Vita leikskólakennarar ekki að þeir eru að kenna lestur?
Ég heyrði því fleygt um daginn að við leikskólakennarar höfum í gegn um tíðina ekki fattað að við kenndum börnum að lesa. Það hefði í raun þurft utanaðkomandi fræðimann til að segja okkur það og það meira segja á þessari öld. Við hefðum verið okkur alveg ómeðvituð um að við værum að leggja grunn að læsi barna í leikskólanum. Ég hváði og spurði hvort viðkomandi hafi verið alvara eða hvort þetta hafi verið hluti af einhverju gríni? Nei ekkert grín. En þetta hefur varla verið einhver sem veit eitthvað um leikskóla sagði ég. Jú, viðkomandi er einmitt í stöðu sem ætti að tryggja lágmarksþekkingu á leikskólanum. En greinilega gerir það ekki.
Lestrarnám barna í leikskólanum
Ég varð leikskólastjóri 1988, á leikskóla fyrir 3- 6 ára börn, frá okkur fór alltaf drjúgur hluti barna í 6 ára bekk sem voru við það að verða læs eða jafnvel vel læs. Við gerðum líka ýmislegt í því að gera læsi og letur sýnilegt í leikskólanum. Við unnum t.d. mikið með markvissa málörvun, notuðum þulur og ljóð, lögðum inn takt og hrynjanda tengt tungumálinu, klöppuðum atkvæði, veittum eftirtekt fyrsta stafi orða, pældum í lestrarstefnu og svo má lengi telja. Við lögðum áherslu á að hafa letur sýnilegt í umhverfi leikskólans. Þetta var fyrir daga tölvunnar og við samræmdum skrift, í kaffistofunni lágu meira að segja frammi skriftarblöð svo við gætum æft ítölsku skriftina sem þá var allsráðandi. Við vildum að börnin væru henni vön í umhverfi sínu þegar þau kæmu í grunnskólann. Við lögðum líka áherslu á að vinna með munstur og að börn ættu að klára eða álykta fyrir um hvernig munstur þróaðist. Barnabækur voru mikið notaðar bæði til að lesa okkur öllum til skemmtunar og til að auka orðaforða og hugmyndaauðgi barna en við lögðum líka áherslu á að eiga fræðibækur fyrir börn. Þannig fékk teymi leikskólakennara það hlutverk að safna saman á einn stað öllum bókum sem tengdust því þema sem við unnum að á hverjum tíma alveg eins og annað teymi valdi þulur, ljóð og söngva sem tengdist viðkomandi þema.
Já og við merktum hluti bæði með mynd og nafni og svo seinna bara með nafni. Þannig tengdu börnin saman letrið og merkingu þess.
Það er alveg rétt að við sögðum alltaf að við værum ekki að kenna lestur eins og grunskólinn en við sögðum líka að við værum að leggja grunn að lestrarnámi barna. Á sama hátt og við lögðum grunn að skriftinni með því að hafa greiðan aðgang að blöðum og trélitum, með því að pæla í mismunandi formi hluta og að börnin skrifuðu nafnið sitt.
Seinna tók Laugaborg svo forystu í að gera læsi enn sýnilegra í leikskólanum, þau fóru af stað með afar athyglisvert þróunarverkefni sem átti eftir að hafa mikil áhrif á leikskólastarf í þá átt að gera læsið sýnilegra.
Við leikskólakennarar vissum sem sagt alveg upp á hár hvað við vorum að gera og til hvers við vorum að því. En við þvertókum mörg fyrir að vinnubrögð okkar væru bein kennsla. Við kenndum í gegn um leikinn, umhverfið og daglegar athafnir. Ég held að í dag segist fleiri leikskólakennarar vera að kenna undirstöðuatriði lesturs en við gerðu í þá daga þegar við hétum enn fóstrur.
Að það hafi þurft utanaðkomandi fræðimann til að upplýsa okkur um hvað við séum að gera í vinnunni er mesta firra sem ég hef lengi heyrt.
Kristín Dýrfjörð er leikskólakennari, fyrrum leikskólastjóri og núverandi háskólakennari.
Sorry, the comment form is closed at this time.