Réttlæti grunnur leikskólastarfs
Í lok þessara færslu má finna í PDF skjali erindi sem ég flutti á Menntakviku 3. október 2014, hér að neðan má finna örfáa punkta úr fyrirlestrinum.
Flest okkar þekkja sögur H.C Andersen við höfum lesið þær og í leikskólum eru þær víða lesnar enn. Sögur snerta okkur á annan hátt en fræðigreinar, þær setja raunveruleikann í annað samhengi, þær koma við kvikuna í okkur og fá okkur iðulega til að hugsa upp á nýtt. Sagan af Litlu stúkunni með eldspýturnar eftir H. C Andersen er slík saga. Það er saga um fátækt, mannvonsku, illa meðferð á börnum, saga af barni sem býr við heimsins ranglæti en ekki félagslegt réttlæti. Þetta er gömul saga en en því miður er aðstaða barna víða um heim ekki ósvipuð því sem þarna er líst. Það eru til börn í heiminum okkar sem búa ekki við mikið betri og jafnvel verri aðstæður en litla stúlkan í sögunni. Birtingarmyndir ranglætis eru margar og misjafnar en sögur getað hjálpað og fært aðstæður og upplifun nær okkur. Gert okkur kleift að setja okkur í spor viðkomandi og snert okkur tilfinningalega. Jafnvel á þannig að við viljum leggja okkar að mörkum til að breyta lífi þeirra sem búa við svipaðar aðstæður
—–
Alistair Ross (2009) er á meðal þeirra sem telur kennslu aldrei geta verið hlutlausa. Hann tekur undir með fjölda annarra að kennsla sé í eðli sínu pólitískur gjörningur – sem byggist á meðvituðum ákvörðunum. Hver kennari er því pólitískur gerandi að hans mati. Það að fá kennara til að trúa að kennsla geti eða eigi að vera hlutlaus er stjórnunartæki í þágu ríkjandi hugmynda og orðræðu. Ross bendir á eins og fjölmargir aðrir hafa reyndar gert að það sé leynt og ljóst hlutverk skóla að viðhalda og endurskapa ríkjandi ástand, tryggja það að samfélagið breytist ekki nema til að þóknast ríkjandi stéttum. Ekki síst þess vegna verði kennarar að vera vakandi og gagnrýnir, hugsandi fólk sem kryfur og klórar sér í kollinum. Sem síðan bregst við og tekur afstöðu. Það sé í raun ekkert til sem heitir hlutlaus kennari.
—–
Skólar og kerfi sem treysta á lausnir og prógröm utan frá jafnvel heilar námskrár sem mega litlum breytingum taka. Það er hætt við að í slíkum kerfum og skólum séu kennarar sviptir réttinum til að vera breytingarafl. Þeir verða að beygja sig undir hina einu sönnu línu, verða verkfæri. Það er hætt við að í slíkum kerfum séu gagnrýnar spurningar á t.d. kennarafundum illa liðnar. Gerjun hugmynda er ekki ákjósanlegt ástand. Svo það sé klárt – er ég ekki að halda því fram að fólk megi ekki starfa eftir stefnum eða að skólar geti ekki samræmt vinnubrögð? Alls ekki, ég er að segja að fólk verði að vera vakandi fyrir því hversvegna það vinnur eins og það gerir, að það verði að vera tilbúið að skoða gagnrýnið hverra hagsmuna það er að gæta. Að það verði að vera iðandi umræða í kennarahópnum þar sem fólk skoðar og tekst á hugmyndafræðilega. Að hver kennari átti sig á menntapólitísku hlutverki sínu.
KD, okt 2014
Sorry, the comment form is closed at this time.