Vinátta barna
Flest börn eiga vini, flest eiga þau sér vini af sama kyni og á svipuðum aldri, en ekki öll, sum börn eiga vini af hinu kyninu og sum börn eiga ekki vini. Sum börn í leikskólum eru einmana. Það er áhyggjuefni. Þetta kom fram í afar áhugaverðum fyrirlestri Fannýjar Jónsdóttur í KHÍ þann 23 apríl 2008. Umfjölunnin er um doktorsverkefni Fannýjar og birtist fyrst á blogginu mínu.
Fanný Jónsdóttir er leikskólakennari og lektor við kennaraháskólann í Malmö. Í fyrirlestrinum kynnti hún doktorsverkefni sitt um vináttu barna í leikskólum. Hún skoðaði 18 leikskóladeildir í tveimur bæjarfélögum. Hún komst að því að það sem einkenndi þær deildir þar sem börn voru einmana (vel að merkja í þessari rannsókn, ekkert er verið að alhæfa en kannski má þarna finna vísbendingar), það sem einkenndi þær deildir er að þar er mikil ytri stjórn, þar er mikið talað til barna en minna við börn. Ég les úr að uppeldið sé byggt á fyrirmælum og skipunum, að láta hlýða sér. Sjálf sá ég heilmiklar tengingar milli þess sem styður við vináttu og hugmyndafræði um lýðræði í skólastarfi, við skilgreiningar sem tengjast því að hafa rétt til að tilheyra, til að eiga vini til að geta nýtt reynslu sína og svo framvegis. Að hluta til það sem ég ræddi á ráðstefnunni Raddir barna í síðustu viku (apríl 2008 í Borgarleikhúsinu).
Á fyrirlestri Fannýjar sem var vel sóttur var meðal annars rætt um hvernig dagskipulag og starfshættir styðja við eða draga úr vináttu barna og þær afleiðingar sem það hefur fyrir börn að alast upp einmana. Fanný er skemmtilegur fyrirlesari, hún þekkti marga í salnum og nýtti sér það óspart. Tengdi fyrirlestur sinn því fólki. Magga þegar þú kenndir mér um uppeldisfræði yngstu barnanna (við Margréti Schram), Sigga þegar við lékum okkur á Brekkunni, Kristín …. Hún notaði allan kroppinn til að túlka það sem hún vildi leggja áherslu á. Fanný er búin að vera lengi, lengi í Svíþjóð og hefur alls ekkert hugsað leikskólafræði á íslensku í áratugi, en það var ekkert mál, þá skaut hún yfir í svísslensku.
Það sem er skemmtilegast við að fara á svona fundi er að hitta alla leikskólakennarana sem mæta, að sjá öll kunnuglegu andlitin og líka þau nýju. Verð að fá að vera aðeins væmin, á svona stundum er ég svo stolt af því að vera leikskólakennari. (snuff snuff)
Eftir fyrirlestur Fannýjar hitti ég nokkra leikskólakennara sem þurftu svolítið að ræða við mig um fyrirlesturinn minn á föstudaginn og túlkun á honum. Virðist sem umfjöllun mín um þátttöku og stýringu starfsfólks í verkefnum og athöfnum barna hafi vakið umræður í þeirra leikskólum. Aðrir hafa komið til mín og viljað halda áfram að ræða vangaveltur mínar um einstaklingsnámskrána. Það verður að segjast að það er ótrúlega skemmtilegt að finna að fyrirlestur vekur svona miklar pælingar. Kannski er það viðeigandi á síðasta Vetrardegi að ræða breytingar og hugmyndir í uppeldismálum því að á morgun hefst nýtt sumar. Þá nær margt fleira að blómstra en náttúran.
Á morgun er nefnilega Sumardagurinn fyrsti, mér þykir reyndar einstaklega vænt um þann dag og að hann skuli enn vera frídagur. Að einn dagur á ári sé helgaður börnum segir svolítið um gildi samfélagsins. Þegar ég fjalla um leikskóla og málefni barna í útlöndum tengi ég gjarnan við Sumardaginn fyrsta og þá sérstöku merkingu sem hann hefur fyrir okkur leikskólakennara. Ég vona að Félag atvinnurekanda takist aldrei að fá þennan frídag burt í samningum eins og stundum hefur heyrst að áhugi sé fyrir.
Gleðilegt sumar.
PS. Hér er slóðin inn á doktorsritgerðina hennar Fannýjar fyrir áhugasama.
Sorry, the comment form is closed at this time.