Reggio Emilia
Rætur uppeldsstarfsins í Reggio Emilia má að hluta rekja til þeirrar þrár fólksins að þurfa aldrei framar að horfast í augu við afleiðingar fasismans og að hluta til sósíalískrar hefða á Norður Ítalíu (Rinaldi, 2005). Rétt eftir seinni heimstyrjöldina var fyrsti leikskólinn þar settur á stofn með það að markmiði að ala þar upp gagnrýnin börn sem stæðu vörð um lýðræðið (Malaguzzi, 1998). Aðferðin öðlaðist nýtt líf árið 1963 þegar borgarstjórnin í Reggio Emilia bað Loris Malaguzzi um að leiða uppeldistarfið í leikskólum borgarinnar, verða brautryðjandi og lóðs drauma þeirra.
Malaguzzi segist sjálfur hafa verið undir áhrifum frá mörgum hugmyndafræðingum, meðal þeirra má nefna, Dewey, Piaget, Makarenko og Vygotsky (Malaguzzi, 1998; Soler and Miller, 2003).
Hægt er að lýsa kjarna starfsins í Reggio Emilia með orðum Rinaldi (2005) hún segir „við höfum skuldbundið okkur til að byggja upp núið samtímis því að vera meðvituð um fortíðina og ábyrg fyrir framtíðinni“ (bls. 170). Sýn okkar á barnið er að það er borgari lífsins og að það er „handhafi rétts, gilda og menningar, bernskumenningar“ (bls. 171). Ríkjandi sýn í heimspeki Reggio Emilia er að hugtakið bernska sé félagsleg hugsmíð og í ljósi þess eru kennarar og börn samverkamenn við að byggja upp þekkingu og samfélag.
Rinaldi (2005) trúir að skólar eigi að vera opinberir og fyrir alla, hún hefur lýst yfir áhyggjum af skólum byggðum á aðskilnaði eftir t.d. trúarbrögðum og/eða kyni. Hún segir: „það er mikil áhætta fólgin í að börn alist upp við að spegla sig aðeins í því sem líkist þeim sjálfum eða í tilteknum hóp, mín hugmynd um skóla er skóli sem byggir á fjölhyggju“ (bls. 208).
Í Reggio Emilia hefur verið vilji til þess að láta reyna á mörk og fara yfir landamæri, vilji til þess að vera í samræðu við umheiminn. Engin vissa fylgir hvert það getur leitt að fara yfir landamæri en einmitt þess vegna er það talið eftirsóknarvert. Ég líki saman hugmyndinni um það að ferðast yfir landamæri við hugmynd Dewey um frjáls sambönd en tekin skrefinu lengra. Skýringin felst að hluta í að samtíma samfélög eru mun sveigjanlegri og landamæri ekki eins skýr og var við upphaf síðustu aldar. Sem dæmi má víða finna mjög óljós mörk á milli samtíma listar og vísinda. Fræðigreinar eru samtímis að verða sérhæfðari og fjölþættari. Í sama bili og heimurinn þenst út og stækkar er hann að skreppa saman. Lausnarorðið er samvinna. Samlíkingin í Reggio Emilia um að ferðast yfir landamæri er talin vera arfleið Malaguzzi en hann sagði:
Umræða um menntun … getur ekki verið bundin við bókmenntir hennar. Slík umræða er líka pólitísk, verður stöðugt að snerta á megin félagslegum breytingum og umbreytingum í hagfræði, vísindum, listum og á mannlegum samskiptum og siðvenjum. (Malaguzzi, 1998, bls. 60)
Ljóst má vera að Malaguzzi vildi að Reggio Emilia rétti fram hönd til mismunandi menningarheima, vildi vera í lifandi samræðu við bæði míkró og makró heiminn, við vísinda og listamenn sem fylgdu mismunandi brautum lífsins.
Rinaldi (2005) lýsir því yfir að þau gildi sem fólkið í Reggio Emilia leggi til grundvallar séu fjarlæg þeim gildum sem skekja samtímann, gildi sem byggja á einstaklingshyggju, sjálfselsku, peningum og áfram mætti telja. En einmitt vegna þess hversu hátt slíkum gildum er gert undir höfuð er mikilvægt að staðir þar sem ung börn menntast haldi fram sammannlegum gildum. Rinaldi segir: „ef skólar eru staðir þar sem menntun á sér stað, þá eiga allir staðir innan skólans og allt það fólk sem þar starfar að vera í hlutverki þeirra sem mennta“ (bls 150).
Skildu eftir svar
Þú verður að skrá þig inn til þess að rita athugasemd.