Kristin Dýrfjörð

Veðurfréttamaðurinn

lmyndvarpi IMG_42270108Leikur barna getur tekið á sig ýmsar myndir. Á meðal einkenna hins frjálsa leiks er að hann sé sjálfsprottinn og að börnin semja leikreglurnar sjálf, oft eru þau að túlka og endursemja upplifanir  sínar í leik. Stundum fara fullorðnir inn í leik barna. Þeir eiga hinvegar til að tímasetja innsetningar sínar úr takti við leikinn, jafnvel þó þeir haldi sig innan leikþemans. Svo má líka sjá þegar þeir bæði tímasetja rétt og halda sig innan þemans. Ef það gerist dýpkar leikur barnsins.

Veðurfréttamaðurinn

Á myndbandinu sem hér fylgir má sjá  5,5 ára gamlan dreng leika með myndavarpa heima hjá ömmu og afa. Hann hafði verið að gera tilraunir með myndvarpa, bæði með því að setja ýmislegt á myndvarpann og svo að ákveða hvað það væri sem birtist á veggnum.  Eftir að hafa raðað ýmsu á myndvarpann fór hann að veggnum og hóf lýsingu. Við sem vorum viðstödd áttuðum okkur ekki alveg strax á hvað hann væri að gera. Allt í einu segir mamma hans ertu í veðurfréttaleik. Hann hafði sannarlega verið í slíkum leik en við spurninguna mótaðist leikurinn enn meira í þá átt og varð markvissari.  Á tveimur stöðum komu spurningar sem skiptu máli, annarvegar spurði pabbi hans hann hvort hann ætlaði ekki að fjalla um veðrið í Kópavogi (en þangað eru þau að flytja), Drengurinn lét það ekki trufla sig mikið og hélt áfram að lýsa veðrinu í Vestmannaeyjum, en hafði augljóslega tekið eftir spurningunni því hann fór svo að tala um veðrið i Kópavogi. Þegar ég horfði á myndbandið velti ég fyrir mér hvort að ég hefði fengið meiri og nákvæmari lýsingu á Vestmannaeyjum og þekkingu hans á þeim hefði hann ekki verið truflaður (innan þemans en tímasetning hefði mátt vera betri). Seinna kemur spurning um krakkaveður og það er ekki fyrr en hann það kemur innskot um klæðnað að hann notar spurninguna til að dýpka og þróa leikinn. (Innan þemans og tímasetning i lagi).

Tenging við fyrri reynslu

Augljóslega er hann að nýta þekkingu sýna á veðurfréttum en líka landafræði. Hann nefnir t.d. saman Siglufjörð, Húsavík og Akureyri, allt staði sem hann heimsótti síðasta sumar. Hafnarfjörður er honum augljóslega kær enda búsettur þar. Hann minnist á Reykjavík og svo fjallar hann heilmikið um Vestmannaeyjar sem hann hefur aldrei heimsótt. Hann notar líka ýmis orð úr veðurfréttum , bæði til að lýsa landfræðilegum þáttum, veðurfari og svo klæðnaði.

Hagnýtt gildi

Fyrir leikskólakennara þá getur myndbandið verið dæmi um skráningu og/eða um námssögu. Það er hægt að velta fyrir sér bæði þeirri þekkingu sem kemur fram í leik barna og ekki síður hvernig hinn fullorðni hefur áhrif á leikinn á ýmsa vegu.

Leikurinn stóð yfir í um 8 -10 mínútur og myndbandið óklippt er rúmar 6 mínútur en tæpar 3 mínútur í þeirri mynd sem hér er.

Veðurfréttir

 

Tags: , , , ,

Sorry, the comment form is closed at this time.

Kristín Dýrfjörð er eigandi og ábyrgðarmaður síðunnar