Sophie Calle ljósmyndun og persónurýmið
Vorið 2011 voru sýndir heimildaþættir á RÚV um samtímaljósmyndara. Einn þeirra er franskonan Sophie Calle. Það sem einkennir list hennar er að hún beitir myndavélinni og sjálfri sér eins og rannsóknartæki. Verk hennar eru yfirleitt ferilverk, ljósmyndir og texti sem vinna saman. Hún velur sér hugmynd eða concept og fylgir því alla leið, svona eins og við sem viljum vinna með ljósmyndaskráningar viljum gera.
Dæmi um þekkt verk Sophie Calle eru, Hótelherbergið, Heimilsfangsbókin og svo hennar fyrsta verk þar sem hún fylgir ókunnugum í mannhafi Parísarborgar, ljósmyndar og skráir hjá sér athafnir og pælingar. Þetta var hennar leið til að ná sambandi við borgina við lífið, kynnast og skilja. Hún lifði á sinn hátt lífi þessa fólks.
Oftast fer hún í listsköpun sinni langt inn fyrir það sem við skilgreinum flest sem persónurými, skerðir frelsi fólks. En samtímis gefur hún okkur mynd af manneskjum sem við gætum ekki öðlast á annan hátt. Fyrir okkur sem höfum pælti í uppeldisfræðilegri skáningu eru sterk tengsl á milli Sophie Calle og hugmyndafræði skárningar. Mörg þekkjum við að ferðast með myndavél í farateskinu. Sem dæmi var ég eitt sinn ein á ferð í New York og setti mér það verkefni að mynda athafnir fólks í almenningsrými, í görðum, á torgum, á götum. Í New York var það ekki erfitt en á markaði í Riga þar sem fátæktin og eymdin var yfirþyrmandi, gat ég það ekki. Hafði ekki hugrekki til að fara inn fyrir persónurýmið.
En hvernig er það með myndir af börnum í leikskólum? Erum við að fara inn fyrir persónurými barnanna? Línan er hárfín en ég tel ekki, okkar markmið er að sýna nám, að pæla í námi og starfinu í leikskólanum, að læra með og um börn, að þróa hugmyndir og vinnubrögð. Við gerum þetta með því að skoða myndir, pæla í myndum og tala saman um myndir. Markmiðið er að setja saman myndir og texta, draga ályktanir og gera nám barna sýnilegt. Afurðin betra leikskólastarf og jafnvel skráning t.d. á vegg.
Myndin sem fylgir er hluti af verkefni sem var í gangi á Hrafnaþingi í leikskólanum Aðalþingi á vormánuðum 2011. Þar fengust börnin við að byggja og hanna kúlubrautir og starfsfólkið skráði ferlið með ljósmyndum og myndböndum.
Við sem skoðum skráningarnar skoðum þær frá mörgum hliðum. Við skoðum það nám sem við teljum að eigi sér stað, við skoðum námsumhverfi barnanna, við pælum í kynjavinklum, í leiknum og áhuga á leiknum og svo framvegis. Þannig verða myndirnar/skráningarnar hluti af daglegu leikskólastarfi, áhrifaþáttur um mótun þess. Við skoðum þær hugmyndir sem þar birtast og þau hugsanatengsl sem þær kalla fram hjá okkur. Sem dæmi er myndin hér að neðan sem sýnir teikningar tveggja barna af hreyfingu kúlu í kúlurennibraut. Til að sýna hreyfingu og rennsli teiknar annað barnið margar kúlur á meðan hitt teiknar línu. Í grundvallaratriðum eru börnin að teikna hreyfingu stafrænt (digital) og flaumrænt (analouge), skilgreiningarnar á myndinni eru teknar af vísindavefnum. (kd birtist fyrst á heimasíðu Aðalþings í apríl 2011).
Sorry, the comment form is closed at this time.