Kristin Dýrfjörð

Tashkent-yfirlýsingin og staðan á Íslandi

Samantekt Kristín Dýrfjörð (sjá umfjöllun um Tashkent yfirlýsinguna )

Mat og framtíðarsýn um umönnun og menntun ungra barna (ECCE) á Íslandi í ljósi Tashkent-yfirlýsingarinnar.

Tashkent-yfirlýsingin, sem samþykkt var á heimsráðstefnu UNESCO árið 2022, markar tímamót í alþjóðlegri umræðu um mikilvægi menntunar og umönnunar ungra barna (ECCE). Hún leggur áherslu á rétt barna til gæðaumönnunar og menntunar frá fæðingu til 8 ára aldurs og kallar eftir aukinni fjárfestingu, samþættri stefnumótun og alþjóðlegri samvinnu.

Tashkent-yfirlýsingin hefur verið viðurkennd sem opinbert skjal á 76. allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna. Þetta þýðir að yfirlýsingin hefur verið þýdd á opinber tungumál SÞ, og dreift til allra aðildarríkja og sérstofnana SÞ. Viðurkenning sem undirstrikar mikilvægi yfirlýsingarinnar á alþjóðavettvangi.

Í þessari samantekt er staða Íslands metin í ljósi Tashkent-yfirlýsingarinnar, með hliðsjón af lögum, aðalnámskrá, stefnumótun sveitarfélaga og faglegri umræðu. Markmiðið er að draga fram styrkleika, áskoranir og framtíðartækifæri í íslenskt menntastefnu og faglegri þróun á sviði leikskólamála.

1. Staða og skuldbindingar Íslands

Ísland hefur tekið mikilvægar ákvarðanir sem styrkja rétt barna og aðgengi að leikskólamenntun. Lög um farsæld barna (nr. 86/2021), aðalnámskrá leikskóla og ábyrgð sveitarfélaga á rekstri leikskóla mynda grunnkerfi sem styður við velferð barna. Þátttaka Íslands í heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna (SDG 4.2) og áhersla á ævilangt nám birtist í stefnumótun og nýjum löggjöfum.

Hins vegar eru áskoranir enn til staðar: samræming milli kerfa, misræmi í aðgengi og þjónustu, skortur á rannsóknum og sérfræðimenntun í leikskólafræðum, og takmarkaðar fjárfestingar í þróun fagþekkingar.

2. Leiðarljós og lykilstefna

I. Leikskólastarf sem hluti af ævilöngu námi Leikskólastarf er ekki undirbúningur fyrir grunnskóla heldur sjálfstæður hluti af ævilöngu námi. Aðalnámskrá leikskóla leggur áherslu á leik, lýðræði, sjálfbærni, sköpun og félagsleg tengsl barna.

II. Jöfn og aðgengileg þjónusta Sveitarfélög bera lagalega ábyrgð á að tryggja börnum leikskóladvöl. Þrátt fyrir það er aðgengi og umfang þjónustu við börn með fjölbreyttar þarfir enn misjafnt milli svæða, meðal annars vegna ólíkra útfærslna og fjárhagsstöðu einstakra sveitarfélaga.

III. Samþætt þjónusta og snemmtækur stuðningur Farsældarlög tryggja stigskipt stuðningskerfi með áherslu á snemmtækan stuðning og samþættingu þjónustu frá fæðingu.

IV. Gæði og mat Samkvæmt lögum um leikskóla á mat á starfsemi leikskóla að fara fram á vegum ríkisins. Í framkvæmd hefur hins vegar verið skortur á úttektum og fáir leikskólar verið metnir formlega af hálfu ríkisins. Afleiðingin er sú að ábyrgð á mati lendir í reynd oft hjá sveitarfélögum, sem framkvæma það með mismunandi aðferðum og án samræmds ramma á landsvísu.

V. Umhyggja, leikur og vernd barna Lög, reglugerðir og námskrá tryggja hlýlegt og öruggt umhverfi. Lögð er áhersla á þátttöku barna og rétt þeirra til leikja, tengsla og tilfinningalegrar vellíðanar.

VI. Samfella skólastiga Grunnskóli er ekki markmið leikskólastarfsins, heldur hluti af framtíð barnsins. Samfella og tenging skólastiga á að styðja ævilangt nám og velferð barna í gegnum menntakerfið.

VII. Sjálfbærni og samfélagslegt læsi Þemu sjálfbærni og umhverfisvitund eru til staðar í námskrá og mörgum leikskólum, en framkvæmd er mismunandi og oft drifin áfram af áhugasömu fagfólki.

3. Starfsfólk leikskóla og sérfræðimenntun

  • Leikskólakennaramenntun er í dag skipulögð sem M.Ed.-nám (meistaranám til kennsluréttinda, MT-nám) samkvæmt lögum um menntun kennara.
  • Starfskjör leikskólakennara eru formlega sambærileg grunnskólakennurum, en vinnuaðstaða og starfsskilyrði eru ójöfn og oft verri. Laun ófaglærðra eru lág og endurspegla ekki ábyrgð starfans.
  • Doktorsnám í leikskólafræðum er mikilvægt fyrir áframhaldandi þróun greinarinnar og uppbyggingu rannsókna á sviði menntunar ungra barna. Til að tryggja sjálfbært og faglegt rannsóknasamfélag þarf að efla aðgengi að doktorsnámi, auka stuðning við nýja nemendur og styrkja fræðilegt umhverfi innan háskólastofnana.- Nauðsynlegt er að efla framhaldsmenntun og rannsóknargetu innanlands, sérstaklega með það að markmiði að styrkja og þróa sjálfbært doktorsnám í leikskólafræðum.

Ísland hefur sterkan grunn í réttindamiðaðri menntastefnu, með lögum um bæði leikskóla og lögum um farsæld, aðalnámskrá sem endurspeglar leik og velferð barna, og vaxandi umræðu um snemmtækan stuðning og samþættingu þjónustu. Hins vegar er enn svigrúm til að efla kerfisbundna samhæfingu, auka aðgengi og tryggja markvissari stuðning við þróun leikskólastigsins – t.d. með fjárfestingu í rannsóknum, doktorsnámi og alþjóðlegu samstarfi.

Heimildir og stuðningsefni fyrir þá sem vilja kynna sér meira:

Alþingi. (2008). Lög um leikskóla nr. 90/2008. https://www.althingi.is/lagas/nuna/2008090.html

Alþingi. (2021). Lög um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna nr. 86/2021. https://www.althingi.is/lagas/nuna/2021086.html

Eurydice. (n.d.). Early childhood education and care in Iceland. Education and Training. https://eurydice.eacea.ec.europa.eu/national-education-systems/iceland/early-childhood-education-and-care

Mennta- og barnamálaráðuneytið. (e.d.). Leikskólar – Verkefni ráðuneytisins. https://www.stjornarradid.is/verkefni/menntamal/leikskolar/

OMEP. (2023). Tashkent +1: Celebrating progress and reaffirming commitments to ECCE. https://omepworld.org/tashkent-1-celebrating-progress-and-reaffirming-commitments-to-ecce/

Preschool Act No. 90/2008. (n.d.). Government of Iceland. https://www.government.is/media/menntamalaraduneyti-media/media/MRN-pdf_Annad/Preschool_Act.pdf

UNESCO. (2022). Tashkent Declaration and Commitments to Action for Transforming Early Childhood Care and Education. https://www.unesco.org/sites/default/files/medias/fichiers/2022/11/tashkent-declaration-ecce-2022.pdf

UNESCO. (2023). Nurturing children’s wellbeing: Iceland’s pathway to enhanced rights and access. https://www.unesco.org/en/early-childhood-education/nurturing-childrens-wellbeing-icelands-pathway-enhanced-rights-and-access

Sorry, the comment form is closed at this time.

Kristín Dýrfjörð er eigandi og ábyrgðarmaður síðunnar