Kristin Dýrfjörð

Leikur ungbarna

lok af dósum

Ung börn hafa mikla þörf fyrir að leika sér. Þau eru sífellt að rannsaka heiminn og prófa sig áfram. Þau rannsaka efnivið með því að handfjatla hann, þreifa á honum velta honum fyrir sér, prófa að setja saman og taka í sundur, stinga honum upp í sig. Þau láta hluti detta í gólfið, skella þeim saman. Þau finna áferð, er hún slétt, hrjúf. Þau skoða liti og mynstur. Þau athuga hvaða hlutir falla saman – hvað kemst ofan í hvað.

Thelma og lokin

Á myndunum má sjá Thelmu rúmlega 10 mánaða leika sér með mismunandi stór lok af krukkum. Hún getur dundað lengi með lokin sín og það er ekki verra ef hún hefur ílát nærri sem hægt er að setja þau í. Hún veltir þeim fram og til baka, skoðar liti, setur lítil lok ofan í stór. Í leiknum þroskast hugmyndir og hún byggir upp þekkingu á m.a. stærðfræði, hún er að flokka og para saman. Hún er að skynja form, liti, stærðir og fjölda, að eins form getur verið verið mismunandi (lokin eru mismunandi bæði af stærð, þykkt og áferð). En hún er líka að þroska fínhreyfingar og samhæfingu handa og augna. Ímyndunarafl hennar eflist við að prófa hvað hún getur gert með leikefnið.

Trú á eigin getu

Thelma er tiltölulega nýfarin að standa sjálf og alein við borð og hluti. Hún getur togað sig upp og hún getur farið á milli staða ef hún hefur þrjá fasta punkta, en til að leika við borð þarf hún bara tvo (fætur fastir- hendur eru frjálsar). Thelma leikur sér standandi og er að fást við að prófa fleiri en  eitt samtímis. Það er hún æfir sig í að halda jafnvægi en samtímis leika sér. Hún er að efla trú sína á eigin getu.

Dósaleikur

Einbeiting og hugmyndaflug

Thelma er einbeitt í leik sínum og leikurinn með lokinn stóð yfir í samfellt um 10 mínútur. En þá var öðrum efnivið (segulkubbar) bætt við leikefnið. Hún lék sér fyrst með kubbana en svo blandaði hún leikefninu saman. Hún setti af tilviljun  kubba og  dósalok saman og þeir festust saman. Þetta bauð upp á fleiri og öðruvísi möguleika í leik. Gefandi og þroskandi efniviður þarf ekki að vera flókin eða dýr, það eina sem þarf er smá hugvit og vilji.

segulkubbar

Tags: , , , , ,

Sorry, the comment form is closed at this time.

Kristín Dýrfjörð er eigandi og ábyrgðarmaður síðunnar