6. Samstarf og brúarbygging
Margt er sameiginlegt með einstaklingsaðlögun og þátttökuaðlögun. Báðar aðferðir hafa það að markmiði að auka öryggiskennd barnanna og byggja upp góð tengsl milli starfsfólks leikskóla og foreldra. Báðum er ætlað að vera brú á milli tveggja heima. Það sem skilur að er e.t.v. fyrst og fremst sýn til leikskólastarfs og viðhorf til barna og þar af leiðandi hvernig aðlöguninni er stillt upp gagnvart foreldrum og börnum. Það er töluverður munur á að segja að fjölskyldan sé að læra að vera í aðstæðum eða að það að byrja í leikskóla sé síðbúin klipping á tilfinningalegan naflastreng barns og (í flestum tilfellum) móður.
Dahlberg, Moss og Pence (1999) eru fulltrúar póstmódernískrar hugmyndafræði innan leikskólafræðanna. Þau telja að leikskólinn eigi ekki að vera staðgengill heimilisins og starfsfólkið þar af leiðandi ekki staðgenglar foreldra. Þau telja að leikskóli sé samfélag þar sem fullorðnir og börn byggja upp þekkingu saman, staður námstækifæra. Barnið sé hvorki valdalaust né skoðanalaust peð, heldur tekur það virkan þátt í að móta umhverfi sitt og þekkingu. Það má ef til vill flokka hugmyndafræði þátttökuaðlögunarinnar í þeim anda. Hún byggist á því að ekki sé verið að venja barnið við að vera skilið eftir í leikskólanum, heldur að þar sé það að læra að vera í nýjum aðstæðum. Í aðlöguninni er barnið (og foreldrar) að læra á umhverfið og þau tækifæri sem þar bjóðast til náms. Áfram er byggt á hugmyndafræði um að skapa traust og öryggi, en það sem er öðruvísi eru forsendurnar um hvernig það er gert. Eins og áður er komið fram voru það leikskólar sem starfa í anda Reggio Emilia í Svíþjóð sem fyrstir tóku upp þátttökuaðlögun. Vel má vera að það tengist að hluta hugmyndafræði sem hefur þróast í Reggio Emilia um tengsl samfélags og leikskóla.
Það er vel þekkt að eitt aðalsmerki starfsins í Reggio Emilia er sú mikla áhersla sem þar er á virkt samstarf og þátttöku foreldra í leikskólastarfinu og ýmsum ákvörðunum sem varða hag heildarinnar (Malaguzzi, 2009; Rinaldi,2006 Vecchi, 2010). Þar er lögð áhersla á uppeldisfræði hlustunar. Sú hlustun nær ekki einungis til barna og þess starfs sem á sér stað inn í leikskólanum heldur líka til samfélagsins og þá sérstaklega foreldra. Samkvæmt hugmyndum í Reggio Emilia er aldrei hægt að líta á barnið sem einangrað félags- eða sálfræðilegt fyrirbæri, heldur er það ávallt hluti af stærri heild. Þannig hefur barnið áhrif á þá sem standa næst því og öfugt. Ákvarðanir sem teknar eru á vettvangi samfélagsins hafa áhrif á barnið og daglega líðan þess. Meðal þeirra eru bæði lög og reglugerðir sem og stjórnvaldsákvarðanir eins og sameining leikskóla, en líka ný þekking og ríkjandi viðhorf á fræðasviðum. Að vissu leyti má segja að þátttökuaðlögun sé eitt birtingarforma ytri þátta sem hafa bein áhrif á barnið og samtímis hefur upplifun barnsins áhrif á bæði starfsfólk og foreldra. Hinsvegar má líka velta því upp, í ljósi nýrra rannsókna (Moullin, Waldfogel og Washbrook, 2014; Young, 2014) um t.d. áhrif tengsla og fleiri þátta í ytra umhverfi barna á þroskamöguleika, hvort að þær breytingar sem hafa verið á aðlögun/upphafi leikskólagöngu hafi verið of miklar.
Samkvæmt lögum og opinberum tilmælum eiga foreldrar að hafa töluverð áhrif á leikskólastarfið (Lög um leikskóla nr. 90/2008). Þeim er ekki síst ætlað að vera samverkamenn og bandamenn leikskólans. Malaguzzi (2009) lagði áherslu á mikilvægi samræðu með það að markmiði að efla skilning á starfi leikskóla og hlutdeild foreldra í því. Aðrir benda á að þeir sem vinna í skólum verði sífellt að leita leiða til að skoða starfið og ígrunda gagnrýnið. Bregða vinnubrögðum og hugmyndafræði undir hugmyndafræðilegt ljós (MacNaugthon, 2005) Og að í framhaldi þeirrar skoðunar beri þeim skylda til að taka ákvarðanir um starf og starfshætti sem stuðli að jöfnuði og réttlátu þjóðfélagi. Meðal þess sem viðkomandi telja að leikskólakennarar verði að ræða, ígrunda og ákveða er á hvaða hugmyndafræðilega grunni þeir ætla að byggja starfið og hvernig þeir telja best að stuðla að framgangi þeirra aðferða og hugmyndafræði sem þeir velja.