Kristin Dýrfjörð

Matmálstímar í leikskólum

IMG_0356

Kaffitími í leikskóla Landakots 1978

Nýlega var fjallað um áhugaverða  sænska rannsókn Lenu Ryberg á matmálstímum í leikskólum á norska vefnum barnahagen.no  (árið 2019). Í rannsókninni beindi hún athyglinni að matartímum í einum leikskóla og sérstaklega að hvernig samskipti ættu sér stað í matmálstímum og reglum, skráðum og óskráðum sem þar giltu. Hún komst að því að allt er ekki sem sýnist. Rannsóknin hefur að sjálfsögðu ekkert alhæfingargildi en hún gefur innsýn og ætti að vera öðrum hvatning til að skoða hvernig málum er háttað hjá sér. Hvað er það sem stýrir því uppeldisstarfi sem á sér stað á matmálstímum? Fyrir hvern er það starf? Í hvað fer orkan og tíminn? Eru ef til vill spurningar sem íslenskir leikskólakennarar geta spurt sig. En snúum okkar þá að rannsókn Ryberg.

Samræður og vald

Leikskólinn sem Ryberg skoðaði býður upp á hlaðborð svo börnin (hún rannsakaði matmálstíma á  bæði yngri og eldri deildum), fengu að velja matinn á diskinn sinn en þar lauk svona um það bili sjálfsákvörðunarrétti og frelsi barnanna. Þau þurftu að sitja þar sem kennarar ákváðu og þau þurftu að ræða það sem kennarar vildu. Ef þau til dæmis vildu ræða um hluti sem kennarar höfðu ekki áhuga á eða vildu ekki að væru til umræðu var hlutum (samræðum) eytt eða bara hreinlega tekið af dagskrá og sagt að viðkomandi efni væri ekki til umræðu. Hinsvegar áttu börn til að reyna að ná eignarhaldi á samræðunni, Dæmi um það var barn sem vildi ræða hluti (spil) tengda dægurmenningu, leikskólakennarinn, segir efnið ekki til umræðu, en barnið annað hvort heyrir ekki, eða lætur sem það heyri ekki og hélt áfram að ræða um spilið. Reyndar koma fleiri dæmi fram í rannsókninni sþar em börn nota ýmsar hudunsunaraðferir á það sem „reglan“ segir. Sem er auðvitað merki um seiglu barna og hugmyndarflug.

Dæmi voru um að börn langaði til að sitja með leikfélögum morgunsins og ræða leikinn og það sem þau höfðu verið að gera en reglur um sætaskipan komu í veg fyrir það.

Samræðurnar snérust að litlu leyti um leikskólastarfið, meira og minna um það sem gerist eða gerðist heima. Þannig má segja að leikskólakennarar séu ekki að grípa tækifæri til að þróa t.d. hugsun barna um hugsun í matmálstímum, en ég hef einmitt heyrt marga segja einmitt að það sé það sem þeir óttast að missa við það að sitja ekki til borðs með börnum. Þeir óttast að sögn að ná ekki þessu djúpu samræðum við börnin.

Varðandi samtöl barnanna sá hún að bæði börn sem höfðu yfir að ráða vissum menningarauði (culturalcapital) (kunnu sem sagt borðsiði heiman frá) og elstu börnin í hópnum höfðu meiri völd um það sem rætt var við borðið.

Reglur

Í matartímunum var það kennarinn sem hafði dagskrá valdið og raunar mest vald. Reglurnar við matarborðið eru margar velþekktar, eins og að prófa allan mat, vera stillt, hegða sér vel við borðið og borða fallega. Svo var meginreglan að það borð sem mest hljóð var við, fékk fyrst að fara að hlaðborðinu.  Regla sem gat leitt til þess að sum börn þurftu að bíða allt að 10 mínítur þangað til röðin kom að þeim. Eitthvað sem er verulega umhugsunarvert og má velta fyrir sér á hverju byggi. Það kom líka fram að börnin höndluðu biðtímann misvel, sum áttu ekki erfitt með hann á meðan hann skapaði kvíða og vanlíðan hjá öðrum, Sem braust t.d. út í að þau reyndu að hafa áhrif á  borðfélagana og fá þau til að „hegða sér“.

Í rannsókninni kom í ljós að börn höfðu þróað með sér ýmsar aðferðir til að sleppa undan sumum reglum eins og að smakka allan mat og eru gefin um það  dæmi.  Sjálf kannast ég við nokkrar þeirra af eigin skinni. Það er nefnilega ekkert nýtt að börn vilja ekki smakka allan mat.

Annað sem var áhugavert að lesa var hvað mikil áhersla var lögð á alla vega borðreglur, t.d. hvernig átti að sitja eða skilja við stólinn og áhöldin og allir sátu saman í matnum.

Ryberg sagði t.d. frá stúlku sem fór frá borðinu án þess að ganga frá stólnum sínum, lítil drengur leiðrétti, fyrsti í orði og svo verki. Það er þegar hún gekk ekki frá stólnum gerði hann það og fékk bæði staðfestingu frá kennaranum og hrós.

Heilbrigt samband við mat

Í samtímanum þegar við vitum að við þurfum að vinna með heilbrigt samband barna við mat, skiptir enn meira máli að við ræðum matartíma og hvaða grunngildi við viljum leggja út frá. Það er líka nokkuð ljóst að matur og matarmenning á sér djúpar rætur og við notum mat sem tengingu  til dæmis á milli menningarheima og milli kynslóða. Að vinna upp raunverulega matarstefnu sem tekur ekki bara á því hvort eldað er frá grunni og unnum matvælum er úthýst, skiptir máli. Að við hugsum um mat, matargerð og matmálstíma í víðu samhengi. Að þar gefast stórkostleg tækifæri til samskipta, valdeflingar, sjálfsbjargar og sjálfsþekkingar sem og hugmyndaflugs er eitthvað sem við ættum að íhuga. Matur, matseld, matmálstímar og matarmenning eru stórir þættir í allri umræðu um sjálfbærni. Þetta eru stundir þar sem unnið er að hinum ýmsum heimsmarkmiðum og á að taka alvarlega.

Íslenskur veruleiki

Ég velti fyrir mér hvernig þetta sé hjá okkur. Hafa matmálstímar í leikskólum þróast s.l. 30 ár eða svo. Þegar ég hóf störf  fyrir um 40 árum sátum við ekki til borðs en hjóluðum í kring um börnin í þjónustuhlutverkum. Seinna fékkst það inn að við borðuðum og að við greiddum ekki fyrir matinn vegna þess að við værum að sinna uppeldisstarfi. Börnunum var samviskulega raðað niður á borð með sínum hópi og sínum kennara, undantekningar voru morgunmatur og sums staðar síðdegishressing. Mín reynsla er að oft er hugmyndafræði og uppeldisfræði matartíma órædd í leikskólum, jafnvel svo að það er misjafnt á milli deilda hvaða reglur ríkja. Oft eru einmitt ólíkar reglur í matartímum núningsfletir á milli starfsfólks.

En það er auvðitað ekki allstaðar, sem dæmi þá tók leikskólinn Aðalþing sig til fyrir nokkrum árum og breytti matmálstímum. Þar var tekið skref lengra en hlaðborð (eins og svíarnir höfðu þá nokkuð tekið upp) og börnin hafa frjálsa sætaskipan og fullorðnir sitja ekki með þeim til borðs ásamt ýsmu fleiru sem gert var (um verkefnið má lesa á vef Aðalþings). Ég veit að margir höfðu áhyggjur af ýmsu þegar breytingarnar voru fyrst kynntar. Sumir höfðu áhyggjur af því að börnin mundu ekki borða nóg, aðrir að missa af tækifæri til djúpra samræðna við börnin, enn aðrir höfðu áhyggjur af börnum með greiningar og svo var mögulegur hávaði. Í Aðalþingi lagði Guðrún Alda Harðardóttir í rannsókn innan leikskólans þar sem hún skoðaði þessi atriði, sumt kemur fram á vefnum en annað hefur hún því miður ekki birt.

Það væri óskandi að til dæmis væri gerð sambærileg rannsókn á Íslandi og gerð var í Svíþjóð, bæði í leikskólum sem enn halda sig við hefðbundna matartíma og þar sem fólk hefur valið að skoða og breyta.  En ég veit ekki til þess að það hafi verið gert. Svo væri auðvitað áhugavert að vita hvernig matartímum er almennt háttað í íslenskum leikskólum.

 

Heimildir

Vefur Barnehagen.no HÉR

Rannsókn Lena Ryberg HÉR

Vefur Aðalþings um matarmenninguna þar og skýrsla til Þróunarsjóðs – HÉR

og hér er tengill á aðra grein um matmálstíma – norsk rannsókn Ellen OS.

Tags: ,

Sorry, the comment form is closed at this time.

Kristín Dýrfjörð er eigandi og ábyrgðarmaður síðunnar