Tilfinningar og traust – stórra og smárra í leikskólanum
Nú eru að koma fram fleiri og fleiri rannsóknir um yngstu börnin og starfið með þeim. Í Noregi er t.d. stórt rannsóknarverkefni í gangi þar sem aðstæður og menntun yngstu barnanna eru í kastljósinu. Meðal þess sem þar kom fram er að starfsfólk er ekki í nógu miklum tilfinningatengslum við yngstu börnin (Jonassen, 2016). Við sem höfum eitthvað kynnt okkur mál yngstu barna og eða bara sem foreldrar vitum að þau hafa mikla þörf fyrir ástúð og umönnun, þau hafa þörf fyrir að við þau sér rætt og þau snert. Rannsóknir á heilanum hafa t.d, sýnt að við þurfum öll á snertingu að halda. Heilinn þarf hana til að þrokast og dafna (Young, 2014).
Fullorðið fólk sem er vont við börn
Á undaförnum árum hafa komið fram nokkur dæmi hér og þar í heiminum þar sem fullorðið fólk hefur orðið uppvíst að því að fara illa með það traust sem börn bera til þeirra innan leikskóla. Þar sem börnum hefur m.a. verið misþyrmt kynferðislega (Learner 2013). Þegar litið er á stóru myndina og hve mörg börn eru í leikskólum eru þetta e.t.v. ekki mörg dæmi en of mörg eru þau. Kannski er það bæði svo að þar sem fleira fólk starfar með börnum og fleiri börn eru í leikskólum en nokkur tíma fyrr í sögunni verða dæmin fleiri. Afmennskan og klámvæðing á sennilega líka hlut að máli. Það eru fleiri og fleiri sem líta á aðrar manneskjur sem viðfang þeirra eigin langana og þarfa. En svo er það líka hitt að á tímum upplýsingar og Internets ferðast upplýsingar um hvert dæmi afar hratt á öldum ljóssins. Hvert atvik verður því á vitorði fleiri. Það má benda á að samkvæmt rannsóknum er t.d. fágætt að börn sem eru að leik úti við séu tekin af ókunnugum (Brussoni og félagar, 2012).
Hver svo sem ástæðan er, er ein afleiðingin sú að víða um heim er fólk sem vinnur með börnum hrætt við að taka þau í faðminn, veita og taka við faðmlögum. Afleiðingin er að fólk hefur sett reglur um snertingu, t.d. að börn megi ekki sitja í fangi starfsfólks. Reglur sem eru jafnvel svo strangar að þær í raun vinna gegn velferð barna (Learner, 2016). Í Bretlandi hefur Page (2011) þróað hugtakið fagleg elska (professional love), sem hún notar til að skilja tilfinningatengsl milli barna og starfsfólks. Tengsl sem hún telur að kennarar og annað starfsfólk þurfi að móta og þróa í þágu velferðar barna. Hún bendir jafnframt á að kennarar verði að átta sig á eðli þessara tengsla og hvernig þau eru frábrugðin t.d. tengslum foreldra og barna. Byggir hún hugmyndir sína og aðferðir á m.a. hugmyndum Bolwby, en líka á kenningum og aðferðum sem hafa þróast í kring um um t.d. lykilperónur.
Kennarinn sem verkamaður tilfinninga
Í annari rannsókn í Bretlandi var því haldið fram að leikskólakennarar séu í raun alltaf að selja tilfinningar sínar (emotional labour) (Vincent of Braun, 2013; Osgood, 2006 ). Þeir þurfa alltaf að vera vel fyrirkallaðir og mega ekki láta dagsveiflur ráða samskiptum við börnin, það er ekki faglegt. Í raun er til skilgreining á tilfinningastörfum, það er viðkomandi þarf bæði að stjórna tilfinningum sínum og tjáningu í þágu vinnustaðarins (Grandey, 2000). Þessu fylgir að fólk verður sífellt að gera sér upp tilfinningar, setja t.d. upp andlit gleði, jafnvel þegar því líður illa. Þessari tilfinningalegu tvöfeldni fylgir álag. Stöðugt framsal á tilfinningum tekur á og getur leitt til þess að starfsfólk brennur út. Þegar að auki bætist við ótti um ásakanir um mögulega illa meðferð á börnum eykst álagið. Raunar er talið að fólk geti farið tvær leiðir til að takast á við framsal tilfinninga. Annarsvegar yfirborðsleið sem felur í sér lærða hegðun, svona eins og starfsfólki verslanna er kennd, brosa og bjóða góðan dag. Hinsvegar dýpri aðferð sem felur í sér að viðkomandi temur sér djúpstæðar tilfinningar og meðlíðan (Bagdasarov og Connelly, 2013). Kannski það sem Page sem nefnd er hér að ofan hefur valið að nefna faglega elsku. Sú leið er í raun talin geta varið fólk fyrir að brenna út og virkað fyrirbyggjandi fyrir andlega heilsu viðkomandi. Þetta er leið fagmennskunnar.
Skortur á trausti og myndavélar
Önnur afleiðing minnkandi trausts er að víða um heim eru myndavélar í hverju rými og bæði börn og starfsfólk eru undir eftirliti hvern dag, hverja mínútu. Einhver gæti spurt er það ekki hið besta mál? Á t.d. starfsfólk leikskóla einhvern rétt á því að vera ekki undir vökulu auga myndavéla, er eitthvað í starfi leikskóla sem ekki þolir slíkt eftirlit? Aðrir gætu spurt hver á að sjá og hafa aðgengi að slíku myndefni? Allir foreldrar t.d.? Hvað þá með rétt barna til perónuverndar? Börn eru stóran hluta vökutíma síns í leikskólum, þau eiga misjafna daga, sumir og vonandi flestir eru góðir en inn á milli eru ekki eins góðir dagar. Er það réttur allra foreldra, allra barna á viðkomandi deild sem dæmi að fylgjast með hverju sem er? Í hópi foreldra eru líka úlfar í sauðagæru, eiga börn ekki rétt á vernd gegn þeim? Sem dæmi þá þarf starfsfólk leikskóla að skila inn sakarvottorði, það þurfa foreldrar ekki. Svo er það hitt, sú streita sem það getur valdið starfsfólki að vinna sífellt undir auga myndavélar ofan á að vera síflellt að stjórna og fela tilfinningar bætist við sú tilfinning að vera undir eftirliti. Eins og staðan er í dag hefur kennaramenntun ekki verið sú vinsælasta, það má velta fyrir sér hvort það sé líklegt að aukið rafrænt eftirlit verði til þess að starfið verði eftirsóknarverðara? Þegar fagmennskan er einskins virt. Ekki að mínu mati. Svo vitum við því miður að ef einbeittur brotavilji er til staðar finnur fólk sér stað og stund til að brjóta á börnum. Besta vörnin er hátt stig fagmennsku og að í leikskólanum ríki andrúmsloft trausts. Vel menntaðir kennarar eru hluti af því.
En þrátt fyrir alla þessa vankanta hafa margir leikskólar valið þá leið að hafa myndavélar, en ekki opnar út á netið heldur þannig að efni er streymt og það geymt. Þeir líta svo á að með því séu þeir að verja sig og sitt starfsfólk, mest gegn hinum ýmsu málsóknum.
Fagmennska eða framsal hennar
Ég byrjaði þennan pistil á umfjöllun um yngstu börnin og mikilvægi þess að þau upplifi umönnun og tilfinningatengsl í leikskóla. Ég fjallaði svo aðeins um það álag sem breyttur heimur og tortryggni hefur á starf leikskólakennara og mögulegar afleiðingar. Gleymum ekki að kennarar eru mikilvægir nútímasamfélaginu og áttum okkur á að það skiptir máli að þeir finni að þeir eru mikils metnir og fagmennsku þeirra treyst. Þeir eiga ekki að vera tæknilegir framfylgjendur þess sem aðrir ákvarða, áætlana og vinnubragða sem aðrir móta og búa til. En við vitum að út um heim hefur fólk tekið sig til og búið til alla vega aðferðir og töfralausnir sem er pakkað í neytendavænar umbúðir sem er svo reynt að selja kennurum, skólum og eða sveitarfélögum sem lið í að bæta skólastarf.
Hvað sem öðru líður er ljóst að umhverfi og starf leikskóla tekur breytingum í breyttum heimi. Sumar breytingar eru án efa til góðs fyrir alla á meðan aðrar eru þannig að þær vinna þegar til lengri tíma er litið gegn velferð barna. Að gera lítið úr og vantreysta fagmennsku kennara vinnur gegn samfélaginu, á meðan gagnrýnin umræða styður við skólastarf.
Heimildir:
Bagdasarov, Z. og Connelly, S. (2013). Emotional Labor among Healthcare Professionals: The Effects are Undeniable. Narrative Inquiry in Bioethics 3(2), 125–129. The Johns Hopkins University Press.
Brussoni, M., Olsen, L. L., Pike, I. og Sleet, D. A. (2012). Risky Play and Children’s Safety: Balancing Priorities for Optimal Child Development. International Journal of Environmental Research and Public Health, 9, 3134-3148.
Grandey, A. A. (2000). Emotional regulation in the work-place: A new way to conceptualize emotional labor. Journal of Occupational Health Psychology, 5, 95–110.
Jonassen,T. (2016). For lite fysisk kontakt i barnehagen. Barnehage.no, Slóð http://barnehage.no/forskning/2016/01/for-lite-fysisk-kontakt-i-barnehagen/
Learner, S. (2013). Nurseries adopt ‘no kissing’ policy to protect staff from being accused of abuse. daynurseries.co.uk. Slóð http://www.daynurseries.co.uk/news/article.cfm/id/1560390/nurseries-adopt-no-kissing-policy-to-protect-staff-from-being-accused-of-abuse
Learner, S. (2016). Nurseries urged to draw up cuddle policies over fears intimacy with children will be misunderstood. daynurseries.co.uk. Slóð http://www.daynurseries.co.uk/news/article.cfm/id/1573208/nurseries-cuddle-policies-fears-intimacy
Osgood, J. (2006) Deconstructing professionalism in early childhood education: resisting the regulatory gaze, Contemporary Issues in Early Childhood, 7(1), 5–14.
Page, J. (2011). Do Mothers want professional carers to love their babies? Journal of Early Childhood Research, 9, (3), 310–323
Vincent, C. og Braun, A. (2013). Being ‘fun’ at work: emotional labour, class, gender and childcare. British Educational Research Journal, 39, 4, 751–768.
Young, E. M. (2014). Addressing and Mitigating Vulnerability across the Life Cycle: The Case for Investing in Early Childhood. New York: UNDP.
Sorry, the comment form is closed at this time.