Barnabækur og trúarlegur bakgrunnur barna
Fyrir nokkrum árum hélt ég erindi í Akureyrarkirkju um tengsl kirkju og skóla. Ég sagði þar m.a. að ég teldi mikilvægt að við viðurkenndum áhrifavalda í lífi barna. Leikskóli sem lokar umheiminn úti og starfar samkvæmt rómatískri mynd af börnum, sýslandi með trékubba og leir, er ekki endilega að gera það. Slíkir leikskólar vinna iðulega samkvæmt þeirri stefnu að viðurkenna í raun aðeins þá áhrifavalda í lífi barna sem þeir sjálfir velja. Þegar slíkt val á sér stað er næsta víst að óþægileg atriði eins og trúarbrögð sérstaklega minnihlutahópa og dægurmenning fjölþjóðafyrirtækja eru sett út í kuldann.
Margir vita að ég er lítt fylgjandi samstarfi kirkju og skóla þar sem fulltúrar kirkjunnar eru í samskiptum og samverustundum með börnum inn í leikskólanum. En ég er hins vegar fylgjandi því að börn eiga ekki að upplifa reynslu sína og fjölskyldu sinnar út á jarði samfélagsins. Þess vegna skiptir máli í leikskólumað börn kynnist því snemma að fjölskyldur og bakgrunnur þeirra er mismunandi. Það á líka við um trúarlíf og lífssýn foreldra. Nýlega rakst ég á grein um hvernig leikskólinn getur virt og kennt um mismunandi trúarbrögð í gegn um barnabókmenntir. Mér finnst að sú grein eiga erindi við íslenska leikskólakennara og jafnvel fleiri.
Þegar ég byrjaði að vinna í leikskóla 1978 voru fáar barnabækur fyrir yngsta aldurshópinn til á íslensku. Þar sem ég starfaði var hins vegar til mikið úrval af dönskum barnabókum. Þær voru þýddar á mismunandi hátt, stundum var íslenska þýðingin skrifuð á milli lína. Stundum var sett blað yfir með þýðingunni sem maður gat lyft upp (svona ef viðkomandi treysti ekki þýðingunni) og stundum var límt alveg yfir danska textann. Þessir dagar er nú alveg liðnir, töluvert úrval barnabóka fyrir yngstu börnin kemur út á hverju ári. Hins vegar er hægt að velta fyrir sér um hvað bækurnar fjalla. Má t.d. velta fyrir hvort fjölbreytileiki mannlífsins, bæði frá kynþætti, trú og t.d. fötlun sé mjög augljós í bókunum? Fyrir nokkrum árum unnu nemar hjá mér verkefni og skoðuðu m.a. útgefnar bækur síðustu ára fyrir leikskólaaldurinn. Þeirra niðurstöður voru að bækur síðustu 3-4 ára þar á undan (verkefni 2008) hafi verið frekar frekar einsleitar, að fjölbreytileiki sé undantekning en ekki regla. Kannski að það bíði metnaðarfullra leikskólakennara að fara aftur að þýða bækur dagsdaglega, núna kannski úr ensku frekar en dönsku.
Ég hvet hinsvegar leikskólakennara sem hafa áhuga á lífi barna, áhuga á að virða bakgrunn og fjölbreytileika fjölskyldna að kynna sér grein þeirra Peyton og Jalongo frá því í febrúar 2008, sem ber heitið:Make Me an Instrument of Your Peace: Honoring Religious Diversity and Modeling Respect for Faiths Through Children’s Literature.
Í sama riti er líka að finna yfirlit yfir barnabækur sem ætti að nýtast þeim sem hafa áhuga á að kynna fyrir börnum trúarlegan fjölbreytileika mannlífsins.
Birtist fyrst á blogginu mínu í apríl 2008
Sorry, the comment form is closed at this time.