Kristin Dýrfjörð

Mótandi áhrif málsins

Innan leikskólafræðanna hefur fólk verið upptekið af mótun starfsins í gegnum málið. Það var ekki að ástæðulausu að leikskólakennarar lögðust eftir því að fá bæði starfsheiti sínu og samnefnara fyrir vinnustaðinn breytt. Þegar menntun leikskólakennara hófst hér 1946 varð fóstruheitið fyrir valinu, en það hafði áður verið notað um þær stúlkur sem unnu við smábarnauppeldi. Fóstruheitið varð ofan á þrátt fyrir að Valborg Sigurðardóttir (1998) hafi óbeint lagt til að starfsheitið leikskólakennari væri tekið upp. Þegar saga Fósturskóla Íslands er lesin má oft sjá rætt um „fagmenntaðar“ fóstrur, sem gefur til kynna þau vandamál sem fólust í að nota fóstruheitið, enda heitið eldra í málinu en menntunin. Steingrímur Arason skrifar t.d 1948 um nauðsyn þess að mennta fóstrur til þess að þær héldust við í starfi, „þegar búið var að gera stúlkurnar að fyrirmyndafóstrum, hurfu þær oftast frá starfinu“ (í Davíð Ólafsson, 2000, bls. 20).

Af hverju fóstra?

Kannski að upprunalega ástæða þess að fóstruheitið varð fyrir valinu hafi verið tilvísun til fornra texta. Það að senda börn í fóstur eða að börn voru fóstruð annars staðar en heima var alþekkt. Fóstruheitið minnti líka á það að hlutverkið væri að vera staðgengill móður en slík viðhorf hafa löngum fylgt starfinu. Dæmi um það er viðtal við nokkra nýútskrifaðar fóstrur í Morgunblaðinu 1967. Þar segir ein þeirra að „að starf fóstrunnar sé að vera sem móðir fyrir börnin — koma þeim í móðurstað, þegar móðirin er víðsfjarri“ („Að vera börnunum sem móðir“, 1967). Fóstrustarfsheitið hafði því beina tilvísun til hefðbundins kynhlutverks.

Rómantísk sýn til starfa fóstra og hlutverks barna

Þegar Fósturfélag Íslands varð 40 ára fékk það gjöf frá þáverandi menntamálaráðherra, Svavari Gestssyni; styttuna Ung móðir eftir Einar Jónsson – en hún er af konu að gefa barni brjóst. Stytta, sem er í raun táknmynd þess sem fóstrur töldu sig ekki vera, og ímynd sem þær vildu fjarlægjast. Styttan er fulltrúi þeirrar rómantísku sýnar sem löngum hefur fylgt uppeldi ungra barna, að þau séu varnarlaus og það sé hinna fullorðnu að bæði verja þau og samtímis að móta þau. Þannig nærir fóstran barnið samtímis því að skapa rétt umhverfi og skilyrði sem leiði til þess að barnið þroskist. Hér er byggt á hugmyndum frá bæði Rousseu og Fröbel. Báðir notuðu þeir garða sem líkingamál þegar þeir ræddu um uppeldi barna. Að fóstrur yrki börn varð lífseigt viðhorf – ekki bara á Íslandi, heldur víðar um hinn vestræna heim. Það þarf ekki annað en að líta til þeirra hugtaka sem notuð eru um leikskóla, kindergarten, börnehave. Meira að segja var hérlendis rætt um barnagarða, svo dæmi séu nefnd.

Forskóli – forskólakennari

John Dewey er á meðal hinna fyrstu til að gagnrýna líkingamálið. Hann innleiddi hugtakið preschool, eða forskóli. Þess ber þó að geta að jafnframt því sem hann vildi breyta menntun ungra barna vildi hann líka gjörbylta skólakerfinu. Þannig að forskóli hans átti ekki að verða forskólun eða beinn undirbúningur fyrir hinn hefðbundna grunnskóla. Hann hafði ekki mikla trú á skólum sem ekki tækju breytingum og sem ekki væri í tengslum við veruleikann utan skólans. Að hans mati á skóli að vera hluti af samfélaginu og endurspegla það besta á hverjum tíma. Því miður þróaði hann grunnskólahugmyndir sínar ekki eins vel og leikskólahugmyndirnar, en hugmyndafræði hans hefur þó haft gríðarleg áhrif á hugmyndir manna um lýðræðislega skóla sem byggja á því að virkja hugsun og reynslu barna og ungmenna.

Með hugtakinu forskóli og forskólakennari var sleginn nýr strengur í hugtakaflóru þeirra sem sinntu menntun yngstu borgaranna. Á Íslandi greiddu fóstrur t.d. atkvæði um hvort þær ættu að taka upp hugtakið forskólakennari. Því var hafnað oftar en einu sinni. Það var ekki fyrr en með lögum um leikskóla árið 1991, þegar forstöðumenn fengu starfsheitið leikskólastjóri og stofnanirnar fengu starfsheitið leikskólar, að fóstrur samþykktu nýtt starfsheiti, leikskólakennari, en það gerðu þær með atkvæðagreiðslu 1994 (Davíð Ólafsson, 2000).

Kennarastétt

Hins vegar hefur lengi verið ljóst að þrátt fyrir að hafna forskólakennaraheitinu hafa fóstrur litið á sig sem kennarastétt. Til dæmis sóttust þær eftir að verða aðilar að Kennarasambandi Íslands við stofnun þess 1977 en var hafnað vegna mótmæla Sambands íslenskra barnakennara (Davíð Ólafsson, 2000). Á Norðurlöndunum var hugtakið forskólakennari víða notað og hafði það sín áhrif hér. Svo dæmi sé tekið þá var nefndin, sem vann að frumvarpi til laga um leikskóla, nefnd forskólanefnd og átti samkvæmt því sem fram kom í ræðu þáverandi menntamálaráðherra Svavars Gestssonar; „að skapa ramma um nýtt skólastig, forskólastig, fyrir börn undir skólaskyldualdri“ (Svavar Gestsson, 1990-1991). Leikskólakennarar í nefnd menntamálaráðuneytisins um frumvarpið börðust fyrir samheitinu leikskóli, með tilvísun til þess að þar færi fram menntun í gegnum leik og varð það ofan á (Svandís Skúladóttir, 2010).

Glíma leikskólakennara við hugtök

Af ofangreindu má vera ljóst að leikskólakennarar hafa lengi velt fyrir sér hugtökum og áhrifum þeirra. Fyrst eftir að leikskólakennarar lögðu niður fóstruheitið og tóku upp leikskólakennaraheitið héldu fjölmiðlafólk og almenningur iðulega áfram að tala um fóstrur í opinberri umræðu. Margir leikskólakennarar notuðu hvert tækifæri til að gera athugsemdir við slíkt, og fékk stéttin gjarnan að heyra að hún væri ofurviðkvæm – þetta skipti ekki máli. Sama má að hluta til segja um leikskólaheitið, þrátt fyrir að „dagheimilistalið“ hafi ekki verið jafn lífseigt og hugtakið fóstra. Það hversu hart leikskólakennarar börðust fyrir breytingu á starfsheiti og heiti stofnana bendir til þess að þeir hafi vel gert sér grein fyrir áhrifum þess á ímynd og viðhorf til viðkomandi stofnana í samfélaginu.

Amma Dreki

Fóstrur voru sannfærðar um að með breyttri hugtakanotkun og hugsun hjá þeim sjálfum tækist að sveigja hugmyndir fólks frá því annarsvegar að álíta fóstrur einhvers konar staðgengla mæðra yfir til þess að vera kennarar. Hinsvegar frá því að líta á leikskólana sem heimili að heiman, til þess að vera staður sem menntun á sér stað. Í tengslum við stofnun stéttarfélags fóstra leiddi nýkjörinn formaður þess, Selma Dóra Þorsteinsdóttir, fundarherferð um landið sem bar heitið Amma dreki veturinn 1990 -1991. Amma dreki er tilvísun til bókar Guðrúnar Helgadóttur um Jón Odd og Jón Bjarna, en amman í bókinni talar einmitt fyrir menntun kvenna, sjálfstæði þeirra og fagmennsku. Amma dreka herferðin byggðist á því að styrkja fagmennsku og ímynd fóstrustéttarinnar. Markmið herferðarinnar var: „Að efla stéttarímynd hverrar einustu fóstru og að fá fóstrur til að gera sér grein fyrir ábyrgð sinni í þjóðfélaginu“ (Unnur Jónsdóttir, 1990 bls, 15). Til að stéttin öðlist virðingu yrðu fóstrur að bera virðingu fyrir sér og temja sér ýmislegt sem einkenndi fagstéttir. Meðal þess eru siðareglur (sem hún setti sér fljótlega eftir stofnun stéttarfélagins, eða árið 1993), og það að starf fóstru væri hennar aðalstarf og að hver fóstra yrði að vera skuldbundin starfi sínu og stétt. Í kjölfarið sköpuðust miklar umræður. Þær fóstrur sem störfuðu hálfan daginn fannst t.d. að sér vegið og töldu sig ekki minni fagmenn en hinar.

Færslan er hluti af greininni: Er leikskólinn sólkerfi, reikistjarna eða tungl? Eftirnýlenduvæðing leikskólahugmyndafræðinnar, sem kom út 2011 í Rannsóknir í félagsvísindum XII: félags- og mannvísindadeild : erindi flutt á ráðstefnu í október 2011 ; s. 381-388.

Tags: , , ,

Sorry, the comment form is closed at this time.

Kristín Dýrfjörð er eigandi og ábyrgðarmaður síðunnar