Kristin Dýrfjörð

Viðhorf starfsfólk leikskóla til starfa leikskólastjóra í fyrstu bylgju Covid-19 á Íslandi

Hér er umræðuhluti greinar okkur Önnu Elísu Hreiðarsdóttur á íslensku fyrir þá sem áhuga hafa. Það er tengill á greinina hér fyrir neðan.

Lærdómur rannsóknarinnar

Útgangspunkturinn rannsóknarinnar var: „Hvernig gekk íslenskum leikskólastjórnendum í starfi í fyrstu bylgju heimsfaraldursins?“ Að sögn samstarfólks  þeirra virtust þeir hafa sinnt störfum sínum af fagmennsku og að mestu sýnt góða forystu. Þeir stóðu fyrir sínu, gáfu upplýsingar, sýndu samstöðu og umhyggju, hrósuðu samstarfsfólki og opnuðu nýjar samskiptalínur og sýndu ekki síst sanngirni. Sumir áttu hins vegar í erfiðleikum með að setja mörk eða gátu til dæmis ekki skipulagt eða forgangsraðað upplýsingum. Þeir sýndu svipaðan karakter og skólastjórnendur í mörgum öðrum löndum (Beauchamp o.fl., 2021; Bush, 2021; Logan o.fl., 2021; Longmuir, 2021; Thornton, 2021).

Margir leikskólastjórnendur sýndu færni sem virtist vera hluti af faglegri sjálfsmynd þeirra; þeir virtust ekki breyta leiðtogahegðun sinni en sýndu þess í stað getu sína til að vinna undir álagi og skila árangri í nýju samhengi, sem er til marks um góða forystu og fagmennsku samkvæmt Johnson (2018). Sumir leikskólastjórar valdelfdu samstarfsfólk sitt af þekkingu og fengu það í lið með sér til að skipuleggja húsnæðið og uppeldisstarfið a í fyrstu bylgjunni. Þeir gátu hlustað og sýnt hvatningu; þeir voru mörgum eins klettur í ólgusjó, sem er í sjálfu sér afrek í heimsfaraldri þegar leikskólastjórarnir þurftu að gæta velferðar barna, foreldra, starfsfólks og vonandi sinnar eigin.

Á heildina litið sögðu starfsmenn að leikskólastjórarnir væru tillitssamir og sýndu samstöðu. Þeir sýndu samstarfsfólki samkennd og almennt komu þeir fram við vinnufélaga sína samkvæmt skilgreiningu Halls (2020) á góðri forystu sem byggir á mikilvægi þess að sýna starfsfólki umhyggju og samkennd. Þegar niðurstöður eru bornar saman við greiningartöfluna (tafla 1) kemur í ljós að starfsfólk metur mikils leikskólastjóra með eftirfarandi hæfni: að geta tekið mikilvægar ákvarðanir (Johnson, 2018; Mutch, 2020), að vera áreiðanlegur og takast á við vandamál án tafar. (Drake, 2018; Mutch, 2020), og hæfni til að hugsa vel um starfsfólk sitt og skapa traust og samstöðu (Drake 2018; Hall, 2020; Mutch, 2020). Með það í huga skiptir stuðningur við leikskólastjórnendur sem eigaí erfiðleikum sköpum, ekki bara fyrir velferð þeirra heldur einnig fyrir hag þeirra sem vinna með þeim og barna og fjölskyldna í leikskólum. Það hlýtur að vera forgangsmál hjá sveitarfélögum sem reka leikskólana að finna og styðja við bakið á leikskólastjórum og styðja þá á allan mögulegan hátt. Hins vegar verður að benda á að flest starfsfólk í forystu sveitarfélaga er sjálft undir álagi í heimsfaraldrinum og það er ekki auðvelt að bera kennsl á þá sem eiga í erfiðleikum.

Eins og fram kemur hér að ofan var þessi rannsókn framkvæmd á fyrstu stigum heimsfaraldursins þegar starfsmenn voru enn á því sem Mutch (2020) kallar brúðkaupstímabili (e. honeymoon effect), þar sem eining og vinátta var allsráðandi; þó var ljóst og áhyggjuefni að sumir voru á þessum tíma við það að örmagnast. Eftir stendur spurningin: Hefur skólakerfið, þar með talið leikskólar, burði til að fylgja eftir eða eiga skólasamfélög á hættu að sundrast, sérstaklega þar sem yngri börn eru að veikjast af COVID-19 og eru  nú smitberar? Næstu stig heimsfaraldursins verða erfiðir tímar sem sýna seiglu skólastjórnenda og sumir munu láta undan þrýstingi ef ekkert er að gert. Það verður á endanum kostnaðarsamt fyrir samfélagið ef leikskólastjórar brenna út eða hætta störfum vegna óbærilegs álags, þreytu og streitu sem því fylgir. Til að koma í veg fyrir þetta verða leikskólastjórar að iðka sjálfsumönnun og læra að forgangsraða eigin velferð. Hins vegar er það líka á ábyrgð samfélagsins að bjóða stjórnendum nauðsynlega bjargir, sem gerir þeim kleift að ástunda nauðsynlega sjálfsumönnun og styðja þá til að styðja aðra. Í þessari rannsókn voru leikskólastjórar ekki spurðir um eigin reynslu á þessum erfiðu tímum. Það er hins vegar verðugt næsta skref að fá fram skoðanir þeirra á því hvernig COVID-19 hefur haft áhrif á störf þeirra, líðan og hvaða reynslu þeir taka með sér inn í framtíðina. Einnig er rétt að spyrja hvers konar stuðning leikskólastjórarnir fengu frá sveitarfélögum á meðan á  heimsfaraldri stóð..

Þegar þessi rannsókn var gerð vonuðu flestir að heimsfaraldri væri brátt lokið. Hins vegar, eins og sagan hefur sýnt, átti fleira eftir að koma og langtímaáhrifin á íslenska leikskólakerfið eru eitthvað sem er til síðari til rannsóknar.

Hér er greinin sjálf og ég hvet sem flesta til að líta á hana.

Dýrfjörð, K. & Hreiðarsdóttir, A.E. (2022). Preschool staff perceptions of leader capabilities during COVID-19 early stage in Iceland. Journal of Childhood, Education & Society, 3(1), 74 – 85. DOI: 10.37291/2717638x.202231160

 

SAM_2704

Tags:

Sorry, the comment form is closed at this time.

Kristín Dýrfjörð er eigandi og ábyrgðarmaður síðunnar