Kristin Dýrfjörð

Lífsplanið mitt

eðlisfræði leikksólakennararÞeir hafa liðið hratt áratugirnir síðan ég ákvað að verða leikskólakennari.  Frá því að ég man eftir mér eru nokkrir þættir í umhverfinu sem mér hafa þótt skemmtilegri en aðrir, mér hefur t.d. alltaf þótt saga og sagnfræði sérlega skemmtileg, í barnaskóla gat ég ekki beðið eftir að þessi fög yrðu hluti af námi mínu, öfundaði eldri systkini mín ógurlega, ég gat dundað mér langar stundir við teiknun, málun, dúkristur og fleira skemmtilegt sem snéri að myndlist, heimspeki hún heillaði sem og uppeldisfræði. Þegar ég valdi mér framhaldsskóla valdi ég skóla þar sem gat sinnt öllu þessu og enn fleiru. Náttúrufræði og vistfræði þóttu mér áhugaverð og enn þann dag í dag bý ég að þeirri kennslu sem ég fékk. Í vistfræði skoðuðum við vatnasvæði Elliðaáa og lærðum um ofvöxt þörunga, eitthvað sem ég hugsa um í hvert skipti sem ég set þvottaefnin í þvottavélina mína.

Að velja mér lífsplan

Eftir stúdentspróf stóðu mér margar dyr opnar, ég íhugaði að sækja um í listnámi, ég hugsaði líka um sagnfræði  og um tíma velti ég bókasafnsfræði  fyrir mér, en á endanum valdi ég það sem hafði reyndar staðið hjarta mínu nærri að læra að verða leikskólakennari. Ég hafði starfað í leikskólum á sumrin og áttaði mig á að í gegn um það nám gat ég samræmt svo margt af mínum áhugamálum. Námið var líka fjölþætt, mikil áhersla á listgreinar,  á sögu og heimspeki menntunar.

Reynslan af lífsplaninu

Eftir útskrift fór ég að vinna í leikskóla fyrir 1-3 ára, á tveggja ára deild. Þar vann ég með skemmtilegum hóp og börnin voru auðvitað frábær. Tveimur árum seinna varð ég leikskólastjóri á leikskóla fyrir 3-6 ára börn. Það reyndi verulega á mig og ég óx og dafnaði faglega og persónulega. Gerði mistök og lærði vonandi af þeim, tók þátt í að móta flottan leikskóla þar sem unnið var af metnaði. Þar sem við, samverkafólk mitt og ég,  náðum að þróa  saman faglegar áherslur sem við vorum og erum enn stolt af.  Okkar einkenni var skapandi starf, áhersla á að skapa og skynja, áhersla á tónlistir og sjónlistir, á læsi, samskipti og stærðfræði.  Áherslur okkar lágu í að framkvæma  gegn um leik. Að börnin upplifðu að lífið í leikskólanum snérist í kring um leik.

Við sem unnum saman við lifðum og hrærðumst í starfinu okkar og við skyldum aldrei að einhverjum öðrum þætti það ekki eins merkilegt og okkur. Seinna bætti ég við mig meira námi en auðvitað á sviði leikskólans.  Ellefu árum eftir að ég varð leikskólakennari varð ég svo háskólakennari, fékk það skemmtilega verkefni að kenna verðandi leikskólakennurum.

Valdi  ég rétt?

Þegar ég horfi til baka og skoða val mitt er ég handviss um að ég valdi rétt. Ég valdi starf þar sem ég gat fengið útrás fyrir hin ýmsu áhugamál mín. Þar sem hver dagur er ólíkur deginum á undan.  það að brautin sem ég valdi mér eftir stúdentspróf var einmitt rétta brautin. Planið mitt var gott plan.

Stundum set ég athugasemdir við það sem er að gerast í umhverfi leikskólans. Það er vegna þess að mér er umhugað um hann og þykir vænt um hann. Ég vil að hann haldi áfram að vera þessi stórkostlegi staður sem ég upplifði og sem ég trú á að hann sé að mestu leyti enn þann dag í dag. Staður þar sem hver dagur er dagur nýrra áskorana og ævintýra.

þeir sem vilja fræðast meira um störf leikskólakennara og nám þeirra er bent á vefinn http://framtidarstarfid.is/

asborg 4

 

Kristín Dýrfjörð, leikskólakennari og dósent við Háskólann á Akureyri.

Sorry, the comment form is closed at this time.

Kristín Dýrfjörð er eigandi og ábyrgðarmaður síðunnar