ættu að reka leikskóla)
Okkar hefð, er hefð þess sem þorir að vera öðruvísi – sem þorir að fara áður ótroðnar slóðir. En þar með er ekki sagt að allar slóðir mælist jafn vel fyrir. Í eldra bloggi skilgreindi ég skóla í það sem ég kalla lífstefnuskóla í anda leikskólahefðarinnar og það sem ég kalla hagnaðardrifna skóla. Auðvitað geta og eru margir hagnaðardrifnir skólar byggðir á ákveðinni hugmyndafræði – held til dæmis að það eigi við um fjölda einkarekinna Motesorri skóla um allan heim, líka á Norðurlöndunum. Ég held ekki að það séu illmenni sem reka og eiga leikskóla. Ég held að það sé fólk sem hefur áhuga á uppeldismálum en sér heldur ekkert rangt við að hagnast á þessu áhugamáli sínu. En ég held líka að þeir sem eitthvað vit hafa á bisness gera sér auðvitað grein fyrir að skóli sem er rekinn eftir stefnu er betri söluvara. Ég sem foreldri er líklegri til að vilja senda barnið mitt í skóla sem byggir á tiltekinni hugmyndafræði. Vel að merkja eftir því sem ég best veit og kannanir sýna eru flestir foreldrar leikskólabarna á Íslandi – hvort sem leikskólar eru reknir af hinu opinbera eða öðrum afar ánægðir með leikskóla barna sinna.
Ef aftur er hugað að orðum Hamilton þá eru skólar aldrei ósnortnir af því sem gerist á víðum sviðum þjóðfélagsins og í okkar samfélagi hefur verið mikil drift í átt til peningahyggju. Hún birtist líka í skólaumhverfinu.
Leikskólar hafa frelsi til að móta starf sitt og hugmyndafræði
Leikskólar hérlendis hafa löngum verið bæði líkir og ólíkir, meira líkir samt– ég held því t.d. blákalt fram að um og yfir 80% skólastarfs og hugmyndafræði leikskóla sé sameignleg – hvort sem skólar eru reknir af sveitarfélögum – einkahlutafélögum – eða sameignarfélögum. Ég held að innra-starfið byggi á sameignlegum leikskólagrunni og hugmyndafræði sem hefur verið að mótast s.l. 200 ár Ég held því líka fram og hef fyrir mér mína eigin reynslu sem leikskólastjóri hjá Reykjavíkurborg í 10 ár að frelsi til að þróa starfið innan hins opinbera kerfis sé mjög mikið. Að Aðalnámskrá leikskóla** hafi lítt bundið uppeldislega nýbreytni og þá sem vilja fara aðrar leiðir – ekki gleyma að sú aðferð sem þykir hvað róttækust hérlendis, hjallastefnan, var þróuð innan opinberakerfisins og fjölda leikskóla sem sveitarfélög eiga og reka eru reknir eftir þeirri aðferðafræði. Leikskólar hafa nefnilega hingað til næstum getað verið eins sjálfstæðir og þeim sýnist í hugmyndafræðilegri vinnu sinni.
Hér er myndband frá skóla Macmillan í London frá 1939
http://www.britishpathe.com/video/nursery-days/query/deptford
_______________
** Hér er átt við eldri Aðalnámskrá leikskóla (1999), nýrri er enn opnari.
kd apríl 2007
Sorry, the comment form is closed at this time.