Óstaðlaðir leikskólar
Síðustu 30 ár hafa margir leikskólar hérlendis og erlendis valið að kenna sig við hugmyndafræði sem ættuð er frá bænum Reggio Emilia á Ítalíu. Leikskólastarfið Í Reggio er víðfrægt og má nefna að margir helstu alþjóðlegu fræðimenn og hugmyndafræðingar um leikskólauppeldi eru þar fastagestir og leikskólarnir hafa verið valdir með því besta í heimi. Hugmyndafræðinni kynntust íslenskir leikskólakennarar upp úr 1980 og hún heillaði marga.
Á Íslandi hefur leikskólastarf verið gróskumikið og hér þekkjum við leikskóla sem kenna sig við alls konar strauma og stefnur. Þar mætti bæði nefna hugmyndafræði Hjallastefnunnar og Grænfánann. Þær eiga það sameiginlegt að til að geta kennt sig við viðkomandi stefnu þarf fólk að uppfylla skilyrði og jafnvel kaupa efni og námskrár frá viðkomandi eigendum. Ef leikskóli ætlar t.d. að fá Grænfánann fær hann handbók, verður skóli á grænni grein og fer að innleiðingarferli loknu í sérstaka úttekt. Að henni lokinni fær leikskólinn eða fær ekki viðurkenningu.
Hins vegar ef leikskóli ætlar að starfa í anda Reggio er engin slík vottun til. Það er andstætt hugmyndafræðinni að setja staðla og reglur um hvað sé í þeirra anda og hvað ekki. Hvers vegna er það? Jú, m.a. vegna þess að í Reggio telur fólk leikskólastarf snúast um nokkur lykilatriði.
Eitt þeirra er að skoða með opnum hug nýjar rannsóknir og þekkingu og meta hvernig þau geta nýtt hana til að bæta starfið. Þau vilja vera í samræðu við samfélagið og umheiminn – samræða er alltaf í fleiri en eina átt. Að setja staðal er því andstætt þessu grundvallarviðhorfi. Aðrar áherslur þeirra eru á að hlusta á barnið með öllum skilningarvitum, á öll tungumál barnsins, að gefa tækifæri til sköpunar og gagnrýninnar hugsunar. Sjálfbærni er ennfremur eitt lykilhugtaka.
Einkenni leikskóla sem starfa í reggioískum anda
Í mínum huga er í raun tvennt sem einkennir leikskólastarf í Reggio öðru fremur. Annað er það sem þau kalla sýn til barna. Að barnið sé haft með í ráðum og að barnið ráði við að vera með í ráðum, að grunnstef starfsins sé trú á getu barna. Þess vegna er hitt atriðið sem einkennir starfið í Reggio mér einkar hugleikið, en það er lýðræði. Lýðræðið nær ekki bara til starfsins með börnunum heldur til stjórnunar, til samstarfs við foreldra og samfélagsins í heild. Þar sem fólk í raun trúir að það þurfi heilt þorp til að ala upp barn svo vel sé.
Á Íslandi eru margir leikskólar sem hafa valið að vera í hugmyndafræðilegu samtali við Reggio, stundum kallaðir Reggio-skólar þó svo að auðvitað séu þeir það ekki. Enginn leikskóli nema leikskólar í Reggio eru Reggio-skólar. Við hin getum hins vegar lært með þeim og af þeim. En vegna þess að það er í raun hvers leikskóla að ákveða hvað hann tekur úr hugmyndafræði Reggio Emilia eru þeir leikskólar sem starfa í þeim anda mjög ólíkir.
Sem dæmi starfa bæði leikskólinn Sæborg í Reykjavík og Holt í Reykjanesbæ í þeim anda. Báðir skólarnir leggja áherslu á sköpun. Sæborg hefur staðið einna fremst í flokki þeirra leikskóla hérlendis sem hafa unnið með og tengt saman nærumhverfi og listir. Sýning á Kjarvalstöðum síðastliðið vor og verk þeirra í Þjóðminjasafninu eru merki um það. Á Holti var farið í samstarf um skipulag útinámsvæðis með bæjarfélaginu og arkitektum. Þar sem leitað var raunverulegs álits barnanna og það nýtt í skipulagsvinnunni.
Í Aðalþingi í Kópavogi er áherslan á sjálfbærni í anda Reggio, þar er mikið af endurnýtanlegum efnivið en líka áhersla á lýðræði í barnahópnum. Þar er t.d. matstofa þar sem börnin bjarga sér algjörlega sjálf og hafa val um bæði mat og sætisfélaga. Í Stekkjarási í Hafnarfirði er áhersla á útinám og að vinna með endurnýtanlegan efnivið og er það sá leikskóli sem fyrstur tók upp efnisveitu innan skólans.
Að lokum ætla ég að nefna leikskólann Marbakka í Kópavogi sem ákvað að starfa í þessum anda fyrir um 30 árum fyrstur íslenskra leikskóla og helgar sig enn „reggioískum“ vinnubrögðum. Þeir sem koma inn í leikskóla sem starfa raunverulega í anda Reggio sjá að þeir eiga margt sameiginlegt en líka að þeir eru eins ólíkir og þeir eru margir. Að hver leikskóli ber svipbragð af þeim sem þar starfa og því samfélagi sem hann er í. Að það er ekki til neinn staðall og að hver leikskóli skilgreinir samræðu sína við Reggio.
Samræða á Íslandi
Hluti af því að vera í samræðu er að eiga ígrundað og reglulegt samtal við aðra, bæði þá sem starfa í sama anda og þá sem geta ögrað viðteknum hugmyndum og þekkingu. Til þess að eiga í þessari nauðsynlegu samræðu ræða leikskólakennarar í „reggíóískum“ leikskólum oft saman, þeir eiga hlut í vefsamfélögum, innlendum og erlendum, sækja námskeið erlendis bæði á Norðurlöndum og í Reggio.
Nú ber hins vegar svo við að fólkið í Reggio ákvað að koma til Íslands 7. og 8. mars nk. og bjóða upp á samræður við þá sem áhuga hafa. Aðalfyrirlesarinn verður Amelia Gambetti, en hún er ein þeirra sem lögðu grunninn að leikskólastarfinu í Reggio Emilia. Þau ætla að segja frá hvernig það þarf heilt þorp til að ala upp barn, hversu miklu máli skiptir að bæði þeir sem eru í pólitík og þeir sem eiga börn í leikskólunum eða starfa þar, tali saman. Að það sé samfélagslegt verkefni að reka leikskóla og það gangi ekki upp nema allir séu samtaka.
Þarna gefst því fólki sem hefur valið að leita hugmyndafræðilega til Reggio tækifæri til að heyra frá frumkvöðlum leikskólastarfsins þar og þeim sem áhuga hafa á starfinu þar býðst tækifæri til að vita meira. Sérstaklega held ég að stjórnmálafólk hefði gagn af að heyra hvernig nútíma framúrskarandi leikskólastarf er skipulagt. Ráðstefnan er öllum opin. Til að skrá sig þarf að „gúggla“ heimasíðu Reggio Children en þar er allar nánari upplýsingar að finna.
Birtist sem grein á skoðun á www.visir.is þann 21. febrúar 2014
Sorry, the comment form is closed at this time.