Sagan af henni Gípu
Ég er af þeirri kynslóð sem lagði mikið upp úr að segja sögur og þulur frá eigin brjósti með börnum. Sögur sem byggðu á að romsa upp úr sér sömu rununni aftur og aftur, sagan af Einbirni og bræðrum hans er lýsandi fyrir þessa tegund sagna. Hins vegar held ég að ein mín uppáhaldssaga hafi verið sagan af henni Gýpu.
Þegar ég var fyrsta árs nemi á þriggja ára deild árið 1984 sagði Bergljót Guðmundsdóttir tvær sögur sem alltaf voru jafn vinsælar, enda afburðagóð sögukona. Þetta voru sögurnar um Gípu og Fóu Feykirófu. Á þessum tíma þekkti ég Gípu en hafði aldrei heyrt söguna um hana Fóu. Árin á eftir átti ég sjálf eftir að segja þessar sögur aftur og aftur, og með börnum á ýmsum aldri.
Útgáfan af Gípu sem ég man eftir er sú hin sama og er höfð eftir Sigrúnu Dagbjartsdóttur (og er í rafbókinni sem hér fylgir með og textinn er hér að neðan, auk þess að hægt er að hlusta á Sigrúnu segja söguna).
Ég man einhvertíma að hafa heyrt að Gípa tengist Austfjörðum og þokunni þar, sé myndlíking fyrir hana. Í úgáfunni sem ég lærði var sagt
Sjórinn kemur þarna rennandi og mennirnir allir róandi og talandi
og sögðu: – allabaddarí, fransí, því þeir töluðu
allir golfrönsku.
Þetta með alla baddarí biskví er í mínum huga tengt Austfjörðum og veru Fransmanna þar. Sigrún sem segir söguna í þessari útgáfu er fædd og alin upp á Vestdalseyri í Seyðisfirði. Í þeirri útgáfu er Gípa send af stað til að sækja eld, en gleymir því vegna svengdar og étur allt sem á vegi hennar verður. Upp úr því verður mikil og löng rosma sem börnin fara með.
Þekktari útgáfa er samt sennilega sú sem birtist í Fóstru árið 1980, þar segir Sólveig Ásgeirsdóttir söguna eins og hún lærði hana. Þar er stelan svöng og leggur af stað að leita af mat en étur allt sem á vegi hennar verður.
Heimildarkona: Sigrún Dagbjartsdóttir
Einu sinni voru karl og kerling í koti sínu, þau áttu eina dóttur sem hét Gípa. Það voru nú engar eldspýtur til í þá daga og þurfti alltaf að fela eldinn undir hlóðarsteinunum. En einu sinni dó eldurinn hjá kerlingu svo að hún segir við Gípu sína: – Æ, Gípa mín, skrepptu nú til næsta bæjar fyrir mig og sæktu mér eld. – Hvernig heldurðu að ég geti farið, ég sem er svo voðalega svöng. En kerling var að strokka og hún gaf Gípu áfasopa og lambabita, það var smjörbiti af strokknum. Svo Gípa fer nú af stað og gengur lengi, lengi.
Þá koma tveir hrafnar á móti henni krunkandi og segja: – Ertu ekki voðalega svöng, Gípa mín? – Ja, hvað haldið þið að ég sé ekki svöng, ég fékk ekkert nema áfasopa og lambabita; ég get svo vel gleypt ykkur. Og svo gleypti hún báða hrafnana.
Svo hélt hún áfram og gekk lengi, lengi. Þá koma tvær litlar mýs trítlandi á móti henni og segja: – Ertu ekki voðalega svöng, Gípa mín? – Ja, hvað haldið þið að ég sé ekki svöng, ég fékk ekkert nema áfasopa og lambabita og gleypti tvo hrafna. Ég get svo vel gleypt ykkur líka. Og svo gleypti hún báðar mýsnar.
Svo hélt hún áfram og gekk lengi, lengi þangað til að koma tólf trippi á móti henni. Þá hneggja þau og segja: – Ertu ekki voðalega svöng, Gípa mín? – Hvað haldið þið að ég sé ekki svöng, ég fékk ekkert nema áfasopa og lambabita, gleypti tvo hrafna og tvær mýs. Ég get svo vel gleypt ykkur. Og svo gleypti hún öll trippin.
Svo hélt hún áfram og gekk lengi, lengi Þá koma þrettán kálfar á móti henni og segja: – Ert þú ekki voðalega svöng, Gípa mín? – Hvað haldið þið að ég sé ekki svöng, ég fékk ekkert nema áfasopa og lambabita, gleypti tvo hrafna, tvær mýs, tólf trippi . Og ég get svo vel gleypt ykkur líka . Svo gleypti hún alla kálfana.
Svo hélt hún áfram og gekk lengi, lengi . Þá mætti hún manni sem var með hundrað fjár og hann var með hund og broddstaf. Hann segir við hana: – Ert þú ekki voðalega svöng, Gípa mín? – Hvað haldið þið að ég sé ekki svöng, ég fékk ekkert nema áfasopa og lambabita, gleypti tvo hrafna, tvær mýs, tólf trippi, þrettán kálfa . Ég get svo vel gleypt ykkur líka . Svo gleypti hún mann – inn, hundinn, broddstafinn og hundrað kindurnar.
En ekki var hún enn orðin södd, hélt hún áfram og gekk lengi, lengi . Þá var hún komin niður að sjó . Þá voru þar átta menn, róandi á báti úti á sjónum og þeir kalla í land til hennar og segja: – Ert þú ekki voðalega svöng, Gípa mín? – Hvað haldið þið að ég sé ekki svöng, ég fékk ekkert nema áfasopa og lambabita, gleypti tvo hrafna, tvær mýs, tólf trippi, þrettán kálfa, mann, hund, broddstaf og hundrað kindur . En ég get svo vel gleypt ykkur líka . Svo lagðist hún í flæðarmálið og drakk og drakk af sjónum þangað til báturinn strandaði og þá gleypti hún bátinn, mennina og allt saman.
En þá var hún loksins orðin södd svo hún lagðist þar niður á milli þúfna og sofnaði. En þegar hún er sofnuð þá kemur svolítill þúfutittlingur og hann kroppar gat á magann á henni og þá kemur nú hvusssss:
Sjórinn kemur þarna rennandi og mennirnir allir róandi og talandi og sögðu: –
allabaddarí, fransí, því þeir töluðu allir golfrönsku.
Svo komu þarna maðurinn hóandi og kindurnar jarmandi, kálfarnir baulandi, trippin hneggjandi, mýsnar tístandi, hrafnarnir krunkandi.
En karlinn og kerlingin biðu og biðu og aldrei kom Gípa með eldinn og síðast króknuðu þau í kotinu.
Hér má heyra Sigrúnu segja söguna
Sorry, the comment form is closed at this time.