Kristin Dýrfjörð

2. Aðlögun – upphaf leikskólagöngu

DSC08648Markmið aðlögunar, hvort sem um hefðbundna eða þátttökuaðlögun er að ræða, eru margþætt og snúa að barninu, fjölskyldunni og samfélaginu innan leikskólans sem utan. Í Aðalnámskrá leikskóla (Mennta- og menningarmálaráðuneytið, 2011) segir að við upphaf leikskólagöngu sé lagður hornsteinn að samstarfi foreldra og leikskóla. Það, hvernig staðið er að upphafinu, hvaða áherslur eru ríkjandi og hvaða vinnubrögð leikskólar velja, eru því líklegir áhrifaþættir um hvernig til tekst. Innan leikskólans hefur aðlögun lengst af verið með afar hefðbundnu sniði, áherslan hefur verið á einstaka barn og líðan þess. Með nýrri aðalnámskrá er áherslan færð frá barninu yfir á samstarf foreldra og leikskólakennara. Eða eins og segir í Aðalnámskrá leikskóla þar sem fjallað er um upphaf leikskólagöngu:

Þar gefst foreldrum tækifæri til að kynnast starfsháttum, hugmyndafræði og námskrá leikskólans og starfsfólk leikskólans fær upplýsingar um barnið, aðstæður þess, reynslu og áhugasvið. Á þessum gagnkvæmu upplýsingum byggjast fyrstu skref barnsins í leikskólanum. Foreldrar þurfa strax í upphafi að fá þau skilaboð að framlag þeirra sé mikils metið og litið sé á þá sem mikilvæga samstarfsaðila. Starfsfólki ber að leitast við að ná til foreldra allra barna. (Mennta- og menningarmálaráðuneytið, 2011; bls 32)

Af framansögðu er ljóst að það, hvernig til tekst við upphaf leikskólagöngu barna, er talið mikilvægt fyrir það andrúmsloft og samstarf sem á eftir kemur. Sama sjónarmið var jafnframt greinilegt í eldri Aðalnámskrá leikskóla, en þar var sérstaklega fjallað um aðlögun og hvernig bæri að standa að henni í samstarfi við foreldra.

Í upphafi leikskólagöngu barns þarf að gefa því góðan tíma til að aðlagast leikskólanum. Aðlögunartíma ber að skipuleggja í samráði við foreldra. Náin tengsl við tiltekinn leikskólakennara eru mikilvæg fyrir farsæla aðlögun barnsins. Sami leikskólakennari skal því helst taka á móti barninu og foreldrum þess í upphafi leikskólagöngu og bera ábyrgð á aðlögunarferlinu. Foreldrar skulu á aðlögunartímanum fá tækifæri til þess að dvelja með barninu og kynnast um leið leikskólanum og starfsháttum hans. (Menntamálaráðuneytið, 1999, bls. 31)

Þegar textar nýrri og eldri gerðar aðalnámskrár eru bornir saman má sjá að í nýrri aðalnámskrá fyrir leikskóla (Mennta- og menningarmálaráðuneytið, 2011) er hugtakið aðlögun ekki að finna og áherslur eru aðrar í tengslum við foreldrasamstarf. Í aðalnámskránni frá 1999 er athyglinni aðallega beint að barninu og leikskólakennurum. Foreldrum og hlutverki þeirra er minni gaumur gefinn. Í gildandi aðalnámskrá er áherslan á að upphaf leikskólagöngu sé sameiginlegt verkefni, sem verði að byggjast upp á gagnkvæmri virðingu og samstarfi og ef eitthvað er, þá er hlutverki foreldra lyft og jafnvel má segja að umfjöllun um barnið sjálft sé í mýflugumynd í þeim kafla (Mennta- og menningarmálaráðuneytið, 2011).

Nýrri aðalnámskrá hefur verið að vinna sér sess og nýjar áherslur í hugtakanotkun orið hluti af því sem nefna má orðræðu leikskólakennarastéttarinnar. Það getur tekið tíma að úthýsa hugtökum eins og aðlögun sem telja verður að eigi sér djúpar rætur í leikskólamenningunni. Sem dæmi má nefna að í Aðalnámskrá leikskóla árið 1999 var hugtakið foreldrasamtal lagt til í stað foreldraviðtals. Það er hinsvegar undantekning ef hugtakið foreldrasamtal er sett í skólanámskrá og/eða á heimasíður leikskóla. Foreldraviðtöl virðist enn vera ráðandi orðnotkun.

Norræn fyrirmynd

Aðlögun í leikskólum á Íslandi hefur lengst af verið byggð á fyrirmynd frá Norðurlöndunum og bækur þaðan notaðar sem stuðningur við kennslu um aðlögun og foreldrasamstarf (sjá t.d. Andersen og Rasmussen, 1996; Niss, 1989; Sträng og Persson, 2003). Eitt helsta markmið aðlögunar hefur lengst af verið að létta börnunum aðskilnaðinn frá foreldrum og stuðla að öryggi þeirra í nýjum aðstæðum (Arnesson-Eriksson, 2010; Andersen og Rasmussen,1996; Engdahl, 2012; Simonsson og Thorell, 2010). Áherslan hefur verið á að það sé barnið sem sé að læra að vera í nýjum aðstæðum, sé að takast á við að vera aðskilið foreldrum en athyglinni hefur minna verið beint að foreldrum og leikskólakennurum – eins og greinilega kemur fram í aðalnámskránni frá 1999. Annað markmið aðlögunar er að byggja upp traust á milli leikskólans og foreldra eins og sjá má í aðalnámskrám frá 1999 og 2011 þar sem kveðið er á um mikilvægi þess að foreldrar nái að kynnast starfsháttum leikskólans og að skapa traust milli aðila. Traust sem er grunnur að öllum samskiptum og samstarfi árin sem barnið er í leikskólanum.

Í hnotskurn má segja að helsta breytingin á milli námskráa sé að í aðalnámskrá frá 2012 er áhersla á að leikskólaganga barna sé sameiginlegt verkefni leikskólans og heimila þar sem setja á velferð barnsins í fyrirrúm og aðilar verði að leggja sig fram um að hlusta á hvern annan (Mennta- og menningarmálaráðuneytið, 2011). Það er ekki lengur lagt til að barn tengist einni persónu eða fjallað um að farsæld þess sé háð því í hversu nánu tilfinningasambandi við leikskólakennara barnið er. Útfærsla og hugmyndafræði að baki upphafs leikskólagöngu eru sett í hendur leikskólans.

Mismunandi sjónarhorn bak aðlögunar

Eins og framan greinir er hin nýja aðlögunaraðferð Íslandi ættuð frá Svíþjóð. Þegar farið er yfir þá umfjöllun sem þar er að finna má sterklega greina tvö sjónarhorn; annarsvegar hið sálfræðilega sjónarhorn, sem byggir á tengslakenningum og hins vegar hið félagslega, þar sem litið er á barnið sem geranda og virkan þátttakanda í að móta eigið líf frá fyrstu stundu. Fulltrúar fyrri sjónarmiða hafa varað við þátttökuaðlöguninni og telja að ekki sé nægilega hugað að sáfræðilegu öryggi og trausti barna þegar þeirri aðferð er beitt meðal annars vegna þess að verið sé að aðlaga mörg börn samtímis og því tækifæri fyrir leikskólakennara að tengjast hverju þeirra utan að ekki sé gefin nógur tími í aðlögunina. Afleiðingin sé sú, að barnið fái ekki nægan tíma til að mynda tengsl við tiltekna persónu (Broberg, Hagström og Broberg, 2012).

Yfirleitt, þegar verið er að ræða um aðlögun, er gengið út frá því að barnið sé að kynnast heiminum utan veggja heimilisins í fyrsta sinn án foreldra. Í því sambandi er mikilvægt að hafa í huga að ríflega 40% barna í stærstu sveitarfélögum landsins  hafa verið hjá dagforeldrum í lengri eða skemmri tíma áður en þau hefja leikskólagöngu sína. (Hagstofa Íslands, 2014b). Því hefur stór hluti barna í árgangi farið í gegnum aðskilnaðarferlið áður en þau hefja leikskólagöngu. Annað, sem vert er að benda á, er að bæði í Svíþjóð og á Íslandi er fæðingarorlof lengra en í mörgum þeim löndum sem rannsóknir á tengslamyndun eiga sér stað.

Í umfjöllun Dalli (2002) kemur fram að hluti þess, sem foreldrum finnist mikilvægt, sé að skapa tengsl og traust á milli heimila og leikskóla. Hún telur að það hinsvegar einföldun á því sem á sér stað í aðlögunarferlinu að horfa fyrst og fremst á aðskilnaðinn og áhrif hans. Aðlögun sé mun flóknara ferli og fleira sem eigi sér stað t.d. varðandi samskipti foreldra og leikskólakennara og nám barnsins. Hún bendir á að verið sé að byggja upp samspil milli fjölskyldna og leikskóla á aðlögunartímanum og hluti af þeirri uppbyggingu er sú orðræða sem byggt er á. Aðlögun er mikilvægur hluti af leikskólastarfi, þar er lagður grunnur að samskiptum og trausti milli heimila og leikskóla og hún er verðugt viðfangsefni rannsókna.

DSC08649

Kristín Dýrfjörð er eigandi og ábyrgðarmaður síðunnar