Kristin Dýrfjörð

Orðsporið – Framtíðarstarfið

Forseti Íslands og aðrir gestir

Frá afhendingu Orðsporsins 2017. Aftari röð: Þórður Árni Hjaltested, formaður Kennarasambands Íslands, Ásta Magnúsdóttir, ráðuneytisstjóri mennta- og menningarmálaráðuneytis, Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands. Fremri röð: Klara E. Finnbogadóttir, sérfræðingur hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Kristín Dýrfjörð, dósent við Kennaradeild Háskólans á Akureyri, og Arna H. Jónsdóttir, lektor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands.

Barnavinafélagið Sumargjöf var stofnað 1924 til að mennta íslensk börn, það hét reyndar eitthvað annað á þeim tíma, forða ungum börnum frá frá soll, götulífi og vondum húsakynum, en menntun var það sannarlega sem upp á var boðið. Seinna stóð Sumargjöf, að áeggjan Þórhildar Ólafsdóttur forstöðukonu í Laufásborg sem þá var nýkomin heim með nýjar hugmyndir úr skóla sjálfrar Ölfu Myrdal, (sem fékk svo seinna friðarverðlaun Nóbels fyrir störfu í þágu barna og friðar) fyrir því að stofna uppeldisskóla til að mennta fóstrur, konur, sem ættu að starfa og leiða nám barna í leikskólum og dagheimilum þess tíma, metnaðurinn var mikill. Frá stofnun Sumargjafar og nálægt þeim tíma er uppeldisskólinn var stofnaður var Steingrímur Arason, formaður, hann var barnakennari sem sótti sér menntun bæði til Colombia háskólans, þar sem hann nam hjá sjálfum Dewey og seinna bætti hann við sig námi Kalíforníuháskóla. Hann tók líka þátt í að móta og stofna UNCESCO, Menningarstofnun Sameinuðu Þjóðanna fyrir Íslands hönd. Hann starfaði lengstum við Kennaraskólann og má segja að reynsla þeirra er stóðu að menntun leikskólakennara í upphafi, var mikil og sprotar komið víða að  [ekki má heldur gleyma áhrifum Valborgar Sigurðardóttur, fyrsta skólastjórans]. Við upphaf hins nýja skóla og reyndar lengstum á líftíma hans, gekk vel að fá fólk til að mennta sig, eftirspurnin var þannig að mörgum var vísað frá.

Nám á háskólastigi

Þegar lagt var stað við Háskólann á Akureyri 1996 og boðið upp á nám fyrir leikskólakennara á háskólastigi, þá í fyrsta sinn hérlendis, töldu margir það óheillaþróun, til hvers þarf fólk háskólapróf til að skeina krökkum?, var á meðal spurninga sem nemarnir okkar fengu og því miður er enn fólk sem ekki áttar sig á mikilvægi þessa fyrsta þroskaskeiðs og þess að næmir og vel menntaðir leikskólakennarar starfi með börnum. En frá því að Háskólinn á Akureyri hóf að mennta leikskólakennara höfum við brautskráð á sjötta hundrað verðandi leikskólaskólakennara. Við höfum sannarlega lagt okkar lóð á vogarskálar menntunar yngstu borgaranna, skipt máli. En við höfum líka gengið í gegn um niðursveiflu, vorum við það deyja drottni okkar. Margar ástæður lágu að baki sem ekki verða greindar hér. Eitt af því sem við ákváðum að gera sem deild, allir kennarar kennaradeildar Háskólans á Akureyri var að taka þátt í kynningu um námið. Við skiptum á milli okkar að hringja í hvern einasta leikskóla á landinu og ræða við leikskólastjóra um mikilvægi menntunar og það nám sem við buðum upp á við skólann. Við vissum sem er og var að í leikskólum starfar margt fólk með fullnægandi undirbúning sem sumt þarf bara að fá hvatningu til að leggja af stað á lærdómsbrautir háskólanna. Þegar ég spurði samkennara hvað það væri sem stæði upp úr er varðar átak til að fjölga kennaranemum, komu þessar hringingar upp í huga þeirra, kannski sérstaklega þeirra sem ekki eru með leikskólakennaramenntun. Þeir segja mér sumir að þeir hafi við þetta öðlast meiri nánd og skilning, tengst leikskólastiginu.

Átak er púls

Við sem höfum verið viðloðandi leikskólann jafn lengi og ég og mörg önnur hér inni, vita sem er, að átak er eins og púls, hann slær á meðan hann slær, stundum er hann einangrað fyrirbæri. En til að tryggja yngstu borgurunum okkar bestu mögulegu menntun þarf meira, púlsinn þarf að vera stöðugur og sterkur, lífæð leikskólanna liggur við.

Ég minntist  hér að framan á Steingrím Arason, kannski aðallega af því að ég var að lesa bernskuminningar hans um helgina. Hann var einn af þeim sem hvað fyrstur færði okkur hugmyndir Dewey sem svo margir leikskólar samtímans leita til um heimspekilegar áherslur. Og það var Dewey sem sagði eitthvað á þá leið að hvert samfélag ætti að óska börnum sínum þeirra menntunar sem þeirra bestu foreldrar óskuðu sínum börnum. En til að hægt sé að bjóða börnunum upp á bestu mögulegu menntun verður fyrst að mennta kennarana þeirra. Við sem samfélag verðum að taka höndum saman, tala upp starfið og menntunina, leikskólar verða að nota tækifærið í tengslum við daga sem þennan, opna glugga inn í starfið svo samfélagið sjái og skynji mikilvægi þess. Ábyrgð okkar sem erum innan háskólanna er líka mikil, við verðum að standa saman að þessu mikilvæga samfélagverkefni.

Takk fyrir

 

Erindi flutt á Degi leikskólans í tilefni veitingu Orðsporsins 2017 sem veitt  var verkefninu Framtíðarstarfið.

 

Upplýsingar um Framtíðarstarfið má finna á vefnum

FRAMTíÐARSTARFIÐ hér  http://framtidarstarfid.is/

og um Orðsporið 2017 hér

http://ki.is/rss/3734-framtidharstarfidh-hlaut-ordhsporidh-2017

 

Sorry, the comment form is closed at this time.

Kristín Dýrfjörð er eigandi og ábyrgðarmaður síðunnar