Stundum er kveðjustund barna og foreldra erfið
Einhvertíma skrifaði ég um kveðjustund í leikskólanum og finnst sú frásögn alveg eiga heima hér. Efnið er ekki ókunnugt mörgum leikskólakennurum og foreldrum og í raun svolítið sígilt.
Í leikskóla einum fyrir mörgum, mörgum árum var barn sem grét og grét og kveðjustundin var endalaust dregin á langinn. Barnið var kjökrandi og foreldrar nánast líka. Starfsfólkið var farið að fá kvíðahnút í magann þegar það sá barnið birtast vitandi að þá tæki við langt sársaukafullt ferli. Leikskólastjórinn sá að svo gat ekki gengið lengur og kallaði foreldrana á sinn fund. Hún sagði mér að hún hefði bara spurt þau hreint út hvort þau vildu að barnið væri í leikskólanum. „Jú jú“ sögðu foreldrarnir“. „Treystið þið okkur“ spurði hún, „Já, já“ sögðu foreldrarnir. „Jæja“ sagði mín kona þá, „hvernig væri að þið færðuð að haga ykkur í samræmi við það“ og bætti við einhverju á þessa leið: „Það eruð þið og hegðun ykkar sem er vandamálið ekki barnið“. „Það eruð þið sem segið; „ææi, greyið nú verðum við að skilja þig eftir, við sækjum þig eins fljótt og við getum“. „Þú þarft nú ekkert að vera langan dag í dag“. Og bætti svo við: “ Með þessu eruð þið að senda barninu ykkar skýr skilaboð“. Foreldrarnir hrukku víst í kút og urðu jafnvel soldið foj. En svo hugsuðu þau málið og strax á næstu dögum breyttist þeirra afstaða og barnið kom glatt og fór glatt.
Þetta er svona lítil reynslusaga í pottinn, ég hef reyndar alltaf dáðst að þessari nálgun viðkomandi stjóra en ég er ekki viss um að ég hefði treyst mér svona beint í hana sjálf. Ég hefði örugglega leitað að leið til að fara óbeinna í málið. En eftir stendur að hún skynjaði hvar vandinn lá, greindi vandann að mínu mati hárrétt og hafði í sér að taka á honum.
Sorry, the comment form is closed at this time.