Undirbúningstímar í sænskum leikskólum fá falleinkun stéttarinnar
Kristín Dýrfjörð skrifar.
Hér á eftir er endursögn greinar sem birtist í Förskolan 6. febrúar 2025um undirbúningstíma í Svíþjóð. Ég held að margir íslenskir leikskólakennarar geti speglað sig í því sem hér kemur fram og varpað öndinni léttar með að sumt hefur náðst hér. Mér fannst þetta áhuvaverð grein og vona að fleirum finnist það. neðst í sænsku greinini eru tenglar á efni um svipað málefni.
Ófullnægjandi undirbúningstímar leikskólakennara í Svíþjóð

Samtök leikskólakennara í Svíþjóð leggja áherslu á að kennarar þurfi 8–10 tíma á viku í skipulagsvinnu, en samkvæmt nýlegri könnun fá flestir 3,1 tíma á viku, þar af 1,7 tíma fyrir einstaklingsbundna skipulagningu. Þetta skapar mikið álag á leikskólakennara og dregur úr möguleikum þeirra til að skipuleggja og undirbúa gott leikskólastarf. Krafa þeirra er að hver kennari fái á milli 8-10 tíma vikulegan skipulagðan af deild til undirbúnings.
Könnunin sýnir að sex af hverjum tíu leikskólakennurum þurfa að skipuleggja á meðan þeir eru með barnahópnum, og nærri fjórðungur gerir það daglega. Þeir sem óska eftir meiri tíma fá sjaldnast jákvæð viðbrögð frá rekstraraðilum. Í opnum svörum kemur fram að sumir vinna skipulagsvinnuna heima, án þess að fá greitt, á meðan aðrir forgangsraða því að vera með börnunum þar sem skortur á afleysingum og mikil veikindi setja leikskólastarfið reglulega úr skorðum.
Óásættanlegt ástand í leikskólum
Petra Hultqvist, hjá samtökum leikskólakennara, segir að staðan sé óviðunandi. Kennarar hafi hvorki nægan tíma né stuðning til að sinna starfi sínu samkvæmt lögum og námskrá. Þetta veldur streitu og samviskubiti meðal kennara, þar sem verulegur skortur er á jafnvægi milli þeirra krafna sem gerðar eru og vinnuaðstæðna þeirra.
Leikskólakennarar þurfa tíma til að meta starf sitt, ræða við samstarfsfólk, skipuleggja umhverfið, halda sér upplýstum um nýjustu rannsóknir og skrá nám barnanna. Margir hafa ekki nema eina klukkustund á viku til alls þessa.
Samtök leikskólakennara krefjast þess að undirbúningstími verði tryggður á vinnutíma kennara, annað hvort með reglugerð eða kjarasamningi. Einnig þarf að finna nýjar lausnir er tengjast einstaklingsbundnum undirbúningi, t.d. að kennarar geti unnið etekið undirbúning utan leikskólans, þar sem vinnuaðstaða þar er oft ófullnægjandi.
Vísbendingar úr rannsóknum
Annika Hellberg, lektor við Miðstöð skólaþróunar í Gautaborg, hefur rannsakað hvernig leikskólakennarar skipuleggja og leiða starfið. Hún bendir á að margir þurfi að fórna undirbúning vegna skorts á afleysingum, vegna funda eða vegna þess að þeir eru færðir milli deilda til að leysa af eða koma ís tað þeirra sem eru t.d. veikir. Þetta sýnir ekki aðeins hve mikið vinnuálagið er heldur einnig hversu faglegir kennarar eru í starfi sínu þrátt fyrir ófullnægjandi skilyrði.
Leikskólakennarar í rannsókn Hellbergs forgangsraða oft sameiginlegri skipulagningu með samstarfsfólki fram yfir einstaklingsbundin undirbúnng, þar sem það tryggir samræmi í leikskólastarfinu og að allir deili sameiginlegri sýn til barna og um gildi starfsins.
„Einstaklingsbundin skipulagsvinna snýr oft að því að skipuleggja einstakar stundir, en sameiginleg skipulagning er mikilvægari til að þróa leikskólastarfið í stærra samhengi, meta kennsluna og styðja við nám barnanna. Skipulagning er undirstaða alls – án hennar verður ekki fagleg starfsemi,“ segir Hellberg.
Hellberg leggur áherslu á að skipulagning sé undirstaða alls leikskólastarfs, án hennar sé ekki hægt að fylgja námskránni eða sinna faglegu hlutverki kennarans. Hún bendir einnig á að stjórnmálamenn tala oft um mikilvægi leikskóla, en þegar kemur að því að veita nauðsynleg úrræði sé mun erfiðara að fá viðbrögð.
Þörf á úrbótum
Samtök leikskólakennara benda á að mikið vinnuálag, stórir barnahópar og skortur á afleysingum séu meðal helstu ástæðna fyrir því að leikskólakennarar séu ein veikasta starfsstéttin í Svíþjóð. Þeir leggja áherslu á þrjár lykilkröfur:
- Lögbundinn lágmarksfjöldi kennara með börnum.
- Hámark á stærð barnahópa.
- Tryggðar fjárveitingar frá ríkinu, þar sem sveitarfélögin ráða ekki við verkefnið ein.
Hultqvist bendir á að fæðingartíðni sé að lækka í Svíþjóð, sem veitir tækifæri til að minnka barnahópa og bæta starfsaðstæður. Hún telur að rekstraraðilar og stjórnvöld séu farin að sýna aukinn áhuga á málefninu, en það þurfi að fylgja því eftir með raunverulegum aðgerðum.
„Við höfum náð árangri í að vekja athygli á málinu, en við vonumst eftir breytingum í komandi kjarasamningum. Leikskólakennarar þurfa betri starfsaðstæður – og börnin í Svíþjóð eiga rétt á leikskóla sem tryggir þeim jöfn tækifæri til náms og þroska,“ segir hún.
Hér má lesa greinian í heild í FÖRSKOLAN
Mér finnst áhugavert að lesa um þessa rannsókn sérstaklega þar sem ekki er langt síðan leikskólakennarar á Íslandi voru í sömu stöðu, sem betur fer hefur það náðst hérlendis að undirbúngur er núna hluti af föstu vinnuskipulagi og að fólk á að fá bættan þann tíma sem það nær ekki að taka vegna álags. Eitthvað sem íslenskir leikskólakennarar eiga og mega vera stoltir af. Það má þakka það sem vel hefur tekist til.
Sorry, the comment form is closed at this time.