Kristin Dýrfjörð

Um síðuna

58933416_10156139814057374_6865066487451746304_nÉg heiti Kristín Dýrfjörð og er eigandi og ábyrgðarmaður síðunnar. Á henni sameinast bæði áhugamál og lífsstarf mitt. Ég hóf ung störf við leikskóla, menntaði mig sem leikskólakennara, lauk seinna framhaldsnámi í stjórnun menntastofnana, er með meistarapróf matsfræðum, var eitt sinn Fullbrighr styrkþegi í henni Ameríku, stundað nám við Institute of Education í London. Ég hef áratugareynslu af leikskólastarfi, vann bæði með yngstu börnunum og þeim elstu, var leikskólastjóri um margra ára skeið, hef frá 1997 árin starfað sem kennari við Háskólann á Akureyri. og er þar nú dósent.  Þar kenni ég allt mögulegt sem kemur við leikskólafræðum. Meðal þess sem ég hef þróað þar í samstarfi við samstarfsfólk er vísindamiðja fyrir leikskóla. En í vísindasmiðju er lögð áhersla á að samræma leikskólafræði, við listir og náttúrufræði. E.t.v. hefðum við frekar átt að nefna námskeiðið listvísindasmiðju og gera þannig bæði listum og vísindum betri skil. Ég kenni líka um uppeldisfræðilegar skráningar sem er aðferðafræði til að gera leikskólastarfið sýnilegt en fyrst og fremst til þess að þróa það, um aðferðir í leikskólafræðum, um starf með yngstu börnunum og svo kenni ég um sjálfbærni.Fyrir utan ódrepandi áhuga á leikskólastarfi nýt ég þeirrar forréttinda að vera amma.  Að vera amma er eitt skemmtilegasta hlutverk sem mér hefur hlotnast í lífinu og séð til að viðhalda áhuga mínum á bernskunni og glæða nýju lífi.

Markmið

Heimasíðunnni er ætlað að vera til upplýsinga fyrir þá sem áhuga hafa á leikskólamálum. Allt ómerkt efni er algjörlega á mína ábyrgð. Hugmyndin er að leikskólakennarar eða aðrir geti skrifað greinar eða færslur ef þeir hafa áhuga en þær verða þá merktar viðkomandi.

Afnot af efni

Síðan er líka hugsuð sem kennsluvefur og væntanlega spegla efnistök það að einhverju leyti. Öllum er frjáls afnot af þvi efni sem er birt í mínu nafni (allt efni sem er ekki merkt öðrum eða vísun á aðrar síður). Myndir hef ég flestar tekið af m.a. barnabörnum mínum, einstaka myndir eru frá leikskólanum Aðalþingi í Kópavogi (myndir þar sem börn sjást eru frá því löngu áður en persónuvendarlögin breyttust). Ég hef rætt myndbirtingar við barnabörnin mín og hef góðfúslegt leyfi þeirra.

 Nafn síðunnar

Laupur er hreiður hrafnsins, þangað safnar hann því sem á vegi hans verður og honum líst á. Hrafninn er glisgjarn og veikur fyrir því sem glitrar og gljáir. Síðunni er ætlað að vera laupurinn minn. Þangað ætla ég að safna ýmsu sem lítur að málefnum og námskrá leikskóla. Það sem mér finnst glitra og gljá í vegferð minni um netið og heim leikskólans. Vefurinn stækkar með tíð og tíma og nær vonandi að fjalla um flest svið leikskólastarfs.

Þeir sem vilja hafa samband við mig er bent á netfang mitt dyr (@) unak.is ég er líka í símskránni.

Á heimasíðu Háskólans á Akureyri er að finna fekari upplýsingar um mig og verk mín.

Kristín Dýrfjörð er eigandi og ábyrgðarmaður síðunnar