Streituvaldar barna
Ég er hugsi, nú um stundir eru málefni leikskólans mér ofarlega í huga (eins og stundum áður). Ég velti t.d. fyrir mér samhengi hlutanna. Þó svo að allir sem mig þekkja viti að ég hef lengi haft áhyggjur af aðstæðum barna í leikskólum landsins er ekki svo að ég sé til í að skrifa allt mögulegt og ómögulegt á aðstæður þar. Jú börn eru langa daga, jú plássið og aðstæður eru víða ömurlegar, þröngar, vond loftskipti og hávaði, jú það vantar fagfólk. EN allt þetta er aðeins hluti myndarinnar.
Börn eru á fleiri stöðum en í leikskólum
Við skulum ekki gleyma að börn eru ekki bara í leikskólum, þau eru allmörg líka í alla vega tómstundum (í stórum háværum hópum í fótbolta, fimleikum tónlistarkólum, ballett, myndlist, tölvuforritun og hvað allt þetta heitir), foreldrar eru útkeyrðir vegna vinnu (til að geta veitt börnum all mögulegt, bæði nauðsynjar og margt annað), þeir vinna langa daga og jú þeir þurfa líka að sinna sjálfum sér og sínum áhugamálum, og svo eru í lífi barna tölvur og símar og sjónvarp sem hægt er að horfa á allan sólarhringinn.
Það er ótrúlega margt sem veldur streitu í lífi barna og fjölskyldna þeirra. ÞAÐ ÞARF að hafa hátt og laga til ekki bara í leikskólum heldur í aðstæðum barna í víða samhenginu. Á meðal þess sem er verulega aðkallandi er að stytta vinnuvikuna, lengja orlof (hækka fæðingarstyrk til þeirra lægst launuðu) og vinna að aðstæðum barna fyrstu mánuðina.
PS. Afar og ömmur eru auðvitað dásamleg fyrirbæri í lífi flestra barna en ekki endilega inn í leikskólum. Og ég efast um að eldri borgarar hafi almennt heilsu til að starfa í leikskólum
Sorry, the comment form is closed at this time.